Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 13:56:34 (1107)

2003-11-04 13:56:34# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), BÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Birgir Ármannsson:

Herra forseti. Í þessari umræðu er nauðsynlegt að hafa í huga að það er öllum í hag að fyrir hendi séu í landinu öflug vátryggingafélög sem hafa fjárhagslegan styrkleika til að mæta skakkaföllum og bæta tjón hvort sem er á mönnum eða munum. Að því leyti er fagnaðarefni þegar félögunum gengur vel og þau eiga kost á að byggja upp öfluga bótasjóði. Það er síðan lögbundið hlutverk Fjármálaeftirlits að fylgjast með hvort sú uppbygging sé í eðlilegu samræmi við hlutverk þessara bótasjóða, ekki með því að segja til um hversu mikið nákvæmlega beri að leggja til þeirra heldur að þessar greiðslur séu innan tiltekinna marka, tiltekinna rauðra strika sem fyrirtækjunum ber að halda sig innan. Þessi opinberi eftirlitsaðili býr til ákveðinn ramma sem fyrirtækin verða að halda sig innan en á ekki að gefa fyrirmæli um hlutföll milli einstakra þátta í þessu sambandi.

Auðvitað hlýtur Fjármálaeftirlitið að horfa á sanngirni gagnvart neytendum eins og er þess lögbundið hlutverk. En Fjármálaeftirlitið þarf líka að hugsa um öryggi þeirra sem tryggja hjá félögunum.

Það er líka ástæða til að minna á það í þessari umræðu að lögbundnir þröskuldar gagnvart innkomu nýrra aðila á markaðinn hafa verið afnumdir á undanförnum árum. Þátttaka okkar í Evrópska efnahagssvæðinu tryggir aðgang fyrirtækja af öllu þessu svæði inn á íslenska markaðinn. Það skiptir verulegu máli í þessu sambandi enda felur möguleikinn á innkomu nýrra erlendra aðila alltaf í sér ákveðið aðhald að þeim fyrirtækjum sem fyrir eru. Hitt er svo annað mál að það hefur valdið mér eins og öðrum vonbrigðum að erlendir aðilar skuli ekki hafa gert meira vart við sig á þessum markaði en raun ber vitni. Sama á reyndar við á mörgum öðrum sviðum viðskiptalífsins þar sem erlendir aðilar hafa ekki sýnt þann áhuga sem við kannski væntum þegar markaðarnir voru opnaðir.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að frjáls samkeppni tryggir neytendum bestan árangur. Ef lögmál frjálsrar samkeppni eru brotin ber að taka á því. Til þess höfum við opinbera eftirlitsaðila og við verðum að treysta þeim til þess að framfylgja þeim ákvæðum sem þeim ber lögum samkvæmt.