Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:42:55 (1150)

2003-11-04 17:42:55# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:42]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Frú forseti. Það er alla vega alveg ljóst að það var engin ástæða til að grípa til neinna aðgerða 2001. Það komu aldrei neinar tillögur fram um það. Samkvæmt mati sérfræðinga þurfti þess ekki. En þeir komu fram með tillögur í fyrra þannig að þá fer öll umræðan í gang.

Það kom líka fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að umhvn. hefði skoðað sölubannið í fyrra og það er alveg rétt. Ef umhvn. hefði talið það nauðsynlegt til að sölubannið virkaði að setja líka á innflutningsbann í leiðinni hefði nefndin alveg getað flutt það. En hún hafði bara enga sérstaka trú á þessu sölubanni enda hafnaði hún því. Nefndin hefði auðvitað getað flutt slíkt mál hefði hún náð samstöðu um það.

Okkur ber alltaf að sama brunni, það þarf að setja lög til að koma á sölubanni, og maður skilur ekkert í því núna að flutningsmenn þessarar þáltill. skuli, eins og hér var orðað svo ágætlega af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, koma með alla þessa böggla og leggja þetta allt í hendurnar á ráðherra sem hefur svo engin úrræði til þess að framfylgja þessu, (Gripið fram í.) ekki tveimur af meginatriðum tillögunnar, þ.e. sölubanni og veiðikvóta. Þá þarf að breyta lögum. (Gripið fram í: Í skjóli Vinstri grænna.) Það er því alveg rétt sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur haldið hér fram að þetta er staðan.

En ég fagna líka þeim málflutningi sem Samfylkingin hefur flutt hér og dregið fram að þetta er auðvitað mjög ankannaleg tillaga þar sem það eru 17 stjórnarþingmenn sem fara hér fremstir í broddi fylkingar við að reyna að hnekkja nýtekinni ákvörðun ráðherra. Þetta er auðvitað mjög sérstakt.