Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:32:35 (8061)

2004-05-12 23:32:35# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:32]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skrýtið svar hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni. Eins og svo oft áður snýr hann út úr því sem spurt er um. Ég talaði um að hann hefði sjálfur talað hér um samþjöppun á matvörumarkaði og reynt að leiða umræðuna út í það að þess vegna þyrfti að kyrkja hina fjölbreyttu flóru fjölmiðlafyrirtækja á Íslandi. Hann snýr því upp á það að ég vilji kyrkja matvörumarkaðinn á Íslandi. Þetta er alveg stórundarlegt.

Kannski er jafnmikið að marka þetta og það sem hv. þm. sagði í fréttatíma sjónvarpsins fyrr í kvöld. Hann sagði að hér talaði enginn efnislega um þetta frv. (HjÁ: Það er nú rangt.) Ég gat ómögulega séð að hann talaði mikið efnislega um það. Hann fullyrti í þessum sama fréttatíma að hér væri málþóf og að þingmenn töluðu í þrjá til fjóra klukkutíma. Því tók ég mér það bessaleyfi að taka saman ræður þeirra þingmanna sem hafa talað alveg frá því að umræðan byrjaði. Sá sem talað hefur lengst talaði í tvær klukkustundir og sautján mínútur. Hér hafa menn yfirleitt talað í 35 mínútur til klukkutíma og meðaltalið er klukkutími og átján mínútur, hv. þingmaður.