Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 27. maí 2004, kl. 22:13:58 (9278)

2004-05-27 22:13:58# 130. lþ. 129.23 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, Frsm. 1. minni hluta AKG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[22:13]

Frsm. 1. minni hluta landbn. (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta landbn. sem hljóðar svo:

Fyrsti minni hluti fagnar þeim skrefum sem stigin eru með frumvarpi um sameiningu rannsóknastofnana á sviði landbúnaðar. Mikilvægt er að nýta sem best takmarkaða krafta til landbúnaðarrannsókna með markvissri stjórn.

Fyrsti minni hluti telur hins vegar að skýra framtíðarsýn skorti fyrir rannsóknir í landbúnaði þar sem vísindastarf í þágu landbúnaðar er skilgreint sem hluti hins íslenska vísindasamfélags. Mikilvægt er að draga fram með skýrum hætti hvernig landbúnaðarrannsóknir tengjast rannsóknum móðurgreina í náttúru- og eðlisfræði við Háskóla Íslands eða aðrar vísindastofnanir. Þá er ástæða til að móta afstöðu til þess hvernig landbúnaðarrannsóknir eiga að tengjast skyldum greinum á borð við matvælarannsóknir, manneldisrannsóknir og markaðsrannsóknir.

Landbúnaðarvísindi eiga í einu og öllu að tilheyra íslensku vísindasamfélagi. Því er óheppilegt að rannsóknastofnanir í landbúnaði hafi ekki stjórnskipulega sömu stöðu og annað vísindastarf í landinu. Það þjónar langtímahagsmunum landbúnaðarvísinda að rannsóknastofnanir í landbúnaði heyri undir menntamálaráðuneyti líkt og flestar aðrar opinberar vísindastofnanir.

Undir álitið rita Anna Kristín Gunnarsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ásgeir Friðgeirsson, hv. þingmenn Samf.

Við munum standa að þeim brtt. sem hv. formaður Drífa Hjartardóttir kynnti áðan og að öðru leyti ræða málefni Rannsóknastofnunar í landbúnaði og Landbúnaðarháskóla Íslands hér á eftir.