Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:47:58 (538)

2003-10-14 15:47:58# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á samkeppnislögum, eins og fram kemur á þskj. 9. sem er merkt 9. mál.

Frv. sem hér liggur fyrir eru þrjár nýjar greinar og mun ég gera grein fyrir þeim í máli mínu. En aðeins áður en ég fer í efnisatriði málsins er mikilvægt að rifja upp að nokkuð langt er orðið síðan menn hafa almennt orðið sammála um að ríkisvaldið eigi ekki að stjórna verðmyndun á vörum á markaði. Almennt eru menn sammála um að eðlilegra, skynsamlegra og betra sé að markaðurinn sjálfur fái að stjórna verðmynduninni. Menn eru einnig almennt sammála um að það gerist ekki nema á markaðnum séu skýrar leikreglur. Því eru miklir almannahagsmunir í því fólgnir að markaðurinn fái að starfa á grunni opinna og þekktra leikreglna. Annars er hættan sú að markaðurinn virki ekki eins og hann á að virka. Annars er hættan sú að verðmyndun sú sem menn leitast eftir að markaðurinn myndi eigi sér ekki stað. Þess vegna er mikilvægt að reglurnar á markaðnum séu skýrar og í því felast miklir almannahagsmunir að vel takist til.

Í sumar var dregið mjög skýrt fram hversu alvarlegar afleiðingar það kann að hafa fyrir almenning ef menn virða ekki reglur samkeppninnar á markaði og keppinautar fara að koma sér saman um verð. Þá er í reynd markaðurinn ekki að virka. Víðast hvar í hinum vestræna heimi þar sem byggt hefur verið á þessum grunnreglum markaðar til langs tíma eru menn smám saman að skynja hversu alvarleg þessi brot eru. Má taka sem dæmi að langt er síðan Bandaríkjamenn fóru að nota öll tiltæk ráð í opinberum rétti til að rannsaka þessi mál og ganga þeir miklu lengra en Evrópuríkin enn hafa nokkurn tíma gert, enda er kannski ekki nema von því að bandarísku samkeppnislögin, þau fyrstu sem litu dagsins ljós, eru frá árinu 1890 og þeir vitaskuld komnir hvað lengst á þessum vettvangi.

Ég ætla að gera stutta grein fyrir þeim ákvæðum sem við leggjum til, allir þingmenn Samfylkingarinnar sem eru á þessu máli og að því standa. Í fyrsta lagi leggjum við til að Samkeppnisstofnun geti við rannsókn máls gert húsleit í starfsstöðvum fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar rökstuddur grunur liggur fyrir um brot gegn ákvæðum laganna. Á sama hátt getur stofnunin gert húsleit og lagt hald á gögn á heimilum stjórnenda fyrirtækja.

Við framkvæmd aðgerða skv. 1. mgr. skal fara eftir ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.

Ég held að það sé nauðsynlegt í þessari umræðu, virðulegi forseti, að vekja athygli á því að þann 1. maí nk. ganga í gildi reglur sem veita framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rétt til þess að beita þessum heimildum, þ.e. að fara í húsleit. Það hefur svo sjálfkrafa í för með sér að Eftirlitsstofnun EFTA fær þá væntanlega sams konar heimildir hér á landi. Ég held að menn hljóti að vera sammála um að eðlilegt sé að innlendar stofnanir hafi þessar heimildir einnig því að hér eru á ferðinni mjög alvarleg brot og mikilvægt er að við nálgumst þau sem slík, enda eru á ferðinni miklir samfélagslegir hagsmunir varðandi það að keppinautar á markaði séu ekki að koma sér saman um verð. Þá er markaðurinn einfaldlega ekki að virka. Þá erum við ekki að fá það út úr markaði sem við viljum fá út úr honum.

Við hv. þm. Samfylkingarinnar lítum svo á að hér sé því um mjög mikilsverða hagsmuni að ræða sem verði að vernda með öllum tiltækum ráðum og því sé mikilvægt að þessi heimild sé veitt. Í Noregi hafa menn skilgreint heimili þannig --- þar er þessi heimild til staðar --- að ,,á heimilum`` þýði að menn geti farið inn á fasteignir. Í greinargerð með frv. er það eftirlátið dómstólum að meta hverjir geti talist stjórnendur enda fer vitaskuld engin húsleit fram nema dómstólar samþykki slíka leit og á bak við þá leit séu viðeigandi gögn.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, þá kom upp í sumar, eins og margir þekkja, umræða um það hvernig verkaskiptingu eigi að vera háttað milli annars vegar stjórnvalda eða Samkeppnisstofnunar og hins vegar lögregluyfirvalda. Þessi verkaskipting olli talsverðum deilum sem ástæðulaust er að rekja hér. Þó má segja sem svo að hver og einn hafi litið málið sínum augum og túlkað niðurstöðuna á þann hátt sem hann taldi réttasta. En það má ekki vera þannig í lögum að þau séu óskýr og geri það að verkum að réttarástand á þessu sviði sé ekki sem skyldi. Því leggum við hér til, virðulegi forseti, í þessum reglum að Samkeppnisstofnun verði falið að rannsaka lögaðila og fyrirtæki en lögregluyfirvöld með ríkissaksóknara í fararbroddi fari með rannsóknir á hendur einstaklingum. Við teljum að þetta sé skynsamlegt og það tryggir einnig að hvorki sé verið að rannsaka fyrirtæki né einstaklinga á tveimur stöðum í einu. Þetta er sú aðferð sem Bretar hafa sett upp hjá sér og ég held að við getum vel farið í smiðju til þeirra á þessum vettvangi.

Til að fylgja þessum hugmyndum eftir er 3. gr. frv. sett upp á þann hátt sem raun ber vitni. En kjarninn í þessu er sá að Samkeppnisstofnun skuli sjá um rannsóknir á brotum á samkeppnislögum að því er varðar lögaðila en ríkissaksóknari og þá væntanlega lögregla að því er varðar einstaklinga.

Í 2. gr. frv. er einnig tekið fram að Samkeppnisstofnun skuli veita ríkissaksóknara aðgang að nýjum gögnum jafnharðan og þeirra er aflað og tilkynna án tafar ríkissaksóknara um mál sem Samkeppnisstofnun telur að rétt sé að verði tekin upp.

Þetta er í stuttu máli, virðulegi forseti, kjarninn í því frv. sem við hv. þm. Samfylkingarinnar mælum nú fyrir. Ég hef hér gert grein fyrir ákvæðum frv. Ég ætla að fara í örstuttu máli, svona eins og hægt er, yfir greinargerðina með frv. svo að enginn velkist nú í vafa um hvert efni frv. er og hvaða hugsun býr þar að baki.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem m.a. er ætlað að skýra og skerpa á verkaskiptingu og samskiptum milli Samkeppnisstofnunar og ríkislögreglustjóra vegna brota á samkeppnislögum, auk þess sem brot fyrirtækja varða ekki lengur refsingum.

Brot fyrirtækja og lyktir mála gagnvart þeim eiga því alfarið undir stjórnvöld. Að sjálfsögðu verða þær ákvarðanir bornar undir dómstóla ef svo ber undir, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar um embættistakmörk yfirvalda.

Í fyrsta lagi er lagt til að refsiábyrgð fyrirtækja verði afnumin. Með breytingunni verður því einungis unnt að beita lögaðila stjórnsýsluviðurlögum vegna brota á lögunum. Ákvörðun Samkeppnisráðs þar um verður endurskoðuð af dómstólum samkvæmt almennum reglum kjósi aðili svo. Breytingin kemur í veg fyrir að lögaðilum sé refsað tvisvar fyrir sama brotið.

Í öðru lagi er lagt til að Samkeppnisstofnun verði gert kleift að leita á heimilum stjórnenda fyrirtækja að gögnum. Brot gegn samkeppnislögum eru fyrst og fremst brot gegn almenningi. Hér er því um mjög alvarleg brot að ræða. Það er almenn samstaða um það í samfélaginu að ríkisvaldið eftirláti fyrirtækjum og einstaklingum framleiðslu og sölu vara á markaði. Ríkið hefur líka að mestu dregið sig út úr ákvörðunum um verðlagningu og verðmyndun framleiðsluvara. Til þess að verðmyndun á markaði verði eðlileg er nauðsynlegt að sanngjörn og heiðarleg samkeppni fái notið sín. Þeir sem brjóta gegn ákvæðum laga sem ætlað er að stuðla að því að efnahagslífið fái þrifist og dafnað á þessum forsendum vega því alvarlega að hagsmunum almennings sem verður að greiða fyrir þessi brot með hærra verði á vörum, jafnvel nauðsynjavörum. Brot gegn samkeppnislögum eru litin mjög alvarlegum augum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fengið heimild til húsleitar á heimilum stjórnenda fyrirtækja við þessar aðstæður. Það er því ljóst að Íslendingar verða fljótlega að lögfesta sambærilegt ákvæði vegna aðildar sinnar að EES-samningnum. Það er skynsamlegt að gera það strax vegna alvarleika brotanna. Með lögfestingu þessara reglna er það lagt á dómstóla að meta hvað teljist vera heimili stjórnenda og hverjir séu stjórnendur fyrirtækja sem rétt sé að veita húsleitarheimild hjá.

Í þriðja lagi er lagt til að refsiábyrgð einstaklinga verði takmörkuð við brot á IV. kafla samkeppnislaganna sem hefur að geyma ákvæði um bann við samkeppnishömlum. Brot á ákvæðum IV. kafla teljast til alvarlegri brota í samkeppnisrétti. Önnur bannákvæði laganna lúta að vægari brotum á lögunum. Það er álit flutningsmanna að nægjanlegt sé að leggja refsiábyrgð á einstaklinga vegna alvarlegri brota á lögunum þar sem beiting stjórnsýsluviðurlaga gagnvart lögaðila feli í sér nægjanleg varnaðaráhrif gagnvart stjórnendum sem þurfa að taka á sig ábyrgð, reynist brot þeirra mjög alvarleg.

Í fjórða lagi, í samræmi við framangreinda tillögu, er kveðið skýrt á um að Samkeppnisstofnun skuli tilkynna ríkissaksóknara um mál þar sem rökstuddur grunur hefur vaknað um að refsiverður verknaður hafi verið framinn sem fari gegn ákvæðum IV. kafla laganna um bann við samkeppnishömlum. Jafnframt er kveðið á um að Samkeppnisstofnun skuli jafnharðan og nýrra gagna er aflað veita ríkissaksóknara aðgang að þeim, eftir að hann hefur ákveðið að hefja opinbera rannsókn á máli. Það er síðan í verkahring ríkissaksóknara að meta hvort og hvenær hafin skuli opinber rannsókn á ætluðum brotum einstaklinga. Gert er ráð fyrir að rannsókn Samkeppnisstofnunar og ríkissaksóknara fari fram samhliða. Ekki er að sjá að slíkt geti falið í sér vandamál þar sem Samkeppnisstofnun og ríkissaksóknara er falið að rannsaka ólíka fleti þessara mála enda verða þessar rannsóknir að vera sjálfstæðar hvor á sinn hátt.

[16:00]

Í fimmta lagi er lagt til að refsingar við brotum á ákvæðum samkeppnislaga verði hertar til samræmis við það sem þekkist í þeim löndum sem styðjast við sambærilega löggjöf og við. Það eru ekki síst varnaðaráhrif sem gera það að verkum að flutningsmenn telja nauðsynlegt að þyngja refsingar sökum alvarleika þessara brota. Þolendur brota gegn samkeppnislögum eru fyrst og fremst almenningur, sem vegna brotanna verður að greiða hærra verð eða hafa minna úrval til að velja úr, séu brotin fólgin í misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þess má geta að víðast hvar á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu, m.a. Bretlandi og Írlandi, er gert ráð fyrir 5--6 ára fangelsi vegna brota á ákvæðum samkeppnislaga. Bandaríkjamenn ganga mun lengra í þessum efnum.

Þá er rétt að taka fram vegna umræðunnar sem verið hefur að undanförnu að í þessu frumvarpi er ekki kveðið á um að rannsókn Samkeppnisstofnunar skuli rjúfa fyrningu vegna refsiábyrgðar einstaklinga. Rannsókn Samkeppnisstofnunar fer ekki í einu og öllu samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, eðli málsins samkvæmt. Hér er lögð til skýr verkaskipting milli ríkissaksóknara og lögreglu annars vegar og samkeppnisyfirvalda hins vegar, þar sem rannsókn samkeppnisyfirvalda snýr að fyrirtækjum, og telja flutningsmenn óeðlilegt að rannsókn hennar rjúfi fyrningu vegna hugsanlegrar refsiábyrgðar einstaklinga. Með þeim reglum sem hér er lagt til að verði lögfestar eru lagðar á Samkeppnisstofnun ríkar kvaðir að tilkynna ríkissaksóknara svo skjótt sem auðið er um að rökstuddur grunur hafi vaknað við rannsókn máls og einstaklingar kunni að hafa bakað sér refsiábyrgð. Ábyrgðin á því að brot fyrnist ekki er lögð á Samkeppnisstofnun. Með þeim reglum sem hér er lagt til að verði lögfestar er henni gert skylt að gera ríkissaksóknara tafarlausa grein fyrir því ef rökstuddur grunur vaknar um að brot hafi verið framin, sem kunna að leiða til refsiábyrgðar einstaklinga. Það er svo ákvörðun ríkissaksóknara að hefja rannsókn á málinu, en upphaf þeirrar rannsóknar rýfur fyrningu gagnvart hugsanlegri refsiábyrgð einstaklinga. Þetta telja flutningsmenn vera eðlilegt fyrirkomulag í ljósi þeirrar verkaskiptingar sem lögð er til að verði lögfest milli þessara refsivörsluaðila, þ.e. Samkeppnisstofnunar og ríkissaksóknara.

Virðulegi forseti. Ég hef gert hér í nokkrum orðum grein fyrir þeim hugmyndum sem búa að baki því frv. sem hér er lagt fram. Með því erum við að undirstrika það hversu alvarleg brot við teljum að brot gegn samkeppnislögum séu og að um sé að ræða fyrst og fremst brot gegn almenningi í landinu. Við teljum nauðsynlegt og í samræmi við þá þróun sem verið hefur á Vesturlöndum að þau yfirvöld sem hafa með þessi mál að gera fái ríkari heimildir en nú er og er það í samræmi við það sem hefur tíðkast á Vesturlöndum, eins og ég áður rakti.

Að þessum orðum sögðum, virðulegi forseti, tel ég mig hafa gert nokkuð skýra grein fyrir þeirri hugsun sem býr að baki því frv. sem hér er lagt fram og óska, að umræðum lokunum, að málinu verði vísað til efh.- og viðskn.