Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 13:53:08 (5595)

2004-03-23 13:53:08# 130. lþ. 88.96 fundur 431#B afleiðingar hermdarverkanna í Madríd# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Heiti þessarar umræðu er: Afleiðingar hermdarverkanna í Madríd. Afleiðingarnar eru ótvírætt þær sem hryðjuverkamennirnir ætluðu sér. Hundruð saklausra borgara liggja í valnum og ótti og öryggisleysi hefur vaxið um allan heim. Meginmarkmið hryðjuverkanna með þessari árás, eins og með mörgum öðrum, einnig þegar þeir ráðast á Íraka og aðra múslíma, er þó að valda sem mestum skaða á grundvallargildum frelsis, lýðræðis og mannréttinda. Það er hins vegar undir viðbrögðum okkar komið hvernig þeim tekst til og hvort þeir ná þeim markmiðum sínum.

Herra forseti. Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 2001 var ljóst að þjóðir heims yrðu að vera viðbúnar því að bregðast við þessari nýju ógn og að þær þyrftu að endurskoða allan viðbúnað sinn í varnar- og öryggismálum. Þetta hefur verið gert úti um allan heim og við þeim hörmungum hefur líka verið brugðist hérna heima. Öryggismálin á Keflavíkurflugvelli hafa gjörbreyst frá 2001 með tilheyrandi nauðsynlegum kostnaði. Hitt brýna verkefnið í samstarfi við aðrar þjóðir er að vinna gegn stuðningi við hryðjuverkamenn og íslamska öfgamenn. Það gerum við best á alþjóðavettvangi, ekki með því að leita að einhvers konar réttlætingu á aðgerðum hryðjuverkamanna heldur með hvers konar stuðningi þar sem hans er mest þörf, stuðningi við lýðræðisþróun og við efnahagslegar og félagslegar umbætur.