Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 15:32:16 (9210)

2004-05-27 15:32:16# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var sem sagt rétt munað hjá mér að aldrei hafi verið lagt fram frv. af nokkrum þingmanni í 60 ár til að undirbúa slíka löggjöf. Það stóðst sem sagt algerlega sem ég sagði í þeim efnum og það er auðvitað þýðingarmest. Nefndir voru 30 þúsund Íslendingar eða svo. Mér skilst að það sé hinn frægi undirskriftalisti sem engin undirskrift er á, einhver disklingur sem enginn hefur fengið að sjá. Þetta er sennilega frægasta undirskriftasöfnun allra tíma, þar sem engin undirskrift er. Ég held að menn geti ekki gert mikið með slíka hluti.