Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 14:52:55 (411)

2003-10-09 14:52:55# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Bjarni Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég kem upp í tengslum við það frv. sem liggur frammi um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og fram hefur komið er þetta frv. ein af forsendum fjárlagafrv. sem lagt var fram á þinginu í síðustu viku og hefur gefið þingmönnum stjórnarandstöðunnar að því er virðist tækifæri til þess að draga inn í umræðuna kosningabaráttuna frá því í vor. Eins og fram hefur komið, hér síðast í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, þá er því haldið fram í umræðunni að við þingmenn Sjálfstfl. höfum nú gleymt þeim hugmyndum um skattalækkanir sem við kynntum fyrir kjósendum á vormánuðum.

Það virðist standa upp úr í þessari umræðu annars vegar það að ekki séu kynntar hér á haustþinginu hugmyndir okkar um tímasetningar á skattalækkununum og finnst mér menn gera fullmikið úr því atriði sérstaklega. Á hinn bóginn verður þingmönnum stjórnarandstöðunnar tíðrætt um að þær hugmyndir sem kynntar voru skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en síðar á kjörtímabilinu. Þetta eru auðvitað gamlar fréttir og ekkert annað. Þetta kemur allt saman skýrt fram í stjórnarsáttmálanum, stjórnarsáttmálanum frá því í maí á þessu ári, þannig að það vekur athygli að þingmenn stjórnarandstöðunnar skuli sjá ástæðu til þess núna að eyða löngu máli í að skattalækkanahugmyndir Sjálfstfl. skuli ekki koma til framkvæmda nú strax á næsta ári og þeirra verði ekki vart í fjárlagafrv. fyrir árið 2004.

Virðulegi forseti. Þegar talið berst að því frv. sem hér er lagt fram og það tengt við fjárlagafrv. sem lagt var fram í síðustu viku þá tel ég nauðsynlegt að þingmenn skoði málin aðeins í víðara samhengi heldur en gert hefur verið hingað til og umræðan í dag ber vott um.

Í fyrsta lagi hefur margoft komið fram í umræðunni um fjárlagafrv. sem hæstv. fjmrh. kynnti á fyrstu dögum þingsins, í máli hans og í umræðu um frv. sjálft, nú síðast í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, að allar helstu skattalækkanahugmyndir Sjálfstfl. eins og þær voru kynntar á vordögum er að finna í stjórnarsáttmálanum. Það er auðvitað stóra atriðið.

Þegar kemur hins vegar að því að þingmenn stjórnarandstöðunnar væna þingmenn Sjálfstfl. um að hlaupast undan loforðum sínum og ætla ekki að standa við hugmyndir sínar um skattalækkanir þá ber að hafa í huga að fleira er í pólitík Sjálfstfl. en skattalækkanahugmyndirnar sem eru þegar komnar inn í stefnuyfirlýsinguna. Flokkurinn hefur staðið fyrir stöðugleika í efnahagsmálum. Við höfum lagt áherslu á að jafnvægi ríki í ríkisfjármálunum og það frv. sem hér liggur frammi um breyting á lögum um tekju- og eignarskatt er mikilvægt innlegg í það mál. Það er mikilvægt innlegg í það mikilvæga verkefni að viðhalda hér hagvexti, auka kaupmátt og halda verðbólgu lágri. Við erum að finna leiðir til þess að halda niðri ríkisútgjöldunum um leið og unnið er að verkefnum eins og þeim að auka hér afgang á ríkisfjárlögum, draga úr vexti samneyslunnar, greiða niður erlendar skuldir og halda verðbólgunni lágri og atvinnustiginu háu. Ekkert af þessu er nefnt í umræðu stjórnarandstöðuflokkanna um fjárlagafrv. eða það frv. sem hér er verið að kynna og tengist auðvitað fjárlagerðinni fyrir næsta ár. Engar af þessum staðreyndum eru tíndar til þegar talað er um kjör almennings sem mönnum hefur orðið tíðrætt um í þingsalnum í dag.

Það er nefnilega svo að samkvæmt nýútkominni þjóðhagsáætlun mun kaupmáttur halda áfram að aukast. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið meira undanfarin ár en dæmi eru áður um. Í nýútkominni þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir því að kaupmáttur muni halda áfram að aukast á árinu 2004 um 2,5%, á árinu 2005 um 4% og um 2,75% á árinu 2006. Þetta eru dæmi inn í næstu þrjú ár. Þetta eru kjarabætur. Hér er verið að tala um ráðstöfunartekjur launþeganna. Þetta eru kjarabætur sem munu koma öllum til góða, líka þeim sem haldið er fram að vegið sé að með því frv. sem hér er til umræðu. Því verður ekkert horft fram hjá þeirri staðreynd þegar rætt er um fjárlagafrv. og það frv. sem hér er lagt fram á þessu haustþingi og tengist fjárlagafrumvarpsgerðinni, að hlutirnir haldast í hendur. Það er ekki boðlegt að slíta hlutina úr samhengi með þeim hætti sem gert hefur verið í umræðunni hingað til.

Samkvæmt minni bestu vitund eru allir stjórnmálaflokkar landsins og þeir sem hafa fjallað um framtíðarhorfur í efnahagsmálum sammála um að ríkisfjármálin muni gegna lykilhlutverki við hagstjórn næstu ára. Um þetta eru stjórnarflokkarnir jafnframt sammála og það kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa séð ástæðu til þess að draga hugmyndir sínar um lækkun virðisaukaskatts um 5 milljarða inn í þá umræðu sem hér fer fram um þetta frv. Þess vegna hlýtur maður að spyrja hvernig það fari saman hjá þeim stjórnmálaflokki að leggja áherslu á aðhald í ríkisfjármálunum, leggja áherslu á að hér ríki jafnvægi í ríkisfjármálum, á sama tíma og þeir leggja til að ríkistekjurnar verði dregnar saman um 5 milljarða. Hvar á að mæta þeirri lækkun tekna ríkissjóðs sem fylgir þessari hugmynd? Hvar á að gera það? Á það að gerast á kostnað afgangsins sem kynntur er í fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir núna? Er það þá skoðun þessa stjórnmálaflokks að það skipti engu máli að ríkissjóður verði rekinn með afgangi á komandi ári? Maður hlýtur að þurfa að spyrja spurninga af þessu tagi þegar rætt er um þau frv. sem hér eru lögð fram og tengjast fjárlagafrumvarpsgerðinni fyrir komandi ár. Það er nefnilega skoðun undirritaðs að sá afgangur sem lagt er upp með í fjárlagafrv. fyrir komandi ár megi ekkert vera minni en þar er kynnt.

[15:00]

Virðulegi forseti. Það skal tekið fram að ég verð að taka undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um að ég harma að ekki hafi tekist samstaða um að fella niður sérstaka tekjuskattinn og láta hann renna út núna um áramótin. Þessi skattur er ósanngjarn. Ég fagna því auðvitað jafnframt að hér skuli koma upp þingmenn eins og hv. þm. Helgi Hjörvar og draga athygli að því hversu ósanngjörn skattbyrði þetta er. En þetta er kannski eitt dæmi um það að þegar menn leggja á tímabundna skatta þá er gjarnan vakin athygli á því af hálfu Sjálfstfl. að tímabundnir skattar hafi tilhneigingu til þess að endast lengur en lagt var af stað með. Ég tel að þetta sé einmitt dæmi um það sem menn ættu að hafa í huga og reyna að draga lærdóm af, þ.e. að tímabundin skattlagning hefur tilhneigingu til þess að dragast úr hófi fram. Menn skulu læra af þessu dæmi um leið og þeir eiga auðvitað að fagna því nú skuli hafa tekist samstaða meðal þeirra sem stýra landinu um að skatturinn skuli falla niður fyrir fullt og allt eftir árið 2005. Skatturinn hefur beinst að ungu fjölskyldufólki sem er reiðubúið að leggja mikið á sig til þess að auka tekjur sínar á sama tíma og fjárfest er í fasteign og fjölskyldan stækkar. Almennt eigum við að haga skattlagningunni þannig að það borgi sig að vinna, að það borgi sig að sækja sér tekjur út á vinnumarkaðinn. Þessi skattur stríðir gegn því markmiði. Þess vegna er það sérstakt fagnaðarefni að nú hafi tekist samkomulag milli stjórnarflokkanna um að afnema skattinn með öllu árið 2005.

Svo verðum við auðvitað að halda því til haga að þessi skattur verður lækkaður núna um áramótin og það er í sjálfu sér hægt að fagna því fyrst að sú leið var farin að láta hann ekki renna út.

Hér hafa alþjóðleg viðskiptafélög verið nefnd til sögunnar enda snerta alþjóðlegu viðskiptafélögin að hluta til frv. sem hér liggur frammi. Ég vil koma því að í þeirri umræðu að ég tel að sú leið sem nú er verið að fara, þ.e. að kæfa þá hugmynd eða draga til baka þá hugmynd um alþjóðlegu viðskiptafélögin sem fólst í lagasetningunni á sínum sé ekki dæmi um að við höfum haft slæman ásetning í upphafi eða að hugmyndin hafi verið vond í grunninn. Þetta er hins vegar dæmi um að með málamiðlunum og með því að taka hálf skref þá geta góðar hugmyndir klúðrast. Við eigum að draga þann lærdóm af þessari löggjöf um alþjóðlegu viðskiptafélögin. Við eigum að hlusta á raddir atvinnulífsns. Við eigum að hlusta á þær ábendingar sem koma úr atvinnulífinu um hvaða nauðsynlegu forsendur þurfi að liggja að baki lagasetningu af þessu tagi og við eigum að halda áfram að finna leiðir til þess að draga að erlent fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf. Það hefur komið fram í umræðunni um alþjóðlegu viðskiptafélögin, og rétt er að því sé haldið til haga, að sú kynning sem fram hefur farið á Íslandi sem fjárfestingarkosti hefur komið til góða þó að það hafi birst annars staðar í atvinnulífinu og viðskiptalífinu en einmitt í alþjóðlegu viðskiptafélögunum. Það er í sjálfu sér gott.

Að lokum, virðulegi forseti, um vaxtabæturnar. Ekki skal ekki gert lítið úr því markmiði sem kynnt er í lögunum að með þeirri lagabreytingu sem hér er kynnt í frv. er verið að draga úr hvata til frekari skuldsetningar hjá þeim sem eru að fjárfesta í eigin húsnæði. Ég gat ekki betur skilið orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan, fyrr í umræðunni, en svo að þegar ungt fólk væri að taka ákvarðanir um fjárfestingar í húsnæði þá væri m.a. og að stórum hluta til byggt á því í dag, þegar horft væri til framtíðar, að vaxtabótastuðningurinn kæmi frá ríkinu. Ég vil bara af þessu tilefni vekja athygli á mikilvægi þess að ungt fólk sem ætlar að fjárfesta í húsnæði í fyrsta sinn á auðvitað fyrst og fremst að geta byggt á stöðugleika í efnahagsmálum, á auknum hagvexti og á kaupmáttaraukningu til lengri tíma litið. Það eru hinar almennu aðgerðir sem við getum beitt til þess að auðvelda fólki að eignast húsnæði, til þess að auðvelda fólki lífsbaráttuna, og það er með slíkum aðgerðum sem við ættum auðvitað almennt að létta undir með þeim sem haldið er fram að þessi lagabreyting beinist sérstaklega gegn.