Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 13:39:19 (1100)

2003-11-04 13:39:19# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[13:39]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Umræður um iðgjöld vátryggingafélaga skjóta reglulega upp kollinum hér á landi og er það vel. Iðgjöldin eru stór hluti af rekstrarkostnaði heimilanna og skipta því hvern einasta neytanda máli. Iðgjöldin eru ekkert einkamál vátryggingafélaganna. Þau verða að geta sýnt fram á að iðgjöld vegna lögboðinna vátrygginga séu ekki ósanngjörn í garð vátryggingartaka. Af þeim sökum er nauðsynlegt að vátryggingafélögin fái aðhald frá markaðnum og eftirlitsaðilum.

Ítarleg skýrsla Neytendasamtakanna um vátryggingamarkaðinn og þessi umræða hér í dag eru dæmi um þetta aðhald. Jafnframt er nauðsynlegt að eftirlitsaðilar fái aðhald í sínum störfum.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson og reyndar einnig Neytendasamtökin gagnrýna hve há vátryggingaskuld tryggingafélaganna er og eftirlit með félögunum. Neytendasamtökin segja að miðað við aðstæður á markaði hafi eftirlit Fjármálaeftirlitsins og Samkeppnisstofnunar verið veikt. Ég tel rétt að víkja örstutt að því hvernig vátryggingaskuld verður til.

Þegar tjón verður ber vátryggingafélagi að færa til hliðar fé til að mæta þeim bótakröfum sem greiða þarf í framtíðinni. Byggist það á lögum og reglugerðum sem eru samræmdar á Evrópugrundvelli. Vátryggingaskuldin hefur verið að hækka síðustu ár þótt dregið hafi úr hækkun á síðasta ári og það er því ekki óeðlilegt að vátryggingafélögin séu tortryggð. Ég get hins vegar ekki dæmt um það hvort vátryggingaskuldin sé nú óeðlilega há miðað við þróun á markaði. Til þess hef ég ekki forsendur á þessari stundu. Það er í raun ekki hægt að segja til um það fyrr en öll spil hafa verið lögð á borðið. Það hefur komið fram opinberlega að Fjármálaeftirlitið er að vinna að nýrri úttekt á stöðu vátryggingaskuldar.

Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er tvíþætt hvað varðar eftirlit með vátryggingafélögunum. Annars vegar lýtur eftirlitið að fjárhagslegri stöðu vátryggingafélaga, þ.e. að vátryggingafélög hafi fjárhagslega burði til að standa við skuldbindingar sínar. Hins vegar ber Fjármálaeftirlitinu að fylgjast með iðgjaldagrundvelli vátrygginga með það fyrir augum að iðgjöld sem í boði eru hér á landi séu sanngjörn í garð vátryggingartaka og í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingum felst og eðlilegan rekstrarkostnað vátryggingafélaga.

Síðara hlutverkið er nokkuð sérstakt og frábrugðið því sem almennt þekkist í starfsemi eftirlitsstofnana í löndunum í kringum okkur. Getur verið vandkvæðum bundið fyrir Fjármálaeftirlitið að gera annars vegar kröfu til að fjárhagsleg staða vátryggingafélags sé yfir ákveðnum mörkum og hins vegar að iðgjöld megi ekki fara yfir tiltekin mörk. Fjármálaeftirlitið tengir þetta hlutverk með lögum og það getur engu að síður verið fullt tilefni til umræðu um hvort slíkt tvöfalt hlutverk sé eðlilegt.

Fjármálaeftirlitið hefur tvívegis tekið til sérstakrar skoðunar hækkanir vátryggingafélaga á iðgjöldum ökutækjatrygginga. Varðandi hækkunina 1999 tók Fjármálaeftirlitið fram að hækkanir umfram það sem rekja hafi mátt til breytinga á skaðabótalögum hafi ekki verið nauðsynlegar öllum tilvikum þegar horft hafi verið til fjárhagsstöðu vátryggingafélaganna og stöðu tjónaskuldar. Jafnframt að brýnt væri að hvert félag tæki forsendur iðgjaldaákvæða sinna til endurskoðunar um leið og frekari reynsla yrði fengin.

Í greinargerð Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2000 kom enn fremur fram að þrátt fyrir að fjárhagsstaða stóru vátryggingafélaganna væri sterk og fé hefði losnað úr tjónsskuld fyrri ára hefði félagið sýnt fram á aukinn tjónakostnað og óstöðugleika í greininni. Í hvorugu tilfelli taldi Fjármálaeftirlitið forsendur til að grípa til aðgerða á þeim grundvelli að iðgjöld væru ósanngjörn í garð vátryggingartaka. Var m.a. bent á að vátryggingafélögin starfa á samkeppnismarkaði og að félög sem keppa á vátryggingarmarkaði eigi að hafa talsvert svigrúm til iðgjaldaákvarðana.

Á ársfundi Fjármálaeftirlitsins í síðustu viku kom fram að eftirlitið hefur síðustu missiri verið að vinna tölfræðigreiningu á stöðu vátryggingaskuldar í lögboðnum ökutækjatryggingum hjá þremur stærstu vátryggingafélögunum og verið væri að ljúka athugun á hækkun iðgjalda á árinu 2002 í tilteknum eignatryggingum.