Erfðafjárskattur

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:23:28 (5605)

2004-03-23 14:23:28# 130. lþ. 88.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:23]

Ásta Möller:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um það frv. til laga sem er til umfjöllunar um erfðafjárskatt, þar sem ég hef ekki haft tækifæri til þess að taka þátt í umræðunni fyrr. Það sem mér finnst skipta máli í þessu sambandi er að hérna er eitt af fyrstu merkjunum um þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur boðað að séu fram undan. Ég fagna því að frv. er komið fram og hlakka til að sjá fleiri merki um skattalækkanir eins og boðað hefur verið.

Ég hef líka fylgst með umræðunni í þinginu um erfðafjárskattinn og vil taka fram að ég tel að hv. efh.- og viðskn. hafi tekið skynsamlega ákvörðun með því að samræma skatthlutfallið í eina tölu, 5%, sem er ákveðin einföldun á erfðafjárskattinum. Þetta er einföldun í skattlagningu og auðvelt að fylgja henni eftir því eftir því sem skattalögin eru einfaldari, því auðveldara er að fylgja þeim.

Það má í rauninni færa ýmis rök fyrir því að fella alfarið niður erfðafjárskatt. Á sama hátt má líka taka undir að það eru ákveðin rök fyrir því að fella niður erfðafjárskatt af því sem fer til líknarfélaga. Ég tek undir það sem sagt hefur verið í dag að mjög mikilvægt er að styðja við líknar- og menningarstofnanir með ýmsum hætti, því það hefur oft verið talað um að fjármagn sem fer til líknarfélaga og til sjálfstæðra félagasamtaka hafi þá náttúru að margfaldast í meðhöndlun þeirra sem hafa fjármagnið með höndum.

Ég held hins vegar að það sé rétt niðurstaða að samræma þetta og að sama regla gildi yfir alla. Ég held að það skipti ekki meginmáli til framtíðar hvort það er 5% erfðafjárskattur á því fjármagni sem færi til líknarfélaga eða enginn.

Ég vildi í örfáum orðum lýsa ánægju minni með þá breytingu sem hefur átt sér stað í meðhöndlun hv. efh.- og viðskn. og styð málið.