Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 21:00:37 (8025)

2004-05-12 21:00:37# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[21:00]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir að efh.- og viðskn. hafi verið skapað svigrúm til þess að koma saman til fundar að nýju. Í nefndinni komu fram mjög mikilvægar upplýsingar. Ég verð að segja að í ljósi þess finnst mér það mjög alvarlegt sem gerðist á fundi efh.- og viðskn. í morgun þegar formaður nefndarinnar reyndi að stöðva frekari umræðu um málið og freistaði þess að keyra með atkvæðagreiðslu það fram að umræður yrðu stöðvaðar og málið tekið út. Það er ekki nóg með að menn greini á um sjálfan grundvöll þessarar lagasmíðar, heldur er hitt ekki síður alvarlegt að það er fullkomlega óljóst hvaða áhrif þessi lagasetning kemur til með að hafa á afar fjölmennan vinnustað hér í landinu. Við erum að tala um einn fjölmennasta vinnustað á Íslandi, 680 manns. Blaðburðarfólkið mun vera um 1.200 talsins. Á fundi efh.- og viðskn. ...

(Forseti (BÁ): Gæti hv. ræðumaður aðeins fært sig nær efninu fundarstjórn forseta?)

Ég er að þakka hæstv. forseta fyrir að skapa svigrúm fyrir efh.- og viðskn. þingsins til að koma saman til fundar og það er mikilvægt að þær upplýsingar sem komu fram á fundi nefndarinnar í kvöld milli klukkan sjö og átta komist á framfæri inn í þingsal. Við vorum upplýst um það að Norðurljós skulda 5,7 milljarða kr., þar af eru um 2 milljarðar í lífeyrisskuldbindingum. Sex lífeyrissjóðir í landinu eiga allt sitt eða mikið undir því að þetta fyrirtæki fari ekki á hausinn. Ég er að ríma saman upplýsingar sem komu fram í efh.- og viðskn. þingsins og í máli formanns fjölmiðlanefndar, Davíðs Þórs Björgvinssonar, sem upplýsti hér fyrir fáeinum dögum, á fundi með fréttamönnum, að hann gerði sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif þetta frv. hefði á þetta stóra fyrirtæki og þennan fjölmenna vinnustað í landinu.

Hæstv. forseti. Mér fannst nauðsynlegt að þessar upplýsingar kæmu fram hér í þingsalnum áður en lengra er haldið.