Framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:05:30 (6642)

2004-04-23 14:05:30# 130. lþ. 101.94 fundur 489#B framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum# (um fundarstjórn), KHG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil segja um þetta mál að ég tel ekki ástæðu til að gera mikið veður út af aðdraganda málsins, hvorki því að skipuð hafi verið sérstök nefnd af hálfu ríkisstjórnarinnar til að taka saman skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum né hitt að forsrh. hafi kynnt drög að frv. í ríkisstjórn. Það er út af fyrir sig eðlilegur gangur að ríkisstjórnin taki upp mál og ræði þau í sinn hóp. Mér finnst það ekki stóra málið.

Ég vil hins vegar láta það koma fram, vegna þess að hér var sagt frá því að fulltrúi Framsfl. í nefndinni hefði verið og væri skrifstofustjóri þingflokks Framsfl., að hann situr ekki í nefndinni sem fulltrúi þingflokksins. Þingmenn hafa ekki fengið að sjá þessa skýrslu og voru ekki hafðir með í ráðum við að gera þessa skýrslu svo mér sé kunnugt um. Ég hef ekki séð hana og veit ekkert um hana annað en það sem í fjölmiðlum hefur birst ef það er á annað borð rétt sem þar hefur komið fram. Fulltrúi Framsfl. í nefndinni var fulltrúi ríkisstjórnarinnar, vann fyrir ráðherra okkar í ríkisstjórninni og skilar af sér gagnvart þeim.

Ég tel eðlilegt að bíða með afstöðu til málsins almennt þar til maður hefur upplýsingarnar sem eiga að vera grundvöllur málefnalegrar umræðu. Við þurfum auðvitað, ef við erum að íhuga það á hv. Alþingi að setja löggjöf um tiltekið málefni, mikilsvert málefni eins og eignarhald í atvinnulífinu, að vega það og meta á hvaða sjónarmiðum við eigum að reisa slíka löggjöf. Það verður ekki kastað til þess höndum á nokkrum dögum að hrófla saman einhverri löggjöf um það efni.

Ég spyr í fyrsta lagi: Er ástæða til að taka eitt svið atvinnulífsins út úr og skilja önnur eftir? Það er mikið eftir órætt í þessu máli, herra forseti, ef og þegar málið kemur til kasta þingsins á þessu vori. En ég kvíði því ekki að góðar umræður geti ekki orðið um það mál í fyllingu tímans.

Ég vil hins vegar vara við því að menn fari af stað í löggjöf af þessu tagi á grundvelli annarra sjónarmiða en málefnalegra og almennra. Við getum ekki stjórnast af afstöðu okkar til einstakra fyrirtækja.