Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 17:09:52 (556)

2003-10-14 17:09:52# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[17:09]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af orðum hv. þm. má ráða að þingmenn Samf. séu meiri samkeppnissinnar en hv. þm., því þeir eru tilbúnir til að ganga lengra í að vernda samkeppnina heldur en hv. þm., sem kemur kannski eilítið á óvart. Ég skal játa það að ég hafði ekki vitneskju um það að hv. þm. hefði tjáð sig um þessi skattamál og lýst miklum vonbrigðum með aðgerðir ríkisstjórnarinnar. En það er reyndar létt í vasa, því það reynir fyrst á manninn þegar málin koma til atkvæðagreiðslu. Nú er það einfaldlega þannig að þeir hv. þm. sem riðu hér inn á þeim hesti sem þeir vilja kenna við skattalækkanir og frelsi, eiga núna að hafa tök á því, í samstarfi við stjórnarandstöðuna, að fella þessar hugmyndir um að leggja þessar álögur á almenning og afnema greiðslu til almennings upp á u.þ.b. 4 milljarða. Nú hafa hv. þingmenn tækifæri til þess að sýna að þeir virkilega meina það sem þeir hafa sagt. Og það mun reyna á það í atkvæðagreiðslu. Ef hv. þm. stendur við það að hann muni ganga gegn þessum frumvörpum get ég virkilega sagt að hv. þm. sé að greiða atkvæði í samræmi við samvisku sína.