Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 20:09:06 (9263)

2004-05-27 20:09:06# 130. lþ. 129.20 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv. 94/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[20:09]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Það frv. sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir hefur mælt fyrir nál. um er að einhverju leyti til komið vegna deilna um hvernig umgangast skuli örn og arnarhreiður, ekki hvað síst á viðkvæmum stöðum eins og í varplöndum og fuglalífi Breiðafjarðar.

Á Breiðafirði er mjög fjölbreytt fuglalíf og þar eru líka miklir náttúruhagsmunir í æðardún og fjölbreyttu lífríki sem verður náttúrlega best varðveitt og umgengist af fólkinu sem þar býr. Náttúrufræðistofnun hefur þarna ákveðið eftirlitshlutverk eins og kemur fram í frv. Ég vil spyrja þingmanninn hvort ekki hafi verið rætt um að setja hreinlega ákvæði í lögin um að eftirlit á svæðunum sé falið næstu náttúrustofu, að náttúrustofa eins og t.d. í þessu tilfelli náttúrustofan í Stykkishólmi, mjög virk og starfar þar vel, sinni eftirlitinu. Það sem ég hef heyrt er að bændur og íbúar svæðisins vilji eiga sem nánast samstarf við fagaðila heima fyrir, eins og t.d. í þessu tilviki náttúrustofuna í Stykkishólmi. Þeir vilja að hún fari með þessi samskipti við íbúana varðandi fuglalífið og þar með talið örninn, fari með umboð þessara laga hvað það varðar.

Ég ítreka spurningu mína: Var ekkert rætt um að fela henni þessi verkefni?