2004-05-28 00:57:22# 130. lþ. 129.27 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 130. lþ.

[24:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sannfærður um að hægt sé að sýna fram á það að verð á mjólkurafurðum hafi farið hlutfallslega lækkandi. Ég veit þá ekki í hlutfalli við hvað.

Við höfum bara tvær leiðir í þessu kerfi, annars vegar samkeppni og, gott og vel, tökum hana út fyrir sviga, eins og hér er verið að gera, sökum samræðunnar, en þá er bara önnur leið sem er handstýring. (Gripið fram í: Samvinna.) Þá er einungis önnur leið, handstýring, sem færi fram í samvinnu þeirra sem eiga sæti í verðlagsnefnd. Þar koma til tveir mikilvægir fulltrúar, fulltrúi BSRB og ASÍ. Það eru einungis þeir í svona kerfi sem geta tryggt hag neytenda.

Partur af þessu kerfi sem við erum hér að ræða og sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er að samþykkja er einmitt heimild til að aftengja verðlagsnefnd, aftengja fulltrúa BRSB og ASÍ. Það er það sem mér finnst vera langmesti gallinn á þessu, það er ekki verið að tryggja hag neytenda með samkeppni, og ég harma það auðvitað vegna þess að ég vil samkeppni, en gott og vel, þegar búið er að taka hana frá er ekkert eftir nema verðlagsnefndin þar sem fulltrúar launþega í landinu, þeirra samtaka sem hv. þm. Ögmundur Jónasson fer í fylkingarbrjósti fyrir, og Alþýðusambands Íslands, geta stappað niður fótum og komið í veg fyrir að menn misnoti slíka stöðu.

Til þess að friðþægja gagnvart erlendum ritningum, eins og sumir hafa kallað það, í þessu tilfelli ekki Evrópusambandinu heldur Alþjóðaviðskiptastofnuninni, er verið að veita þarna heimild til að aftengja hana. Hver er þá vörn okkar neytenda? Það er það sem veldur mér mestum áhyggjum. Ég held nefnilega að í þessu kerfi öllu sé alveg hræðilegur galli, að bæði sé verið að undanþiggja greinar samkeppni og líka að koma í veg fyrir að fulltrúar launþega geti varið hag þeirra.