Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 15:24:28 (5619)

2004-03-23 15:24:28# 130. lþ. 88.9 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., Frsm. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Frsm. minni hluta (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Atvinnusaga Íslendinga er samofin síldveiðisögu þjóðarinnar. Segja má að atvinnulíf okkar Íslendinga hafi framan af síðustu öld þróast með vissum hætti í kringum síldveiðar. Mjög víða voru síldveiðarnar undirstaða uppbyggingar í ákaflega mörgum fyrirtækjum og byggðarlögum við ströndina. Þegar kom fram á sjöunda áratuginn má segja að á nokkrum árum hafi orðið bylting í ákveðnum byggðarlögum vegna þess að Íslendingar náðu forskoti á aðrar þjóðir í krafti þess að þeir tóku tæknina sem þá var að þróast í síldveiðum og veiðum á uppsjávarstofnum miklu hraðar í sína þjónustu en aðrar þjóðir, t.d. Norðmenn. Þetta leiddi til þess að þegar sótt var hvað harðast í norsk-íslenska síldarstofninn veiddu Íslendingar langmest allra þjóða. Á hátindi veiðanna rétt áður en til hrunsins kom og eftir að Norðmenn höfðu hafið gegndarlausa rányrkju á seiðum í norskum fjörðum, voru Íslendingar að veiða upp undir og yfir 40% af heildarafla. Þannig held ég að segja megi að árið 1965 eða 1966 hafi Íslendingar veitt 43% af fullorðnu síldinni.

Það skiptir þess vegna ákaflega miklu máli fyrir þróun byggðar á austur- og suðausturhluta landsins að okkur takist í samvinnu við aðrar þjóðir að byggja stofninn upp aftur. Það er engum blöðum um það að fletta að eins og markaðir eru að þróast og eins og hagsæld þjóða sem líta má á sem hefðbundnar síldarneysluþjóðir er að aukast úti í Evrópu, þá eru þarna miklar vonir um verðmæti í framtíðinni. Þess vegna skiptir miklu máli hvernig Íslendingar halda á málum gagnvart þeim sem ásælast þennan stofn. Ég á þá fyrst og fremst við þær óbilgjörnu kröfur sem Norðmenn hafa sett fram á síðustu árum og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir lýsti ágætlega.

Ég vil líka segja það áður en lengra er haldið að mér finnst nál. meiri hlutans að mörgu leyti ákaflega gott. Ég get tekið undir margt af því sem þar segir. Ég er algjörlega sammála þeim varhuga sem hv. formaður utanrmn. geldur við því nýmæli sem hún gerði að sérstöku umræðuefni og varðar heimild til veiða af hálfu Íslendinga innan norskrar efnahagslögsögu. Það kom alveg skýrt fram í máli hv. formanns utanrmn. að Norðmenn eru bersýnilega að reyna að þrýsta okkur til þess að veiða meira innan sinnar efnahagslögsögu, ekki aðeins gegn því að þeir fái meira í sinn skerf af heildaraflanum heldur eru þeir beinlínis að gera það til þess að veikja samningsstöðu okkar eins og ég og fleiri hv. þm. úr stjórnarandstöðunni munum koma að í ræðum okkar í dag.

Ég tek sérstaklega undir með hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur að það er ekki heppilegt að samningur af þessu tagi, jafnmikilvægur og hann er, sem varðar jafnþunga hagsmuni og við Íslendingar höfum af nýtingu þessa stofns, skuli koma með þeim hætti í þingið eins og raun ber vitni. Hv. formaður utanrmn. gerði að sérstöku umræðuefni þá staðreynd að samningunum, sem gerðir eru við tvær þjóðir, var lokið annars vegar við Færeyinga 4. júní og hins vegar við Norðmenn 26. júní. Nú ætla ég ekki að gera kröfu til þess jafnvel þó að þessum samningum hefði verið lokið í tíma fyrir vorþing sem háð var að loknum kosningum að þeir hefðu verið lagðir fyrir þetta þing. Hefðin er önnur. Ég geri ekki athugasemdir við það.

Hins vegar verður að gera harðar athugasemdir við þá staðreynd að samningarnir voru ekki lagðir fram á haustþingi. Þeir voru lagðir fram á fyrsta degi eftir að þing kom saman á þessu ári, þ.e. 28. janúar sl. Það eru algjörlega óásættanleg vinnubrögð. Um það erum við þingmenn Samf. og hv. þm. Frjálsl. algjörlega sammála. Þetta eru vinnubrögð sem hvorki þeir starfsmenn utanrrn. og sjútvrn. sem komu til fundar við nefndina gátu útskýrt þá, né hæstv. utanrrh. þegar hann var inntur eftir þessari óskiljanlegu töf hér við umræður málsins, sem fóru fram þegar það var lagt fram.

Ég verð að segja að það þjónar harla litlum tilgangi að ræða samninga sem eru búnir að renna hálft skeið sitt á enda, ný samningalota er hafin og henni er í reynd lokið. Til hvers er verið að leggja fram slíka samninga til umræðu í þinginu? Vissulega þarf formlega staðfestingu þingsins. En ætlan þingsins, þegar upphaflega var lagt á þá braut að ræða samning af þessu tagi, var auðvitað ekki sú að þingið yrði eins konar formlegur stimpill sem engu máli skiptir fyrir framvindu málsins. En það má lesa að það viðhorf sé það sem ráði hjá hæstv. utanrrh. með þessum slælegu vinnubrögðum.

[15:30]

Auðvitað er það svo, herra forseti, að eitt af því sem hlýtur að vera höfuðtilgangur með umræðu samninga af þessu tagi er að fá fram viðhorf þingmanna til einstakra efnisatriða í samningum og finna hvort um þá er samstaða. Þetta skiptir ekki síst máli, herra forseti, þegar við blasir, eins og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, formaður utanrmn., gerði að sérstöku umræðuefni að um er að ræða nýmæli í samningnum sem hægt er að deila um. Hv. þm. sem hafði framsögu áðan tíndi til ákveðnar skýringar sem fengust á því. Ég ætla ekki að gera nokkrar athugasemdir við þær skýringar. Við sem stöndum að nefndarálitinu gerum okkur líka grein fyrir því að menn þurfa að gefa eftir til þess að ná samningum. Það er hins vegar ákaflega mikilvægt að vilji þingsins, einstakra flokka og einstakra þingmanna til þessa tiltekna ákvæðis sem varðar skipti á aflahlutdeild gegn möguleikum á að veiða innan marka norskrar efnahagslögsögu komi fram í þinginu. Hægt er að finna að þessu og eins og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir sagði í ræðu sinni áðan er þetta óheppilegt fyrirkomulag.

Það er rétt hjá meiri hlutanum að þetta styrkir fremur samningsstöðu Norðmanna en okkar. Raunar veikir þetta samningsstöðu okkar. Það mátti glöggt lesa á milli línanna hjá hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur að það var augljóst á lýsingu hennar að Norðmenn höfðu verið þessa fýsandi. Hv. þm. sagði að þetta hefði verið nauðsynlegt til þess að ná samningum. Af því er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að Norðmenn hafi ekki viljað ljúka samningum fyrr en það var alveg ljóst að búið var að þrýsta Íslendingum til að veiða ákveðna hlutdeild innan norsku efnahagslögsögunnar.

Ég tel, herra forseti, að það hefði verið mjög gagnlegt fyrir hæstv. utanrrh. að hafa þau viðhorf sem ég er að túlka og aðrir þingmenn eins og t.d. Frjálsl. og hugsanlega VG líka eru sammála um. Það er hin lýðræðislega aðferð. Þingið á að fá að hafa skoðun á slíkum málum og hæstv. utanrrh. verður a.m.k. að hafa hliðsjón af þeim viðhorfum, þó ekki sé hægt að gera þá kröfu að hann fari endilega eftir þeim. En mér þykir þinginu lítill sómi sýndur með þessu.

Það hefði verið einkar gagnlegt fyrir ríkisstjórnina að hafa þetta til hliðsjónar þegar endurnýjunarferlið hófst. Við sem stöndum að nefndarálitinu tökum þess vegna undir þau orð sem hv. þm. Sólveig Pétursdóttir lét um þetta falla. Við göngum reyndar lengra, við áteljum þessi vinnubrögð og teljum að það sé ekki í þágu samningshagsmuna Íslendinga að vinna með þessum hætti. Það eru því eindregin tilmæli okkar til hæstv. utanrrh. að hann hagi vinnulagi sínu með öðru móti í framtíðinni.

Ég sagði áðan að við sem stöndum að nefndarálitinu höfum fullan skilning á því að í samningum þurfa menn stundum að slaka á. Við höfum fullan skilning á því að menn þurfa að gera ýmislegt til þess að ná samningum um veiðar úr stofni sem er jafnmikilvægur og sá norsk-íslenski. Það er hins vegar svo að sú hlutdeild sem Íslendingar hafa fengið allar götur frá því á síðasta áratug úr þessum stofni er í engu samræmi við sögulega veiðireynslu. Þar er um mikla fjármuni að tefla. Vonir standa til þess að okkur takist að byggja stofninn upp í framtíðinni með því að haga nýtingu skynsamlega í samvinnu við aðrar þjóðir. Ef stofninn nær aftur fyrri stærð standa allar líkur og öll söguleg reynsla hnígur að því að fullorðna síldin taki aftur upp göngur á svæðin sem hún dvaldi á áður og eru nú innan og við íslensku efnahagslögsöguna. Áður fyrr dvaldi hún þar í ætisleit sjö til átta mánuði á ári og ástæðan fyrir því að hún tók sér ból á þeim árstíma þá var að stofninn var svo stór að það var einfaldlega ekki pláss fyrir fullorðna síld sem var að byggja sig upp fyrir hrygningu við strendur Noregs og annars staðar.

Mér finnst að mjög hafi skort á í máli hæstv. utanrrh. alveg frá því að hann mælti fyrir samningnum um skiptingu úr þessum stofni árið 1996, að það yrði reifað á hinu háa Alþingi hvaða röksemdir standa að því að við eigum að geta krafist ríflegs skerfs úr stofninum. Niðurstaðan er eins og hér hefur komið fram að Íslendingar hafa 15,54% af stofninum. Það er allt of lítið og það hefur ekki síst byggst á óbilgirni Norðmanna sem hafa krafist þess að fá ákaflega stóran hlut úr stofninum. Þeir hafa byggt það á fölskum staðhæfingum um að það hafi verið veiðar Íslendinga sem drápu niður stofninn þegar hann hrundi upp úr 1967. Þetta er hins vegar ekki rétt. Fyrir liggja vísindalegar niðurstöður og álit virtustu fræðimanna Norðmanna á sviði fiskvísinda sem sýna í reynd fram á allt annað. Og það er síst í þágu íslenskra hagsmuna, og alls ekki í ljósi þeirra óbilgjörnu krafna sem Norðmenn hafa verið að setja fram, að þeim staðreyndum skuli ekki vera haldið hátt á lofti.

Enn síður, herra forseti, er hægt að skýra það sem ekki er hægt að kalla annað en linkind í ummælum sem hæstv. utanrrh. hefur látið falla í umræðum um samninginn á hinu háa Alþingi. Þau ummæli er ekki hægt að túlka með öðru móti en svo að hæstv. utanrrh. telji koma til greina að gefa enn frekar eftir gagnvart Norðmönnum.

Ég er hér, herra forseti, að vísa til umræðna sem fóru fram á Alþingi 24. febrúar og það er ekki síst í krafti þeirra og vegna þeirra ummæla sem við, þingmennirnir sem að þessu stöndum, treystum okkur ekki til þess að styðja það álit sem meiri hlutinn stendur að. Í umræðunni 24. febrúar sagði hæstv. ráðherra m.a. um samskipti Norðmanna og Íslendinga, með leyfi forseta:

,,Það er ekki afsakanlegt að setja samskipti þeirra í uppnám út af nokkrum þúsundum tonna af síld.``

Hvað var það sem hæstv. utanrrh. átti við? Hvað var það sem vakti fyrir manni sem hefur formlega forustu fyrir samningaviðræðum við Norðmenn að láta svona út úr sér rétt í þann mund sem það er meira að segja að slitna upp úr samningum? Ég innti hæstv. ráðherra eftir því og hann skýrði þessi orð sín síðar í sömu umræðu á þessum febrúardegi með svofelldum hætti, með leyfi forseta:

,,Það sem ég átti við þegar ég talaði um nokkur þúsund tonn af síld er að ég tel, og ég skal endurtaka það, að t.d. 3.000--5.000 tonn af síld séu ekki af þeirri stærðargráðu að þau réttlæti upplausn í samskiptum Íslands og Noregs. Hvaða efnahagslega stærð er það fyrir stórveldið Noreg? Hvaða máli skiptir það í efnahagslegu samhengi? Það skiptir meira að segja tiltölulega litlu máli fyrir Ísland sem er efnahagslega miklu minna.``

Þetta sagði hæstv. utanrrh. í þeirri umræðu. Við sem stöndum að nefndarálitinu teljum algjörlega fráleitt og óábyrgt af hæstv. ráðherra að tala með slíkum hætti, ekki síst þegar ekki er búið að ljúka samningum og þeir eru í uppnámi. Hvað felst í þessum orðum? Það er ómögulegt að leggja annan skilning í þau en þann að þarna sé hæstv. ráðherra að gefa sterklega til kynna að verjanlegt sé að gefa eftir 3.000--5.000 tonn af hlutdeild Íslendinga til að friða Norðmenn. Og þessi orð fóru úr þessum ræðustól svo að segja í þann mund sem menn voru að ljúka árangurslausum samningaviðræðum við Norðmenn. Við sem stöndum að nefndarálitinu teljum engin efnisleg rök fyrir þeirri eftirgjöf og þeirri linkind sem felst í orðum hæstv. ráðherra frá þessum degi. Við teljum að þetta þjóni ekki hagsmunum Íslendinga og miklu frekar hlýtur viðhorf sem kemur fram af munni hæstv. utanrrh. að styrkja stöðu Norðmanna hvað þá þegar þau eru sögð á Alþingi.

Það er skoðun mín, herra forseti, að ummæli af þessu tagi og það viðhorf sem þar birtist af hálfu utanrrh. gefi til kynna að hæstv. ráðherra skilji ekki hvernig gangur veiðisögunnar var og geri sér ekki grein fyrir því að það voru ekki við sem áttum sök á óförum stofnsins. Það voru einmitt Norðmennirnir sem hann er að tala um í þessum orðum í þá veru að réttlætanlegt sé að láta eftir enn ríkari skerf af okkar hlut.

Mér sýnist því, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. hafi mengast nokkuð af þeirri umræðu sem reglulega sprettur upp af miklum ofsa í Noregi, og er fyrst og fremst knúin af norskum útvegsmönnum, þar sem staðhæft er að hrun stofnsins á sjöunda áratugnum megi fyrst og fremst rekja til rányrkju Íslendinga. Og fyrir bragðið segja þeir sem svona tala að þá sé sögulegur réttur Íslendinga til að veiða úr stofninum rýr.

Ég ítreka að frá sjónarhóli allra, ekki bara Íslendinga, heldur allra þeirra sem hafa skoðað þessi mál, m.a. norskra vísindamanna, er þetta ekkert annað en hrein fölsun á sögunni. Það hefur ítrekað komið fram og ég rifja það sérstaklega upp að Gunnar Flóvenz, sem á sínum tíma varð eins konar ókrýndur síldarkóngur Íslendinga vegna þess að hann hélt ákaflega vel og dyggilega utan um hagsmuni Íslendinga sem tengdust síldveiðum, ítrekaði þetta aftur og aftur í ræðu og riti.

Það er hins vegar svo að þetta virðist ekki hafa náð eyrum ráðamanna íslensku þjóðarinnar og þeirra sem stýra samningaviðræðum við Norðmenn. Þeir virðast ekki gera sér grein fyrir eða hafa ekki haft fyrir því að kynna sér málflutning þeirra sem hafa verið að reyna að upplýsa þá og uppfræða að hið mikla hrun stofnsins upp úr 1965 má alfarið rekja til gífurlegrar rányrkju Norðmanna sem þá hafði staðið yfir á seiðum í meira en áratug. Þetta eru staðreyndir sem norsk stjórnvöld reyna jafnan að fela. Og það verð ég að segja norskum fræðimönnum til hróss að þeir hafa gengið að því að greina orsakir hrunsins eins og vísindamönnum sæmir af hlutleysi og hlutlægni og þeir hafa einfaldlega komist að annarri niðurstöðu. Ég er að vísa til þess að árið 1980 birtu norskir sérfræðingar fræðilega úttekt á þróun veiða úr stofninum og það er ákaflega athyglisvert að ein af þremur meginniðurstöðum þeirra var að veiðar Norðmanna á núll til tveggja ára síld leiddu til hruns norsk-íslenska síldarstofnsins á seinni hluta sjöunda áratugarins.

Þetta er auðvitað það sem skiptir máli og það er sú röksemd sem við eigum að tefla fram gegn Norðmönnum, ekki síst nú um stundir þegar þeir koma með haffræðilega dreifingu stofnsins eins og fallstykki í hausinn á okkur í hverjum samningaviðræðunum á fætur öðrum.

Rányrkjan sem norsku vísindamennirnir vísa til, þó að þeir orði það ekki svo, var ekkert í líkingu við neitt sem við þekkjum hér á landi. Við veiðarnar notuðu Norðmenn svo smáan möskva að jafnvel það sem hægt er að flokka undir örseiði sluppu ekki undan. Það var beinlínis sérstök útgerðargrein sem gerði út á veiði á smáseiðum á haustin þegar árgangur sem var nýklakinn úr hrognum leitaði skjóls inn á fjörðum. Sú veiði hélt svo áfram inni á fjörðunum út veturinn.

Þess ber að geta til upplýsingar að síldin varð ekki fullþroska, þ.e. hún náði ekki hrygningarþroska, fyrr en hún var orðin fjögurra ára gömul en norskir fiskimenn veiddu daglangt og náttlangt það sem þeir kölluðu feitsíld, sem var eins til fjögurra ára síld, úti fyrir Finnmörku og Lófót. Þessar veiðar hófust síðla sumars og stóðu með ofsa og miklu kappi langt fram á haustið.

Þegar menn skoða aflatölur sem liggja fyrir í opinberum gögnum og opinberum vísindagreinum, m.a. þeirra fræðimanna sem ég vísaði til, birtist hversu ótrúleg rányrkjan var á ungviðinu.

[15:45]

Á tímabilinu 1950 og næstu 15 ár á eftir veiddu Norðmenn af síldarseiðum og smásíld hundruð þús. tonna. Darraðardansinn var slíkur að upp úr 1965, rétt fyrir hrun stofnsins, öfluðu Norðmenn 550 þús. tonna af því sem ekki er hægt að kalla annað en smásíld, og ári síðar veiddu þeir nánast það sama eða 450 þús. tonn.

Mönnum kann að standa ógn af þessum tölum þegar þeir standa andspænis villiveiði af þessum toga. Hvað segja menn þegar síðan er skoðað hvað menn veiddu beinlínis af síldarseiðum sem voru ekki orðin tveggja ára? Þá kemur í ljós að á hverju einasta ári á þessu 15 ára skeiði sem ég nefndi, veiddu Norðmenn aldrei undir 100 þús. tonnum af síldarseiðum. Stundum veiddu þeir miklu, miklu meira.

Í byrjun sjötta áratugarins veiddu þeir um 300 þús. tonn af síldarseiðum og fyrsta árið þess sjöunda veiddu þeir 250 þús. tonn. Það má til samanburðar geta þess að afli okkar Íslendinga þessi sömu ár, sem uppistóð aðallega af 6--8 ára síld á þessum árum, stundum að vísu miklu eldri síld, var snöggtum minni og þó var alveg ljóst að sú veiði hafði ekki áhrif á stofninn.

Ef menn skoða hlutfall hvers árgangs sem slapp undan rányrkju Norðmanna og náði því að lifa í fjögur ár og komast þannig inn í þann flokk síldarinnar sem má skilgreina sem fullorðna hrygningarsíld sést kannski best hvað var að gerast þarna. Af tölum norskra fræðimanna kemur í ljós að seiðaveiðin og smásíldarveiðin gjöreyddi mörgum árgöngum. Í sumum tilvikum náðu einungis örfá prósent að stálpast og verða fullorðin og ná að ganga á slóðirnar fyrir utan og austan Ísland og þroskast og ganga síðan til baka og hrygna. Það er hægt að taka einstök ár til þess að sýna hvers konar villimennska var á ferðinni.

Ef við skoðum t.d. árið 1965 náði aðeins 0,1% eða 1 prómill fjögurra ára aldri. Það þýðir með öðrum orðum að úr heilum árgangi var lífið murkað, árganginum var gjöreytt og má segja að í kringum þetta ár hafi þeir sokkið dýpst í rányrkju sinni. Það voru dæmi um aðra árganga þar sem örlítið meira komst upp, 0,2%. En það er engum blöðum um það að fletta að þessi rányrkja eyddi stofninum, drap milljarða síldarseiða, á sumum árum tugi milljarða.

Til samanburðar við það hvað Íslendingar voru að taka í fjölda af árgöngunum má taka metveiðiárið 1967. Það ár voru 6 milljarðar stórsíldar veiddar og Íslendingar veiddu aðeins 2,6 milljarða, þannig að sá fjöldi sem við tókum af hrygningarsíld var í engu samræmi við þann gríðarlega fjölda sem Norðmenn drápu á seiðastigi. Fræg eru ummæli Eyvinds Bolle, sem var sjávarútvegsráðherra Norðmanna á sínum tíma, að veiðarnar hefðu verið þvílíkar að hægt hefði verið að koma 16 síldum í eldspýtnastokk.

Herra forseti. Þeir norsku fræðimenn sem ég hef vísað til, Olav Dragesund, Johannes Hamre, sem okkur Íslendingum eru að ágætu kunnir, og Öyvind Ulltang skrifuðu yfirlitsgrein um þróun norsk-íslenska síldarstofnsins og bakreiknuðu hvernig ýmsar leiðir til stjórnunar hefðu getað haft áhrif á þróun stofnsins. Þeir komust að því að ein leið bar af. Hún fólst einfaldlega í því að gera ráð fyrir að veiðar á 0--2 ára síld hefðu verið bannaðar.

Niðurstaða þeirra var eftirfarandi í þýðingu minni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Eina takmörkunin sem þurfti til að koma í veg fyrir eyðingu stofnsins var að setja á árunum fyrir 1960 reglur um lágmarksstærð síldar í afla, sem vernduðu 0- og 1-árganginn.``

Þeir fundu það út á þessum grunni, að ef gripið hefði verið til slíks veiðibanns á því sem við köllum seiði og smásíld í dag hefði eftirfarandi gerst:

1. Hrygningarstofninn hefði orðið 6 millj. tonna árið 1966 en eftir 1960 komst hann aldrei svo hátt.

2. Veiðarnar hefðu náð 2 millj. tonna strax árið 1965 og staðið í 2 millj. tonna út áratuginn.

3. Þeir gerðu ráð fyrir með framreikningum sínum að eftir það hefðu veiðarnar sveiflast á milli 1 og 2 millj. tonna og töldu að líklega hefði það verið nær 2 millj. tonna.

Ég tel rétt, virðulegi forseti, að rifja þetta upp, þó ekki væri nema til þess að það lægi fyrir svart á hvítu í skjölum þingsins að þessir hlutir hafa verið sagðir á Alþingi. Þó að hæstv. utanrrh. virðist ekki hafa gefið sér tíma til að kynna sér söguna eða hirða um þessar staðreyndir eru það þó þær sem gefa okkur þann sögulega rétt sem við höfum til að krefjast hlutdeildar í stofninum og miklu meiri en þau 15,54% sem við höfum í dag.

Þessa ræðu flyt ég ekki síst vegna þess að utanrrh. er í fyrsta lagi að gera því skóna að verjanlegt sé að láta Norðmenn fá enn meira af hlut Íslendinga. Í öðru lagi kom hann hingað um daginn og sagði að niðurstaðan 1996 hefði verið bærilega ásættanleg. Því var mótmælt af öllum þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem tóku til máls um málið á þeim tíma og enginn þingmaður stjórnarandstöðunnar 1996 greiddi samningnum atkvæði sitt á þeim tíma. Það er alveg ljóst að hrunið sem hjó stórt skarð í efnahagslíf Íslendinga á þeim tíma og leiddi til þess að þúsundir Íslendinga þurftu að leita sér að atvinnu og framfærslu hjá öðrum þjóðum, að það eru Norðmenn sem bera --- kannski í hugsunarleysi --- að öllu leyti ábyrgðina á því. Á þeim grunni getum við krafist þess að tekið sé tillit til þess sem við setjum fram við samningaborðið og á þeim grunni getum við hrundið óbilgjörnum kröfum Norðmanna, sem virðast núna hafa deyft skilningarvit hæstv. utanrrh. í þeim mæli að hann er enn að gefa því undir fótinn að Norðmenn fái meira. Ef réttlæti ætti að ríkja hlyti niðurstaðan miklu fremur að vera sú að Íslendingar fengju meira.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rekja frekar þær sögulegu forsendur sem liggja að máli mínu. En mig langar aðeins undir lok ræðu minnar að koma að því sem ég hóf mál mitt á, þ.e. hinu umdeilda nýmæli sem hv. þm. Sólveig Pétursdóttir gerði að umræðuefni og hv. þm. meiri hlutans taka, eins og ég skil álit þeirra, hæstv. ráðherra vara fyrir að halda áfram.

Í samningnum sem ég er að ræða er ákvæði sem felur í sér að Íslendingar gefa eftir sem nemur 1% af heildarafla eða 7.100 lestum á gildistíma samningsins. Í staðinn fá þeir aukinn aðgang til veiða í efnahagslögsögu Noregs norðan 62. gráðu. Ég ítreka það að í áliti meiri hlutans er tekið með lofsverðum hætti á þessu tiltekna máli og við í Samf. og þeir sem að þessu standa, hv. þm. Frjálsl. taka undir þau orð sem standa í meirihlutaálitinu, að óheppilegt sé frá sjónarhóli íslenskra samningahagsmuna að auka veiðar íslenskra skipa í norskri lögsögu. Ég held að það hljóti að liggja í augum uppi að því meira sem við erum háðir aðgangi að norskri lögsögu til að ná kvóta okkar því veikari er staða okkar. Að sama skapi styrkist staða Norðmanna.

Þess vegna fannst mér einkar fróðlegt að hlusta á hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur tala með þeim hætti að hún lítur bersýnilega svo á að það hafi verið þrýstingur af hálfu Norðmanna að ýta íslenskum sjómönnum inn fyrir norska efnahagslögsögu, að öðru leyti hefðu þeir verið miklu seinbúnari til að ljúka samningum. Ég gat ekki skilið orð hv. formanns utanrmn. öðruvísi.

Ég segi því fyrir hönd þeirra sem að nál. standa að þarna var um einstakt tilvik að ræða og ég held að það væri óheppilegt ef af hálfu Íslendinga væri lögð mikil áhersla á þetta í framtíðinni. Ég vek eftirtekt á því, þó það komi hvorki fram í nál. sem ég er að mæla fyrir né hjá hv. þm. meiri hlutans, að samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í nefndinni var töluverður vegur frá því að Íslendingar nýttu sér þennan rétt. Ekki eykur það á vægi þess að kröfunni eða ákvæðinu sé fram haldið. Ég geri mér vitaskuld grein fyrir því að einstakar útgerðir kunni að sjá sér hag í þessu því sannarlega er verðmæti þeirrar síldar sem hægt er að afla á þessum árstíma töluvert meira en það sem íslensku skipin eru endranær að veiða. En við erum að horfa á framtíðarhagsmuni, við erum að horfa á samninga sem eru gerðir í þeirri stöðu að utanrrh. hefur gefið undir fótinn með tilslökun og Norðmenn sækja fast á. Þá megum við ekki fyrir stundarhagsmuni fórna því sem eru hagsmunir til lengri tíma, sem er að styrkja samningsstöðu okkar.

Það er því miður svo að á síðustu árum hefur stofninn, vegna þess að hann hefur ekki náð nægilegri stærð, gengið í of takmörkuðum mæli inn fyrir mörk lögsögunnar og flest íslensku síldveiðiskipanna hafa þá gjarnan verið að veiðum annars staðar þegar upplýsingar hafa borist um að stofninn hafi gengið inn fyrir lögsögu okkar. Það hníga þó öll söguleg rök og rök reynslunnar að því að ef stofninn fær svigrúm til að vaxa og verður að leita norðar og vestar í ætisleit mun hann ganga aftur á sínar fornu slóðir á Rauða torginu úti fyrir Austfjörðum. Það er líka hugsanlegt að breytingar sem eru að verða á hitafari sjávar ýti undir þá þróun.

Við sem að nál. stöndum erum því þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að ýta undir það að íslensk síldveiðiskip veiði sem mest af heimildum sínum innan íslensku lögsögunnar. Og það er tvennt sem við vekjum sérstaka eftirtekt á í nál. okkar sem getur stuðlað að því.

Í fyrsta lagi að stjórnvöld sjái til þess að göngur stofnsins séu vel vaktaðar þannig að sá tími sem hann dvelur innan íslensku lögsögunnar sé vel nýttur til veiða af hálfu íslensku skipanna. Þess vegna þarf að fylgjast með því þegar síldin gengur inn fyrir og hvernig hún dreifir sér þar. Það er ekki hægt að leggja of mikla áherslu á að Íslendingar notfæri sér það, vegna þess að það styrkir samningsstöðuna til framtíðar.

Í annan stað veltum við líka upp þeim möguleika að þeim skipum sem veiða innan lögsögunnar verði ívilnað með því að þau fái aukinn kvóta árið á eftir. Þetta mundi hvetja til aukinna veiða meðan síldin er á íslensku hafsvæði og þess vegna styrkja kröfur Íslendinga um aukna hlutdeild úr norsk-íslenska stofninum.

Í ljósi þessa sem ég hef sagt, allra þeirra röksemda sem ég hef flutt fyrir hinum sögulega aðdraganda, í ljósi vinnubragðanna við framlagningu málsins á hinu háa Alþingi og síðast en ekki síst í ljósi þeirra ábyrgðarlausu ummæla sem hæstv. utanrrh. lét falla og gáfu til kynna að vænta mætti eftirgjafar af hálfu Íslendinga getum við sem að nál. stöndum ekki stutt meirihlutaálitið eða samninginn. Það verður með einhverjum hætti að reyna að koma þessum rökum inn fyrir höfuðskeljar þeirra sem stýra samningum okkar og það teljum við að við höfum reynt að gera með nál. þar sem þessi rök eru rifjuð upp.

Það er sannarlega kominn tími til þess að hæstv. utanrrh. og sjútvrh. skilji hvað það var sem leiddi til hruns stofnsins og skilji á hvaða rétti og á hvaða sögulega grunni við stöndum þegar við erum að verjast óbilgjörnum kröfum Norðmanna og þegar við erum að krefjast meira en við höfum í dag, sem er allt of lítið, einungis 15,54%.