Vandi sauðfjárbænda

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 13:48:12 (390)

2003-10-09 13:48:12# 130. lþ. 8.94 fundur 74#B vandi sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Sauðfjárbændur þola ekki tekjusamdráttinn árum saman. Í desember sagði ég um vandann varðandi sölumál kindakjötsframleiðslunnar að stuðla yrði að því að flutt yrðu út 400--500 tonn af dilkakjöti til viðbótar við það sem gert var ráð fyrir árið 2002. Þá var ætlunin að flytja út 1.700--1.800 tonn. Ef hæstv. landbrh. hefði brugðist við væri málið ekki eins erfitt fyrir sauðfjárbændur nú. Útflutningsskyldan sem skerðir tekjur bænda væri minni.

Sem betur fer hefur útflutningur kindakjöts aukist á undanförnum árum. Hann var rúm 800 tonn 1999, en eins og áður sagði um 1.700--1.800 tonn árið 2002. Miðað við markaðsstöðuna á kjötmarkaðnum og mikla framleiðslu svína- og kjúklingabænda hefur dilkakjötssalan auðvitað verið erfið. Framboðið hefur valdið verðlækkunum á afurðum. Það hefur aukið samkeppni við kindakjötsframleiðsluna og eru allar horfur á að einnig í haust sitjum við uppi með meira af dilkakjöti en æskilegt væri.

Rétt hefði verið að horfa til framtíðar á síðastliðnu hausti og gera sér grein fyrir vandanum. Það var tímabært fyrir ráðherrann síðasta haust að skoða í alvöru hvort ekki væri hægt að leysa fyrirsjáanlegan vanda, m.a. með því að stuðla að útflutningi á meira kjöti, ella safnaðist dilkakjötið fyrir. Kannski þarf að setja í það einhverja fjármuni en ég held að við verðum að horfast í augu við að vandinn er til staðar. Við verðum að takast á við að leysa hann.

Virðulegi forseti. Frjálslyndi flokkurinn telur að breyta þurfi beingreiðslum í landbúnaði. Draga þarf úr framleiðsluhvatanum en jafnframt tryggja að bændur haldi tekjum sínum. Ég held að sú stefna gæti fækkað þeim vandamálum sem við búum við.