Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:16:17 (1472)

2003-11-11 15:16:17# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert leyndarmál að hv. þm. Pétur Blöndal er mikill frjálshyggjumaður. En ég segi alveg eins og er að mér finnst fulllangt gengið þegar hv. þm. kemur hér og nánast segir að ástand fiskstofna við landið sé eins bágborið og raun ber vitni sökum þess að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar séu opinberir starfsmenn, með opinbera skoðun, og vitnar til Sovétríkjanna í þeim efnum. Mér finnst þetta ansi langt gengið verð ég að segja. Það hvarflar t.d. ekki að hv. þm. Pétri Blöndal að veiðiaðferðirnar, umgengnin á miðunum eða slíkir hlutir kunni að vera þarna að verki einnig. Mér finnst þetta ansi hvimleiður siður sem hér hefur færst í vöxt á undanförnum missirum og kemur sérstaklega úr herbúðum ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna að reyna að hengja vísindamenn í þjóðfélaginu upp hist og her eins og ekkert sé að því að fullyrða þar að þeir gangi fyrir annaðhvort persónulegum pólitískum skoðunum eða stjórnist algerlega af því hver er vinnuveitandi þeirra. Ég leyfi mér að kalla þetta róg um íslenska vísindamenn og ég mótmæli því.