Frestun á fundum Alþingis

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 15:45:15 (9214)

2004-05-27 15:45:15# 130. lþ. 129.1 fundur 1005. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál. 27/130, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svolítið erfitt að eiga orðastað við hv. þingmann um ýmis efni máls því að hann fer svo vitlaust með. Til að mynda hefur hann verið að vitna í grein mína í Morgunblaðinu, sem liggur fyrir, og segir að þar hafi ég verið að ræða um afleiðingar þess ef forseti synjaði. Ég var að ræða um vanhæfi í þeirri grein, ekkert um neinar afleiðingar.

Ef hv. þm. hefði nú lesið grein mína, sem hann bersýnilega virðist ekki hafa gert og geri ég svo sem ekkert mikið með það, kemur fram sérstaklega að ég tek ekki afstöðu til deilna fræðimanna um það hvort þetta svokallaða synjunarvald forseta sé gilt eða ekki gilt. Ég tók sérstaklega fram í þeirri grein að mér fyndust prófessorarnir Eiríkur Tómasson og Sigurður Líndal hafa fært fyrir því, eins og ég orðaði það --- ég held að ég muni það nokkurn veginn rétt --- sterk rök að þessi synjunarheimild væri gild. Að öðru leyti tók ég ekki afstöðu. Ég rakti hins vegar þau sjónarmið sem fræðimenn margvíslegir, miklu merkari en nokkrir hér í þessum sal núna í þeim efnum, hefðu fært fram. Sjálfur tók ég það fram að ég hefði ekki tekið endanlega afstöðu í mínum huga og sagði að þessir tveir prófessorar, sem ég þekki ágætlega vel til, hefðu fært sterk rök fram fyrir sjónarmiðum sínum.

Að öðru leyti mun ég ekki byggja nein svör mín hér á einhverjum getgátum um afstöðu forseta Íslands. Hv. þm. verður þá að greina frá því hafi hann einhverjar aðrar upplýsingar um ætlanir forsetans en ég hef.