Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 18:27:00 (439)

2003-10-09 18:27:00# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar þessir 3.000 fiskar sluppu kom upp í umræðunni hvort grátt svæði væri á milli landbrn. og sjútvrn., veiðimálastjóra og Fiskistofu, þannig að það var ekki alveg ljóst á þeim tímapunkti og við urðum að fara í að skilgreina það og höfum verið að því. Auðvitað líður manni vel yfir því að fiskeldismennirnir sjálfir lýstu því yfir sem þeir gerðu og því verður fylgt eftir með mjög skýrum reglum. Þær eru væntanlegar.

Við gerum okkur grein fyrir því að laxinn er syndur og það hefur sýnt sig. En við höfum ekki bara glímt í sumar við þessa sjö fiska úr slysinu heldur hefur hér komið aðskotafiskur á hverju sumri. Ég hef lýst því yfir að það þarf að vera þannig í kringum þetta fiskeldi á Austfjörðum að menn slátri fiskinum áður en hann verður frjór og að því er stefnt. Ég trúi því að megnið af þeim fiski sem slapp sé farinn á haf út eða dauður þess vegna og komi hér aldrei meir. Ég hef beðið þá menn sem með eftirlitsskylduna fara að fara yfir nálægar ár, t.d. við Norðfjörð. Þeir hafa gert það og ekki fundið þar fiska. Ég geri mér fulla grein fyrir þeirri hættu sem af þessu stafar en ég trúi því nú ekki að alvarleg erfðablöndun verði í þessu tilfelli.

En þarna liggur varúðin og um hana ber að hugsa af fullri alvöru.