Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 18:02:38 (1377)

2003-11-06 18:02:38# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[18:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að það hafa orðið breytingar á Atlantshafsbandalaginu, sérstaklega eftir 11. september 2001. Það urðu mikil kaflaskipti í heiminum við þá hræðilegu árás. Þá gerðu þjóðir heims sér grein fyrir því að þær yrðu að standa saman í baráttunni gegn hryðjuverkum í heiminum. Í framhaldi af því var samþykkt innan Atlantshafsbandalagsins, og mig minnir að það hafi sérstaklega komið fram á fundinum í Reykjavík, að NATO gæti og ætti að beita sér utan þeirra landa sem eru aðilar, jafnvel utan Evrópu. Það voru mikil tímamót, það er alveg rétt. En það er ekki bara Atlantshafsbandalagið sem telur að taka þurfi upp þessa stefnu, það eru fjölmargar aðrar þjóðir í heiminum sem sameinuðust um baráttuna gegn hryðjuverkum og Atlantshafsbandalagið hefur verið mjög leiðandi í þeirri umræðu allri.

Það eru fyrirbyggjandi aðgerðir að uppræta hryðjuverkastarfsemi, það er alveg rétt. En ríki Atlantshafsbandalagsins hafa ekki séð aðra leið til þess að berjast við ógnina sem stafar að allri heimsbyggðinni en með þessum hætti. Þá segir hv. þm.: Er ekki hættulegt fyrir okkur að taka þátt í því? Gæti það ekki skapað hryðjuverk á Íslandi að við tökum þátt í því? Auðvitað stafar okkur hætta af þessari ógn eins og öðrum þjóðum og okkur ber að taka þátt í þeirri sameiginlegu baráttu. Ef allir hugsuðu þannig: Gæti það ekki skapað hættu fyrir mig að taka þátt í baráttunni gegn sameiginlegri ógn, hvernig færi þá? Getum við Íslendingar undanskilið okkur slíkri ábyrgð?