Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:31:28 (1147)

2003-11-04 17:31:28# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:31]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hafa ýmis orð verið látin falla um það þingmál sem við ræðum hér, þáltill. á þskj. 154. Ég get í sjálfu sér tekið undir þau orð sem hv. ræðumenn hafa haft á undan mér um það að tillagan er afar undarleg og ekki eins og maður á að venjast um tillögur. Mér finnst líka rétt að taka undir það sem sagt hefur verið varðandi það að við séum fallin á tíma þetta haustið. Tillagan er of seint fram komin og við erum að ræða hana of seint á þessu hausti. Ég verð að segja að það er leitt til þess að vita að svo skuli þurfa að vera, því auðvitað höfum við haft fulla ástæðu til að ræða þessi mál af mikilli alvöru miklu, miklu fyrr. Er ég þá að vitna til orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem rakti hér áðan hvernig hann hefur þráfaldlega reynt að fá að taka þessi mál á dagskrá í tíma undangengin tvö ár, þ.e. hálft síðasta kjörtímabil, og það gekk ekki. Þess vegna erum við nú í þeirri stöðu sem við erum í dag.

Enn eina ferðina stöndum við hér, þingheimur, að takast á um vernd annars vegar og nýtingu hins vegar. Það er orðið æðioft, virðulegi forseti, sem í þessum sal er tekist á um verndarsjónarmið annars vegar og nýtingarsjónarmið hins vegar. Í þetta sinn er það ekki hálendi Íslands eða orka fallvatnanna sem er undir, það er ekki íslenski laxastofninn, það eru ekki íslensku fiskstofnarnir almennt, heldur er það rjúpan sem er friðuð á Íslandi, en ráðherra hefur verið heimilt að aflétta friðuninni tiltekinn tíma á hverju hausti. Það hefur verið gert á tímabilinu frá 15. okt. til 22. des. Sem sagt fuglinn er friðaður vegna þess að við höfum viðurkennt það í gegnum tíðina að hann þurfi verndar við.

Nú höfum við öll fengið, kannski sérstaklega það fólk sem setið hefur í umhvn. þingsins, upplýsingar frá vísindamönnum um ástand stofnsins og höfum getað kynnt okkur það afar vel. Og ég verð að segja að umhvn. síðasta kjörtímabils fjallaði um þetta mál á afar yfirgripsmikinn hátt, tók í það tíma og vann það af alvöru. Ég hef sjálf lýst því yfir á heimasíðu minni að ég fagni þessari ákvörðun hæstv. ráðherra að hún skuli hafa tekið af skarið með þessa deilu og friðað rjúpuna. Ég fagna því líka hversu hæstv. ráðherra er fylginn sér í þessu máli núna, þó svo að ég hafi gagnrýnt hana fyrr í sumar og í haust þegar málið var að fara af stað, þegar hún hálfpartinn stillti umhvn. upp sem einhverjum blóraböggli í þessu máli, þar sem hún hélt því fram að umhvn. hefði hafnað tillögu hennar um sölubann og talaði þá eins og hún væri mikill stuðningsmaður hagsmunaaðila í þessu máli, þ.e. rjúpnaveiðimannanna, sem gerðu háværar kröfur um sölubann. Hæstv. umhvrh. sagði í fjölmiðlum um málið síðsumars að það hafi verið sér mikil vonbrigði að umhvn. skyldi hafa hafnað sölubanninu.

Ég vil halda því fram, virðulegi forseti, að tillaga hæstv. ráðherra í fyrra hafi verið algjör bastarður, hún hafi verið hálfstigið skref og sjálfgert fyrir umhvn. að hafna henni, því að tillögur Náttúrufræðistofnunar, sem voru hvatningin á bak við tillögu ráðherrans, gengu út á miklu meira heldur en einhliða sölubann. Þær tillögur sem Náttúrufræðistofnun lagði til gengu út á sölubann, innflutningsbann, bann við kaupum og sölu og bann við því að gefa og þiggja rjúpu. Þar var tillaga sem gekk mjög langt. En um þessa tillögu fékk umhvn. ekki að fjalla á síðasta ári, eingöngu einn lítinn þátt hennar, þ.e. sölubannið.

Hvað gerði umhvn.? Hún hafnaði því. Á hvaða forsendu? Á þeirri forsendu að það mundi aldrei halda. Okkur yrði ekki stætt á því að ná til t.d. veitingahúsa eða þess hvort væri verið að selja innfluttar rjúpur yfir höfuð eða rjúpur sem einhver hefði gefið einhverjum. Það var því algerlega skýrt í nál. umhvn. frá síðasta ári, sem birtist á þskj. 1185 í 404. máli, að nefndin taldi tillögu hæstv. ráðherra um sölubannið, einhliða sölubann, vonda og alls ekki halda. Það mundi bjóða upp á svartamarkaðsbrask á rjúpum og væri sem sé ekki til þess fallið að ná utan um vernd rjúpnastofnsins.

Nefndin lagði þá til að það yrði leitað annarra leiða. Hvaða leiða? Það var talað um að stytta veiðitímann, það kemur fram í nál. Það var líka talað um það í nál. að það yrði að herða eftirlit með t.d. notkun hunda og fjölskota skotvopna, og við töluðum um það í nefndinni að það þyrfti að herða eftirlit með vélknúnum ökutækjum og að reglur varðandi þau væru haldnar. Nú vitum við öll að við höfum ekki haft nægilegt bolmagn til að sinna þessu eftirliti og menn hafa farið á skjön við þær reglur sem hafa verið settar.

En nú vil ég gera þá játningu hér, af því að við töluðum um það í nál. í fyrra, nefndarmenn umhvn., að það væru ákvæði í lögum sem bönnuðu notkun hunda. Við þingmenn höfum fengið skammir frá hundaeigendum fyrir það að hafa ekki skilið eða ekki vitað um það hvað það felur í sér að veiða með hundum. Ég finn mig knúna til að segja frá því hér að ég fór í ferð með veiðimönnum sem sýndu mér notkun veiðihunda við veiðar og ég verð að segja það að ég varð bara mjög impóneruð af því sem þar var á ferðinni, þ.e. þjálfaðir veiðihundar haga sér allt öðruvísi við veiðar heldur en við töldum sem ræddum málið í umhvn. í fyrravetur.

Þetta segi ég til marks um það að það eru margir þættir í þessu máli sem ég tel að þingmenn og umhvn. geti kynnt sér mjög vel. Og ég vil þakka fyrir og fagna því að við skulum núna fá tíma til þess að vinna áfram í málinu. Það eru nefndir að fara af stað, eins og hæstv. ráðherra hefur getið um, og ég tel að við höfum svigrúm og tíma til þess að ná áttum, komast að því hvernig við förum best að til þess að tryggja vernd rjúpnastofnsins til frambúðar.

Ég er ekki talsmaður þess að við gerum það með því að drepa allan mink eða allan ref. Ég tel að við séum á hálum ís þegar við tölum um þessa jafnvægislist eins og við höfum lent í í sambandi við þorskinn. Það mætti halda að sumir teldu að við gætum aftur farið að veiða 400 þús. tonn af þorski á ári ef við bara drepum nógu mikið af hval. Ég held því að við séum oft á yfirborðslegum nótum þegar við fjöllum um jafnvægið í lífríkinu. En ég tel okkur hafa tækifæri til þess að fara vel ofan í saumana á málinu og að hér séu komnar upplýsingar sem nefndarmenn geta áfram moðað úr og tel að við eigum eftir að finna lausn sem rjúpan í öllu falli getur unað vel við.