Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:48:15 (6652)

2004-04-23 14:48:15# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hæstv. ráðherra rökstuddi ágætlega hvernig hefði verið farið yfir það hvar kostnaðurinn lægi að baki varaflugvöllunum þá er augljóst að kostnaðarbaggi annarra flugvalla er líka mikill. Það svona slær mig þannig að kannski sé ástæða til að álykta sem svo að það sé ekki reiknað með sama hætti og kostnaðurinn vegna varaflugvallanna.

Hæstv. ráðherra svaraði því í raun ekki sem ég spurði um, þ.e. hvort þessi niðurstaða og útfærsla hefði verið borin undir prófessorinn Davíð Þór Björgvinsson. Hann sagði aftur á móti að tekið hefði verið tillit til hans álits og á því finnst mér töluverður munur.

Ég meðtek það hins vegar sem hæstv. ráðherra sagði, að haft hefði verið samband við fulltrúa hjá ESA og að ekki sé ástæða til að halda, að þeirra mati, að þetta standist ekki þar. Það er þá bara ágætt að þannig verði það. En mér finnst full ástæða til að skoða þetta vandlega í nefndinni og fá þá álit á því hvort þessi uppsetning standist.