Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 14:42:38 (1116)

2003-11-04 14:42:38# 130. lþ. 20.4 fundur 19. mál: #A friðlýsing Jökulsár á Fjöllum# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja að ég styð þessa tillögu. Tillaga hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur gengur út á það að friðlýsa Jökulsá á Fjöllum, allt vatnasvið hennar, þverár og eðlilega rennslishætti. Í tillögunni felst að það yrði bannað að ráðast í hvers konar mannvirkjagerð eða röskun á þeim landsháttum sem þessu tilheyra.

Ég vil líka upplýsa það, herra forseti, að tveimur sinnum hefur Samf. staðið frammi fyrir því að taka afstöðu til þessa máls. Í bæði skiptin hefur niðurstaða okkar verið með þessu móti. Fyrir kosningarnar sendu Náttúruverndarsamtök Íslands forustumönnum stjórnmálaflokkanna spurningar sem vörðuðu mikilvæga þætti um náttúruvernd hér á landi. Þar var m.a. spurt um afstöðu til friðlýsingar Jökulsár á Fjöllum. Svar mitt sem formanns Samf. var að flokkurinn fylgdi henni.

Ég vil líka draga inn í þessa umræðu, herra forseti, að Samf. hefur lagt fram till. til þál. um hálendisþjóðgarð. Það er að sönnu tillaga sem ekki allir í þessum sal eru sammála um en hún var af okkar hálfu eins konar sáttargjörð í þeirri illvígu deilu sem geisaði um virkjun við Kárahnjúka. Nú er það svo að þeir hv. þm. tveir sem flytja þá tillögu sem hér er til umræðu voru allt annarrar skoðunar en sá sem hér talar. Ég er eigi að síður þeirrar skoðunar að sú tillaga sem við fluttum um hálendisþjóðgarð sé vel fallin til þess að skapa ákveðna sátt meðal alls þorra þjóðarinnar. Í reynd felur hún í sér að menn setja niður deilurnar um Kárahnjúka, grafa aftur stríðsöxina sem upp var tekin úr jörðu í þeim deilum og fallast á að mjög dýrmæt svæði norðan og norðaustan Vatnajökuls sem við teljum að sé brýnt að vernda fyrir komandi kynslóðir yrðu sett undir þjóðgarð.

[14:45]

Nú ætla ég ekki að leggja þessa umræðu undir tillögu okkar samfylkingarmanna um hálendisþjóðgarðinn en ég vil að það komi ákaflega skýrt fram að samkvæmt greinargerð með henni á að vera tryggt að innan hins ákjósanlega hálendisþjóðgarðs sem við lögðum til yrði allt vatnasvið Kreppu sem fellur í Jökulsá á Fjöllum og nægilega stór hluti af vatnasviði Jökulsár á Fjöllum til þess að ókleift yrði að ráðast í virkjanir sem t.d. löskuðu Dettifoss. Ég vil í tilefni af hinni ágætu tillögu þeirra tvímenninga úr Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leyfa mér að lesa það sem segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Flutningsmenn telja raunar vel koma til greina að Alþingi samþykki sérstaka ályktun um friðun vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum frá upptökum til hafs svo öll tvímæli verði tekin af um vernd árinnar.``

Það liggur því fyrir, herra forseti, að við höfum fyrir okkar leyti lýst því, ekki með jafnskeleggum hætti kannski og þeir hv. þm. sem hér hafa flutt tillöguna en eigi að síður höfum við sagt það skýrt og skorinort fyrir okkar hatt, að við teljum þetta æskilegt. Því kem ég hér í þennan stól til að lýsa því yfir að Samf. er sammála málflutningi hv. flutningsmanna. Við teljum að þetta eigi að gera.

Núna eru kannski síðustu forvöð að vernda þarna eina merkilegustu jökulelfu landsins. Henni tengjast kennileiti í landslagi sem eru sérkennileg og náttúrufyrirbæri sem við eigum sennilega ekki völ á að sjá annars staðar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti fossaröðina í ánni og vísaði til síns merka gengna læriföður, Sigurðar Þórarinssonar, sem manna fegurst hefur lýst þeim verðmætum sem er að finna í þessari einstæðu náttúrugersemi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti því líka með nokkuð glæsilegum hætti hve einstæðar minjar um gríðarleg hamfarahlaup tengjast Jökulsá á Fjöllum og sennilega er ekkert sem hefur nokkru sinni í sögu landsins náð að móta landslag með jafnstórbrotnum hætti og á jafnskömmum tíma og einmitt hamfarahlaupin sem hafa runnið um farvegi hennar og skapað gersemar sem draga fjölda erlendra ferðamanna hingað til lands, einungis til að skoða þau.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, reyndar eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, rakti dæmi um það að enn væru uppi á borðum einhvers konar teikn til þess að menn hygðust virkja Jökulsá á Fjöllum. Herra forseti. Þegar ég sat í ríkisstjórn með hv. þm. Halldóri Blöndal sem nú situr í forsetastóli komu slíkar vísbendingar fram með mjög afgerandi hætti frá Orkustofnun og undir þær tóku vissir ráðamenn sem töldu að það væri æskilegt og verjandi. Ég rifja upp, herra forseti, að sérstök skýrsla var lögð fram sem átti einmitt að sýna þjóðinni fram á þá virkjunarkosti sem væri að finna á því svæði sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir rakti áðan. Ég tók mjög afdráttarlausa afstöðu gegn því og hv. þm. Halldór Blöndal sömuleiðis. Þessar hugmyndir lutu að því að það ætti með einhverjum hætti að stýra rennsli Jökulsár á Fjöllum. Í reynd jafngilti þetta því að setja stórvirkan krana á Dettifoss.

Því rifja ég þetta upp, herra forseti, sem það liggur fyrir í nýlegu plaggi frá ríkisstjórn Íslands að það eru enn á borðum hennar æðstu embættismanna einhvers konar hugmyndir um virkjun Jökulsár á Fjöllum sem þarf að kveða í kútinn hið fyrsta. Ég er þá að vísa í fylgiskjal Orkustofnunar frá því í febrúar í fyrra sem var lagt fram í þessum sölum með frv. ríkisstjórnarinnar um virkjanaleyfi vegna Kárahnjúkavirkjunar. Í því fylgiskjali er vísað hvorki meira né minna en sjö sinnum til hugmynda um að virkja Jökulsá á Fjöllum. Það er þess vegna alveg borðleggjandi, herra forseti, að víða blundar í hugskoti manna sem dreymir glæsta drauma um virkjanir að virkja Jökulsá á Fjöllum. Ég held að það sé þarft verk okkar sem höfum staðið í deilum um virkjanir við Kárahnjúka, þó að ég og þeir hv. flutningsmenn sem hér hafa talað gætu ekki orðið sammála um þá niðurstöðu, að ráðast hér í eins konar sáttargjörð um náttúruvernd á Íslandi. Ég tel að það sé ekkert eins vel fallið til þess að gera það með táknrænum hætti og að friða Jökulsá á Fjöllum. Ég held að með þeim hætti ynnum við mjög þakklátt verk fyrir komandi kynslóðir og ég held að við öll gætum lokið störfum í fyllingu tímans á hinum pólitíska vettvangi ef það væri eitt af þeim verkum sem við hefðum lagt gjörva hönd á.