Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 13:46:39 (1102)

2003-11-04 13:46:39# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Íslenski tryggingamarkaðurinn einkennist af yfirburðum þriggja tryggingafélaga. Þau hafa hér algera yfirburðastöðu. Tryggingafélögunum hefur fækkað hér á undanförnum árum eins og allir vita. Í afar athyglisverðri skýrslu Neytendasamtakanna um tryggingamarkaðinn segir m.a., með leyfi forseta, þar sem talað er um ábendingar til lagfæringar:

,,Ástæða er til að efla opinbert eftirlit með rekstri vátryggingafélaganna. Athuganir á vátryggingarekstrinum þurfa að fara fram með reglulegum og skjótum hætti. Opinberar eftirlitsstofnanir þurfa að vinna að því að gera vátryggingastarfsemina gagnsærri með birtingu ítarlegri upplýsinga en hingað til hafa verið aðgengilegar. Vegna eðlis vátrygginga og fákeppnisaðstæðna á markaðnum þurfa eftirlitsstofnanirnar að halda uppi einbeittu eftirliti og vera tilbúnar til afskipta þegar hagsmunum almennings er ógnað.``

Hér er vissulega mikið sagt, herra forseti, og varað sérstaklega við því hvað gengið sé nú á hagsmuni almennings. Margt bendir til þess þegar skýrsla Neytendasamtakanna er lesin að málinu sé svo háttað að almenningur og hagsmunir hans séu fyrir borð bornir í starfsemi tryggingafélaganna. Það má m.a. draga þá ályktun af sjóðasöfnun sem birtist í sérstökum sjóðum tryggingafélaganna og ætla má að þar séu tryggingafélögin að leggja til hliðar fé sem e.t.v. verður síðar notað til annarrar starfsemi.