Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:00:53 (9237)

2004-05-27 17:00:53# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frumvarpið í þeirri mynd sem það kom í upphafi var ekki til þess að færa til betri vegar reglur um meðferð opinberra mála. Ef svo hefði verið, virðulegur forseti, hefði væntanlega meiri hlutinn haldið sig við þær tillögur sem komu frá hæstv. dómsmrh. í upphafi. Þeim var öllum snúið á haus, öllum þessum stóru tillögum, og það þarf ekkert sérstakt hugmyndaflug hjá minni hlutanum í hv. allshn. til að sjá ástæðu til þess að fara gegn þeim hugmyndum sem komu fram í upprunalega frumvarpinu.

Ég held hins vegar, virðulegur forseti, að hv. þm. Bjarni Benediktsson sé sammála mér í því að almennt eigi að vanda vel til lagasetningar, það eigi að rökstyðja vel breytingar ef þær eru verulegar og sérstaklega þegar við erum að tala um slík mál sem við erum að tala um hér, um meðferð máls fyrir dómi. Það eru varla svo hápólitísk rök fyrir því að kasta þurfi til höndunum með slík mál. Þetta eru fyrst og fremst mál sem þurfa að vera vel undirbúin af okkar færustu sérfræðingum. Það er sú krafa sem við gerum í minni hlutanum, að þegar verið sé að gera breytingar á slíkum lögum eigi að vanda þar vel til og leita til okkar færustu sérfræðinga.

Bara enn og aftur, virðulegur forseti, ef þær tillögur sem birtust í upphafi, símhleranir án dómsúrskurðar og að halda gögnum frá verjanda ótímabundið, eru í samræmi við það sem gerist almennt á Norðurlöndunum og ef það eru almennt séð góðar hugmyndir, af hverju í ósköpunum hvarf þá meiri hluti allshn. frá þeim hugmyndum og lagði til einhverja aðra leið? Auðvitað vegna þess að menn sáu að þetta stóðst ekki. Þá gildir einu hvað er annars staðar á Norðurlöndunum, virðulegur forseti, menn verða að rökstyðja breytingar á lögum sem koma fyrir þjóðþing Íslendinga.