Kirkjugripir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 19:31:23 (6710)

2004-04-23 19:31:23# 130. lþ. 101.19 fundur 434. mál: #A kirkjugripir# þál., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[19:31]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Ég vil taka undir meginsjónarmiðin í till. til þál. frá hv. þm. Önundi Björnssyni um kirkjugripi, að þess sé freistað eins og nokkur er kostur að kirkjugripirnir geti verið á sínum heimastöðum þar sem þeir hafa verið um aldir. Þeir eru hluti af því umhverfi, menningu og sögu sem þar hefur mótast og orðið til. Því er mikilvægt að þeir fái að vera þar.

Við gerum okkur að vísu grein fyrir því að ýmsir gripir sem hér getur verið um að ræða eru slíkar þjóðargersemar að gera verður mjög strangar kröfur um meðferð, vörslu þeirra og aðbúnað. Sjálfsagt verður að huga vandlega að því.

Ég vil einnig nefna mikilvægi þess hlutverks sem íslenska þjóðkirkjan hefur gegnt og gegnir enn við varðveislu og við að koma á framfæri menningararfleifðinni og dýrgripum þjóðarinnar. Ég tel að kirkjan mætti sem heild huga betur að því en hún gerir og átta sig á hlutverki sínu og þeirri ábyrgð sem hún ber á menningasögulegri arfleifð og dýrgripum sem við eigum um allt land.

Ég minni t.d. á að þegar prestakallaskipan er breytt og prestum fækkað þá er ekki horft til hins margþætta hlutverks sem þjóðkirkjan hefur, sem er einn af hornsteinum þess að við viljum halda þjóðkirkju, ábyrgð hennar og hlutverk í menningarlegu tilliti. Ég tel að kirkjan ætti að kanna hvort hún gæti ekki, með því að prestar gegndu víðtækari hlutverkum úti í samfélaginu, í hinum dreifðu byggðum þar sem margar þessar kirkjur og gripir eru, sinnt hinu þýðingarmikla hlutverki í atvinnu- og menningarsögu viðkomandi byggðarlaga. Kirkjan ætti að huga vandlega að hlut sínum þar og hvernig hún geti komið betur að þeim málum. Hún gæti litið á þetta sem eitt af viðfangsefnum sínum og samfélagslegum skyldum.

Ég tek undir það að æskilegt væri að margir gripir yrðu fluttir heim og minnist þess að þegar við endurgerðum Hóladómkirkju á árunum kringum 1990 tókst okkur einmitt, eftir mikið samningaþóf, að ná nokkrum gripum sem voru staðsettir á Þjóðminjasafninu, sem höfðu verið teknir úr kirkjunni. Þar á meðal var ein fræg alabastursbrík frá því um 1400. Við fengum hana flutta aftur í kirkjuna.

Varðandi þá vinnu sem fram fer í tengslum við samninga við Dani, í ljósi umræðna í Kaupmannahöfn nú nýverið á fundi helstu þjóðarleiðtoga Íslendinga og Dana, til þess að minnast ráðherra Íslandsmála, má nefna að sagan greinir að Jón Arason hafi gefið Hóladómkirkju gríðarlega stóran og mikinn kaleik, sem var einn stærsti og mesti og dýrasti kaleikur sem þá hafði komið til landsins. einhvern tímann í kringum 1530. Sá kaleikur var síðan fluttur úr landi og spurðist síðast til hans í Jótlandi. Það væri gaman ef við gætum fengið þann góða kaleik heim.

Mér finnast þau atriði sem hv. þm. hefur lagt til virkilega athyglisverð fyrir þingið til að taka á. Ég ítreka að þjóðkirkjan þarf að átta sig á þeirri ábyrgð sem hún eðlilega ber og þeirri kröfu sem við gerum til hennar varðandi það að halda til haga og gera aðgengileg og varðveita og sýna þessa menningararfleifð sem tengist kirkjum landsins.