Tryggingagjald

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:25:48 (367)

2003-10-09 11:25:48# 130. lþ. 8.2 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:25]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að rutt er úr vegi þeim misskilningi að hér sé verið að auka álögur á launagreiðendur. Svo er að sjálfsögðu ekki. Ég hygg hins vegar að í flestum tilfellum láti þeir sig einu gilda þegar þeir innheimta tryggingagjaldið hvort þeir greiða hluta af því síðan inn á reikning launamannsins eða hvort þeir greiða það í ríkissjóð. Í það minnsta vænti ég þess að þessi breyting verði ekki til þess að launagreiðendur dragi úr hvatningu sinni til launþeganna um að leggja inn á viðbótarlífeyrissparnaðarreikninga.

Auðvitað er það staðreynd að það sparnaðarform er gríðarlega mikilvægt og heppilegt fyrir langflesta launamenn. Langsamlega flestir hafa hag af því að leggja inn á slíka reikninga þó að það geti verið breytilegt eftir aldri, vinnuumfangi og aðstæðum hvers og eins. Það breytist ekkert við þetta. Það er áfram gríðarlega hagstætt að leggja inn á þessa reikninga vegna þess að þetta eru skattfrjáls framlög og vegna þess að atvinnurekandinn leggur á móti eftir að um það var gert samkomulag milli vinnuveitenda og launþegasamtakanna.

Viðbótarlífeyrissparnaður var lögfestur sem möguleiki þegar gerðar voru grundvallarbreytingar á lífeyrissjóðalögunum 1997 en þetta fór ekki að taka við sér fyrr en ríkið ákvað að koma til móts með því framlagi sem ákveðið var frá og með 1. janúar 1999. Nú hefur það kerfi verið við lýði í fimm ár og gengið afskaplega vel eins og ég hef hér rakið og þingmenn hafa tekið undir og þá teljum við óþarfa að halda því áfram. Ég heyrði það í umræðunni hér að þingmenn skilja nákvæmlega út á hvað þetta gengur en það er mismunandi mat á því hvort þetta sé tímabært. Ég tel að þetta sé núna tímabært og þess vegna er þetta lagt fram með þessum hætti.