Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:28:41 (7992)

2004-05-12 11:28:41# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Engum dylst að þingið er í uppreisnarhug. Þau vinnubrögð sem hér eru keyrð í gegn af Sjálfstfl. valda því að menn eru ákaflega ósáttir við það vinnulag sem hér er haft uppi. Það gildir ekki bara um okkur í stjórnarandstöðunni.

Herra forseti. Eins og hér hefur verið rakið hafa vinnubrögðin verið með þeim hætti í efh.- og viðskn. að enginn úr Framsfl. sem þar hefur komið inn hefur treyst sér til að styðja hv. formann Pétur H. Blöndal í þeirri ósvinnu sem hann hefur haft í frammi.

Ég vek eftirtekt hæstv. forseta á þeirri staðreynd að þegar formaður nefndarinnar lagði til að umfjöllun yrði hætt í miðju kafi og orðið nánast rifið af fulltrúa Samkeppnisstofnunar í miðri setningu greiddi annar fulltrúi Framsfl. atkvæði gegn formanni nefndarinnar. Það var varaformaðurinn, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson.

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir treysti sér ekki heldur til að styðja tillögu formanns efh.- og viðskn. Þetta bendir til þess, herra forseti, að mikið ósætti sé með vinnubrögðin í málinu. Þess vegna er leitað atbeina hæstv. forseta til að setja deiluna niður. Vitaskuld eru stjórnin og stjórnarandstaðan grá fyrir járnum í málinu. Það breytir ekki hinu að við ættum að geta haft í frammi, hvor fylkingin gagnvart hinni, tiltölulega siðvædd vinnubrögð. Við eigum að geta komið okkur saman um það að lágmarksreglum sé fylgt í samskiptum.

Það eina sem við fórum fram á, herra forseti, var að þingfundi yrði frestað um hálftíma. Ég kom þeirri ósk á framfæri við formann nefndarinnar og bað hann um að koma því til forseta þingsins að við þyrftum frest til kl. 11 til þess að geta lokið þeirri lágmarksumfjöllun sem við töldum nauðsynlega til að geta rætt þetta mál málefnalega til þrautar. Við vorum að afla mikilvægra upplýsinga hjá Samkeppnisstofnun, sem er lykilstofnun að því er varðar bæði frv. og brtt.

Þegar formaður nefndarinnar hafnaði því var það gert þannig að meira að segja Framsfl., annar stjórnarflokkurinn, sætti sig ekki við vinnubrögðin. Það kom enginn stuðningur frá fulltrúum Framsfl. við þetta. Vegna þess að ég veit að hæstv. forseti getur þrátt fyrir allt sýnt þá hlið á eðli sínu að dugi til að græða í kringum hann mælist ég til þess að hæstv. forseti taki undir með þingmönnum Framsfl. og þingmönnum stjórnarandstöðunnar og leyfi að ljúka þessari umfjöllun. Það þarf ekki nema á að giska hálftíma, hugsanlega þrjú korter.