Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:49:33 (1480)

2003-11-11 15:49:33# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta eiginlega hálffurðuleg umræða. Ég sat í fjárln. nærri tvö kjörtímabil, hef verið á þingi í rúmlega 12 ár og ráðherra í rúmlega fjögur ár. Það er talað um að skera niður tillögur stofnana, gert úr því eitthvert mál eins og ég sé ljóti karlinn og sagt að ég vilji ekki gera allt sem Hafrannsóknastofnun leggur til. Það er bara ekki þannig sem við vinnum að þessu. Við förum í gegnum ýmsar hugmyndir með okkar stofnunum og einnig ræðum við hugmyndir við fjmrn. Síðan kemur niðurstaða í fjárlagafrv. sem er frv. ríkisstjórnarinnar og við stöndum að því heils hugar. Það er ekkert um það að ræða að einn eða neinn hafi skorið niður einhverjar tillögur. Við vinnum bara ekki svona í þessu. Ég held þetta sé ekki mjög gagnlegt, hvorki fyrir umræðuna hér né úti í þjóðfélaginu, né þá hugsun sem við þurfum að hafa í fjárlagavinnunni þegar við erum að hugsa um ríkisfjármálin.

Ég tók eftir því að hv. þm. nefndi að sjútvrn. hefði til ráðstöfunar um það bil 3 milljarða. Það eru út af fyrir sig ekki miklir peningar. Hann nefndi 300 millj. hjá Hafrannsóknastofnuninni sem er nú ekki tala sem er mér föst í minni. Hann nefndi síðan að Fiskistofa hefði komið með einhverjar tillögur. Það voru eitthvað á annað hundrað milljónir sem hann nefndi. Hvernig halda menn að fjárlagafrv. væri ef allar svona tölur sem nefndar hafa verið væru í frv.? Hvernig halda menn að ríkisfjármálin stæðu þá?