Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 13:50:26 (1104)

2003-11-04 13:50:26# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa orðið örar breytingar í viðskiptalífi landsmana. Æ meiri samþjöppunar gætir á öllum sviðum viðskipta og blokkamyndanir eru tíðari. Það er sama hvert litið er, alls staðar hefur átt sér stað óhófleg samþjöppum, í sjávarútvegi, í bankaheiminum og hjá tryggingafélögunum.

Markmiðið sem aðilar bera fyrir sig er ævinlega það sama, hagræðing. En hagræðing fyrir hverja? Fyrir neytendur? Já, maður skyldi ætla það. En annað kemur á daginn þegar að er gáð. Svo virðist sem hagræðing fyrirtækjanna sé eingöngu þeim sjálfum í hag en ekki til hagsbóta fyrir neytendur. Nú eru til skoðunar hjá opinberum eftirlitsyfirvöldum tvö mál sem varða víðtækt samráð sem bendir til að hafi bitnað alvarlega á íslenskum neytendum. Þetta eru mál olíufélaganna og tryggingafélaganna.

Á tryggingamarkaði hefur þróunin orðið sú að fyrirtækjunum hefur fækkað og hagnaður þeirra stóru hefur aukist mjög. Samfara þessu hafa tryggingar hækkað umtalsvert. Þrátt fyrir sterka stöðu tryggingafyrirtækjanna sem kemur til af aukinni hagræðingu hafa þau séð ástæðu til þess að hækka iðgjöld á neytendur.

Á fyrri hluta þessa árs er hagnaður tryggingafélaganna rúmlega 1 milljarður bara af bílatryggingunum, rúmlega 20% aukning frá árinu á undan. Eins og við vitum þá komast menn alls ekki hjá því að tryggja bílana sína. Við eigum flest bíla og þá þarf að tryggja. Það er ágætt að halda því til haga í þessari umræðu að auk þess sem fjárhagsleg staða tryggingafélaganna hefur styrkst þá hefur tjónum líka fækkað þannig að miklar hækkanir tryggingafélaganna eru hreinlega óskiljanlegar fyrir venjulega neytendur sem stöðugt er lofað að hagræðingin sé til hagsbóta fyrir þá.

Það er hlutverk okkar, virðulegi forseti, að gæta þess að stórar fyrirtækjasamsteypur noti ekki aðstöðu sína til þess að okra á neytendum. Það nægir ekki að yppta öxlum og lýsa áhyggjum. Sú þróun sem ég hér hef lýst er óæskileg þar sem fyrirtæki sem eru að verða allt of valdamikil verða það á kostnað neytenda.