Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 12:46:18 (6620)

2004-04-23 12:46:18# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[12:46]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta ágæta frv. og heyri að það er almenn ánægja með það hjá þingmönnum, enda átti ég ekki von á öðru. Þetta er mjög brýnt og gott mál en það þarf að vanda vel til verka því að hér er ráðherra að fá talsverðar heimildir til takmarkana á ýmissi hegðun og notkun á svæðinu.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir velti því upp hvort mörk svæðisins ættu að vera minni eða stærri. Af því tilefni vil ég taka fram að 23. janúar átti ég fund með sveitarstjórn Bláskógabyggðar og hún gerði athugasemdir við mörk svæðisins. Stjórninni fannst þau of víðfeðm miðað við þekkingu hennar á svæðinu þannig að við létum Orkustofnun endurskoða mörkin, og mörkin voru þrengd, þ.e. austurhlutinn var minnkaður frá þeim drögum sem við sýndum Bláskógabyggð. Hún fékk síðan að sjá þetta aftur 5. apríl og var ánægð með lagfæringarnar.

Hins vegar vil ég halda því til haga að sveitarstjórnin telur að það eigi ekki að setja sérstök lög um vatnsverndunina á Þingvöllum og á þessu svæði. Hún telur að það eigi að setja almenn lög og að verið sé að skerða rétt sveitarfélagsins. Sveitarstjórnin hefur ákveðin vatnsverndarákvæði í skipulagi sínu sem ná að hluta til þessa svæðis.

Hún hefur líka mótmælt því að þjóðgarðurinn sé ekki hluti af vatnsverndarsvæðinu í vatnsverndarfrumvarpinu. Mér finnst ágætt að þeir telji þá væntanlega betra að hafa það hjá umhvrh., en þetta var niðurstaða Þingvallanefndar sem samdi frv., að vatnsverndin í þjóðgarðinum og Þingvallavatni í þeim hluta sem tilheyrir þjóðgarðinum falli undir Þingvallanefnd. En hin vatnsverndin á svæðinu sem er þar fyrir utan og er miklu stærri fellur undir umhvrh. Í framhaldinu mun væntanlega verða samið frv. um vatnsvernd á öllu Íslandi, en sú vinna er ekki hafin og mun taka nokkurn tíma, enda talsvert flókið mál.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði líka um umferð vagna vegna olíu, hvort það væri í bígerð að setja reglur um slíka flutninga. Eins og fram kemur í frv. fær ráðherra sérstakar heimildir til að setja skorður við slíkri umferð og þar er sérstaklega nefnt að flutningur á olíu kemur til greina. Það er því ekki búið að smíða nein drög að reglum, en að sjálfsögðu munum við mjög líta til þessa atriðis því vatnsverndin byggir á því að það má alls ekki falla niður olía þarna.

Skorður vegna sumarbústaða koma að sjálfsögðu til greina en það er ekki búið að móta neinar slíkar reglur. Þó að lagafrumvarp sé á ferðinni um verndun Þingvallavatns og vatnsverndarsvæðis sem tengist því erum við ekki tilbúin með drög að reglum sem væri hægt að setja strax í kjölfarið þannig að það er talsverð vinna eftir í því.

Það eru engar sérstakar áætlanir á þessu stigi að setja vatnsyfirborðið í upprunalegt horf. Í frv. kemur fram að leitast eigi við að halda vatnsyfirborðinu stöðugu þannig að af faglegum ástæðum er væntanlega ekki æskilegt að raska vatnsyfirborðinu mikið frá því sem nú er. Nú hefur allt lífríkið aðlagað sig að því vatnsborði sem er þarna í augnablikinu.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti ágætlega náttúruverndarhagsmunina sem felast í frv., taldi að þeir hefðu átt að koma fyrr fram. En menn vildu helst að þetta fylgdist að við frv. um stækkun þjóðgarðsins og það var ákveðið að mæla fyrir þessum málum um svipað leyti þó að frv. hafi verið tilbúið um nokkurt skeið hjá okkur þannig að núna eru þau bæði í vinnslu í þinginu.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spurði um reglurnar sem byggjast á 3. gr. sem umhvrh. setur í samráði við iðnrn. og hlutaðeigandi sveitarstjórnir. Þær eru ekki í smíðum enn sem komið er en strax og frv. verður samþykkt er ekkert því til fyrirstöðu að fara að smíða þær og auðvitað þarf að gera það, en drögin að þeim eru ekki tilbúin.

Hv. þm. rakti líka þetta með fjallaskálana og hér urðu nokkrar umræður milli hans og hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Ég deili algjörlega skoðunum hennar varðandi heimildir ráðherra til að takmarka mannvirki á svæðinu. Þetta er mjög sérstakt svæði, þess vegna er verið að veita ráðherra sérstakar heimildir umfram þær heimildir sem sveitarstjórnir hafa til þess að takmarka byggð með almennum byggingar- og skipulagslögum. Ef reisa á fjallaskála eða mannvirki á þessu svæði þarf því bæði leyfi ráðherra og leyfi þar til bærra skipulags- og byggingaryfirvalda, þ.e. sveitarstjórna. Að sjálfsögðu líta menn þá til verndarsjónarmiðanna. Mér finnst þetta því vera það merkilegt mál að vernda vatnið að eðlilegt og réttlætanlegt sé að ráðherra fái auknar heimildir.

Hv. þm. rakti einnig tilkomu Steingrímsstöðvarinnar og vildi fá svör við því hvort til greina kæmi að rífa hana niður. Það hefur ekki verið til umræðu í umhvrn. og ég hef lítið heyrt um það í samfélaginu almennt þannig að það er ekkert sem við höfum skoðað. Ef slíkt ætti að koma til þyrfti að skoða það faglega hvað það mundi þýða fyrir svæðið þannig að það er alls ekki hægt að kveða eitthvað upp úr um það á þessari stundu.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson dró fram kostnaðarmat fjmrn., hvort það gæti hugsanlega komið til þess að það þyrfti að greiða einhverjar bætur fyrir takmarkanir á einhvers konar réttindum landeigenda. Í frv. kemur fram, með leyfi forseta:

,,Vatnsverndun á landinu skal ekki standa því í vegi að landeigendur, ábúendur og aðrir sem þar eiga nytjarétt geti haft hefðbundin beitar- og búskaparafnot af nytjalandi sínu nema umhverfisráðherra telji að sú notkun leiði til þess að vatni á svæðinu verði spillt.``

Almennt er því talað um að það eigi að vera hægt að stunda hinn hefðbundna búskap áfram nema umhvrh. telji að sú notkun leiði til þess að svæðinu verði spillt og þá þarf að taka á því. Ég held að það sé mjög erfitt á þessu stigi að koma með eitthvert mat á því hvað þetta gæti hugsanlega kostað. Ég held að við séum alls ekki með nægar upplýsingar í augnablikinu varðandi það mál. Það getur líka verið að það sé ekkert sniðugt að koma með einhverjar slíkar tölur ef þær væru til og gefa þannig í skyn að hér væri einhver stór peningasekkur sem menn gætu farið í og fengið greiddar einhverjar bætur. Ég held því að það sé mjög erfitt fyrir fjmrn. að koma með eitthvert slíkt mat á þessari stundu.

Ég á ekki von á því að það komi til mikilla árekstra út af þessu ákvæði. Ég held að málin séu þannig í dag að almennt þurfi ekki að grípa inn í þann búskap sem stundaður er í dag á þessu svæði, en það er spurning hvað verður í framtíðinni. Þess vegna er ágætt að hafa heimildir til að geta haft áhrif á þróunina sem verður á svæðinu þannig að við verndum vatnið. Ég á því ekki von á, miðað við núverandi landbúnað á svæðinu og núverandi byggingar, að það komi til sérstakra fjárútláta. Ég held að það sé algjörlega öruggt að varðandi framtíðarþróun á svæðinu muni reyna á heimildir ráðherra, að hann geti stoppað af byggingar, og ég á von á því að það verði gripið til þeirra í framtíðinni til að vernda svæðið.

Virðulegur forseti. Ég þakka innilega fyrir þessar ágætu umræður og heyri að þingmenn eru almennt sáttir við tóninn í frv. og telja svæðið mjög mikilvægt og að mikilvægt sé að vernda vatnið.