Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 17:02:46 (9238)

2004-05-27 17:02:46# 130. lþ. 129.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta mál hafi fengið mjög gagnlega umræðu í nefndinni og einmitt hafi komið fram rík og sterk rök fyrir þeim leiðum sem gerð var tillaga um í frv. Það er ekki eins og að einhverjar hugmyndir sem eiga sér engar fyrirmyndir annars staðar hafi fæðst í dómsmrn. eða fallið af himnum ofan í fangið á starfsmönnum þess. Ég er margítrekað búinn að segja hér að það er ástæða fyrir því að þessar tillögur komu fram með þessum hætti og þetta er leið sem er farin annars staðar.

Eftir að hafa farið vandlega yfir málið varð engu að síður niðurstaða um það hjá meiri hlutanum að gera breytingar á frv. Ég hef sagt það hér í tvígang í dag að það var að höfðu góðu samráði bæði við ráðuneytið og réttarfarsnefnd. Ég hafna því að þetta hafi verið með öllu ónýtt frv. eins og minni hluti nefndarinnar hefur verið að láta í skína hér í málflutningi sínum og gerir í nál. sínu. Reyndar er alveg með ólíkindum hversu langt er gengið í stóryrðunum í nál. minni hlutans.

Bara rétt til að hnykkja jafnframt á því varðandi aðganginn að skjölunum var að sjálfsögðu gert ráð fyrir því í þessum tillögum, og er enn varðandi endurritin, að sú ákvörðun yrði alltaf borin undir dómara. Það er ekki verið að færa lögreglunni í hendur eitthvert óendurskoðanlegt vald um að hindra aðgang að gögnum eða heimild til þess að fá endurrit. Þetta eru allt ákvarðanir sem verða bornar undir dómara.

Jafnframt er það þannig varðandi hlerunina, og það er sú regla sem gildir á Norðurlöndunum og var í upphaflegu frv., að að sjálfsögðu var það einungis í brýnustu tilvikum sem hefði komið til álita að beita þessu heimildarákvæði til hlerunar og einungis þegar hætta væri á sakarspjöllum eða að rannsókn máls gæti hafa beðið einhvern skaða af því að hlerun fór ekki fram.