Málefni aldraðra

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 16:51:39 (6676)

2004-04-23 16:51:39# 130. lþ. 101.10 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv. 38/2004, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[16:51]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir ágætt samstarf við málið í hv. heilbr.- og trn. eins og við svo mörg önnur. En vegna orða hv. þm. um ýmsar nefndir sem væru að störfum, ýmist á vegum heilbrrh. og ráðuneytisins og félmrh. --- þær eru að skoða samstarf ríkis og sveitarfélaga og þingmaðurinn lýsti því hér yfir að hún væri hlynntari því að við biðum með þetta frv. og það sem það felur í sér þangað til því nefndastarfi væri lokið --- þá verð ég að árétta að með frv. þessu er m.a. farið að tillögum sem byggja á samráði við Samtök aldraðra og samkomulagi sem gert var í því sambandi.

Við megum ekki horfa fram hjá hinni miklu þörf fyrir að byggja upp hjúkrunarheimili. Hún er ekki síst mjög rík á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að hv. þm. er eins og mér fullkunnugt um hve mikil þörfin er. Mörg okkar vildu fyrr en seinna ráðast í að minnka þann vanda sem við horfum fram á hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að vandinn er líka annars staðar en hann er mikill hér og okkur er mikið kappsmál að þeirri uppbyggingu ljúki sem fyrst sem gæti mætt þeirri miklu þörf. Ég leyfi mér að vera ósammála hv. þm. um að aðstæður séu þannig á þessu landsvæði að það sé einfaldlega hægt að bíða eftir því að nefndarstarfinu ljúki.

Að auki vildi ég, herra forseti, inna hv. þm. eftir orðalagi í nefndarálitinu þar sem hún talar um 15% byggingarkostnaðar, leigu- eða rekstrarkostnaðar, sem hún telur að sveitarfélögin geti lent undir þrýstingi með að taka þátt í. Ég get tekið undir það að spurningin er um 15% byggingarkostnað og frumvarpið gengur út á að heimilt sé að greiða leigu en rekstrarkostnaðurinn sem nefndur er kemur svolítið spánskt fyrir sjónir.