Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 17:39:31 (1373)

2003-11-06 17:39:31# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÁF
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. 1. þm. Reykv. n., Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samf., og fagna þessari tillögu. Þannig vill til að ég þekki ágætlega til bæði á Balkanskaga og í Eystrasaltslöndunum, hef kynnst þar fólki og ég veit hvaða hug það ber til þessa samstarfs. Á þeim svæðum búa þjóðir þar sem ekki ein einasta kynslóð hefur kynnst friði og í dag búa þarna einstaklingar, eldri kynslóðir sem í 50 ár kynntust kúgun og einræði. Þær þjóðir telja sér best borgið í þessum félagsskap, sem telja að öryggi sínu sé best borgið með aðild að NATO og ég fyrir mitt leyti er stoltur af því að tilheyra þeim félagsskap sem getur veitt borgurum þeirrar álfu öryggi.

Ég held að með þeirri þróun sem við horfum upp á núna innan NATO séu að verða ákveðin straumhvörf. NATO er orðið stærsti samstarfsvettvangur Evrópuríkja. NATO-vægi Evrópu vex sífellt meira í slíkum félagsskap og ég held að kannski kunni að koma að því að Íslendingar þurfi að gera jafnvel upp hug sinn þegar skilja í milli hagsmunir Evrópuríkja og annars okkar ágætu granna í vestri. En það er ekki umræðuefni dagsins í dag. Það gæti hins vegar orðið eitt af þeim viðfangsefnum sem bíður okkar á næstu árum, þ.e. að taka afstöðu til þess með hvaða hætti við Íslendingar teljum öryggishagsmunum okkar best borgið.

Virðulegi forseti. Ég styð eindregið tillöguna og ég fagna henni.