Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 16:09:13 (1126)

2003-11-04 16:09:13# 130. lþ. 20.5 fundur 33. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið og ágæt skoðanaskipti. Ýmis áhugaverð sjónarmið hafa komið fram hjá þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni. Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi réttilega að þessi tillöguflutningur af okkar hálfu væri hluti af stefnumótun á sviði atvinnumála þar sem við höfum lagt fram áherslur okkar og það sem við teljum að þarft væri að gera á sviði nýsköpunar í atvinnumálum hér á landi. Það tekur útgangspunkt í því að fjölbreytnin sem slík sé verðmæti í sjálfu sér þegar kemur að atvinnuuppbyggingu og því fleiri og fjölbreyttari stoðir sem standi undir atvinnulífi einnar þjóðar, því betra. Það hefur verið við ramman reip að draga að ýmsu leyti hér á landi að koma þeim hlutum fram, menn hafa mikið rætt um einhæfni íslensks atvinnulífs og lengi var rætt um sjávarútveginn þannig að það væri eitt mesta keppikeflið í atvinnusköpun í landinu að draga úr því mikla vægi sem hann hefði. En menn hafa þá ekki meira lært af því en svo að það sem menn ætla að gera er að skipta honum út fyrir ál, og ef svo heldur sem horfir tekur þessi eini málmur og verðsveiflur á honum á heimsmarkaði að leika svipað eða stærra hlutverk í hagkerfi landsins en þorskurinn gerði hér í eina tíð. Þannig stefnir t.d. í að 80% af raforkumarkaði landsins taki tekjur sínar inn í gegnum tengingu við heimsmarkaðsverð á áli. Menn geta velt fyrir sér hversu gæfulegt það í sjálfu sér er að ofurselja allan orkumarkaðinn undir það að deila kjörum með gengi þessa eina frumefnis á heimsmarkaði.

Fjölbreytnin skiptir sem sagt sköpum, fjölbreytnin sem byggir á því að virkja mannauð og þekkingu, hlúa að nýsköpun og nýgræðingi á þessum akri og átta sig á þeim einföldu og fornu sannindum að margt smátt gerir eitt stórt, virða þá staðreynd sem hv. þm. Einar Karl Haraldsson nefndi einnig að hlutirnir gerast sérstaklega í fjölbreyttri flóru minni fyrirtækja í örum vexti þar sem ný störf bætast við, eins og ég reyndar nefndi í framsögu minni.

Grunnþjónustan sem samfélagið veitir er hluti af þeirri umgjörð sem atvinnulífið býr við. Ein veigamesta skylda stjórnvalda er að búa atvinnulífinu hagstæð skilyrði, ekki bara í skattalegu tilliti eins og frjálshyggjumenn og hægri menn, hvar í flokki sem þeir eru, virðast halda, heldur hagstæð skilyrði að öllu leyti. Það snýr líka að því að það séu góðir skólar, góð félagsþjónusta og samfélagslegt öryggi í þeim byggðarlögum þar sem menn eru að velta fyrir sér að setja niður atvinnurekstur. Danir gætu kennt okkur Íslendingum mjög margt í þessum efnum þar sem stórfyrirtækin velja iðulega að setja niður nýja starfsemi eða deildir fjarri helstu þéttbýlisstöðunum en í hagstæðu umhverfi þar sem vinnumarkaður er stöðugur og þar sem vel er búið að starfsmönnum. Þetta geta menn t.d. séð ef þeir skoða hvar uppbygging margra danskra stórfyrirtækja, eins og Bang & Olufsen eða slíkra, hefur ekki síst átt sér stað síðustu árin. Menn rekast allt í einu á verksmiðjur þeirra í litlum þorpum á Jótlandi, og af hverju? Jú, af því að þar er búið að skapa þessi hagstæðu skilyrði, þessi góðu samfélagslegu skilyrði sem auðvitað byggja einnig á góðum samgöngum og fjarskiptum og öðru slíku.

Við héldum, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi, ráðstefnu eða reyndar nýsköpunarþing og þessi tillaga er að hluta til sprottin upp úr vinnu þar og í aðdraganda þess. Það var ákaflega gaman að leiða saman þá aðila sem sýsla sérstaklega með nýsköpun, uppfinningar og frumkvæði í atvinnulífi í landinu, aðila eins og formann Félags uppfinningarmanna, þrjár eða fjórar konur sem allar hafa náð miklum árangri í fyrirtækjum sínum, ýmist á sviði ferðaþjónustu, lyfjaframleiðslu, kaffigerðar eða enn annars, og helstu sérfræðinga stofnana á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar eins og Iðntæknistofnunar, hönnunar- og rannsóknarstjóra eða tækni- og rannsóknarstjóra framsækinna fyrirtækja eins og Össurar hf. o.s.frv. Þegar öll sú flóra er skoðuð er vissulega margt til að gleðjast við sem vel hefur gengið í íslensku atvinnulífi.

En við vorum líka með á þessari ráðstefnu fulltrúa þeirra sem gengið hafa svipugöngin á enda, fórnað sjálfum sér og eignum sínum í það eitt að koma hugmyndum sínum fram í veruleikann og gera þær að verðmætum, koma framleiðslustarfseminni af stað. Þar má nefna jafnsláandi dæmi og slökkvibílaframleiðslu í Ólafsfirði sem hefur kostað frumkvöðlana sem þar eiga í hlut nánast allt sitt. Þeir þurftu að ganga svipugöngin á enda, eins og ég segi, yfirstíga alla þröskuldana og þegar það var loks allt að baki og framleiðslan orðin til, farin að seljast, var loksins hægt að fá áheyrn nýsköpunarsjóðanna og fjármögnunaraðilanna. Er það þannig sem við viljum hafa þetta? Við teljum ekki. Við teljum að það þurfi að vera hagstæðara umhverfi fyrir frumkvöðla og nýsköpun í atvinnulífinu.

[16:15]

Það var athyglisvert sem hv. 10. þm. Norðvest., Sigurjón Þórðarson, nefndi hér og dregur athyglina að þeirri staðreynd að smæð hins íslenska samfélags felur í sér ýmsa erfiðleika og ýmsar hættur þegar kemur t.d. að því að úthluta styrkjum, meta umsóknir og afgreiða mál. Er það t.d. heppilegt að þau mál séu í þeim farvegi sem hv. þm. nefndi, að í stjórnum sjóða eða úthlutunarnefndum sitji ráðandi aðilar sem fyrir eru í greininni og véli um það hvort einhverjum nýjum hugmyndum eigi að veita brautargengi? Vandinn er sá að þetta eru um leið þeir aðilar sem mesta þekkingu hafa á viðkomandi sviði í landinu. Við erum kannski þar með seld undir það að verða að velja og hafna milli þeirra kosta að kalla til við slíkar aðstæður mennina sem búa yfir sérþekkingunni, sem er oft fámennur hópur, eða hins að reyna að velja leið sem er óháðari hagsmunum sem fyrir eru í greininni.

Þarna er að sjálfsögðu engin einhlít formúla til og verður að ætla mönnum að reyna að kunna fótum sínum forráð í þessum efnum. Því er ekki að leyna að oft verður maður var við að það ríkir tortryggni hjá þeim sem eru með áhugaverðar hugmyndir, viðskiptahugmyndir eða framleiðsluhugmyndir í höndunum, í garð þess kerfis sem við tekur ef þeir sýna spilin og leggja fram umsóknir um styrki eða fjárveitingar.

Hv. þm. Einar Karl Haraldsson nefndi hér flokkun fyrirtækjanna. Ég kom lítillega inn á það í framsöguræðu minni en fór mjög hratt yfir sögu. Það er alveg hárrétt að hinar evrópsku flokkunarreglur taka auðvitað mið af öðrum veruleika, öðrum stærðum en okkur eru tamar. En það eru engu að síður þær sem í sjálfu sér gilda hér. Þær hafa verið teknar upp með afgreiðslu þál. á Alþingi sl. vetur og fylgiskjölum þeirrar þáltill., þ.e. viðauka og fylgiskjali, hefur þar með verið veitt tiltekin lagastoð. Í öllu falli er ljóst að þær gilda í því samhengi, hvað varðar heimildir okkar og möguleika til að styðja við bakið á fyrirtækjum á grundvelli þessarar skilgreiningar. Samkvæmt íslenskri málvenju er það hins vegar alveg ljóst að fyrirtæki með upp undir 250 starfsmenn er ekki í okkar huga bara meðalstórt fyrirtæki, heldur stórt. Ég nefndi það að kannski þarf að fara niður undir 50. sæti á listanum yfir stærstu fyrirtæki landsins til að finna fyrirtæki sem fara upp úr þessari viðmiðun, hvað varðar annaðhvort starfsmannaumfang eða veltu á efnahagsreikningi.

Við getum vel unnið þannig með þetta að við höfum okkar stærðarhlutföll og okkar aðstæður í huga þegar við erum að vinna með þetta samkvæmt íslenskri málvenju. Lagalega gilda engu að síður hinar evrópsku skilgreiningar. Það er að vísu svo að Íslendingar þurfa náttúrlega að huga að ýmsu. Þar á meðal því að það er ekki endilega víst að það séu sérstök gleðitíðindi og viti á mikla grósku í nýsköpun í atvinnulífi þó hér hafi fjölgað einkahlutafélögum. Það á sér aðrar og kannski miklu minna jákvæðar skýringar að verulegu leyti. Það er einfaldlega staðreynd að það er búið að búa út það skattaumhverfi á Íslandi að það er ákaflega hagstætt fyrir einstaklinga að stofna einkahlutafélög utan um sjálfan sig og þarf ekki að vera í sjálfu sér umfangsmikil starfsemi þar á ferð. Það er hins vegar hlutur sem ég held að menn verði að reyna að leysa og taka á á þeim vettvangi og dregur athyglina að því hversu óheppilegt er að það sé annars vegar mjög langt bil á milli þeirra skattreglna sem gilda um einstaklinginn og launatekjur og hins vegar skattlagningu hagnaðar sem til fellur í atvinnulífinu. Það er nú sjálfsagt önnur saga.

Herra forseti. Ég held að ég sé ekki að orðlengja þetta, enda veit ég að menn bíða mjög spenntir eftir því að næstu mál á dagskrá komist til umræðu og ætla ekki að teygja lopann meira.

Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu og vona að þetta mál fái sanngjarna umfjöllun í þingnefnd, þó mér sé alveg ljóst að meiri hlutinn, ríkisstjórnin, telur það sjálfsagt ekki sérstaklega í sínum verkahring að afgreiða stefnumótandi tillögur af þessu tagi frá stjórnarandstöðunni. Þá skyldi það nú samt ekki vera að sú málafylgja sem hér hefur verið höfð uppi og endurtekið flutt á Alþingi hafi þó haft sín áhrif, a.m.k. hafa hugtök og skilgreiningar sem fyrst litu dagsins ljós á prenti á íslenskri tungu í þessari tillögu ratað býsna víða síðan hún var fyrst lögð fram.