Strandsiglinganefnd

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:39:24 (6906)

2004-04-27 17:39:24# 130. lþ. 104.14 fundur 811. mál: #A strandsiglinganefnd# fsp. (til munnl.) frá samgrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Það olli mér nokkrum vonbrigðum að heyra hæstv. samgrh. lýsa því að strandsiglinganefnd hefði ekki verið skipuð og ekkert orðið úr henni þótt ég treysti svo sem orðum hans um að ákveðin vinna fari fram í ráðuneytinu sem miðar að því að finna svör við þeim spurningum sem nefndar voru í greinargerð með þessari þáltill.

Það hefur lengi verið mér ráðgata, a.m.k. á undanförnum árum, að strandsiglingar skuli í raun hafa verið í svo mikilli lægð sem við höfum séð. Ég vil taka undir orð hv. þingmanna sem hafa fagnað því að strandsiglingar skuli enn á ný hafnar til Vestfjarða. Vonandi mun það komast á allt í kringum landið.

Þetta með að þáltill. virðast fara í gegnum þingið með miklum umræðum og verða síðan að engu eru mikil vonbrigði. Ég man eftir tveimur öðrum þáltill. sem fengu sömu örlög. Ég held að það væri ástæða til að fara yfir það, frú forseti, hvað verður úr þessum ályktunum.