Umferðarlög

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 16:50:13 (1500)

2003-11-11 16:50:13# 130. lþ. 24.13 fundur 134. mál: #A umferðarlög# (hægri beygja á móti rauðu ljósi) frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[16:50]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Þetta er athyglisvert hraðnámskeið í kanadískri umferðarmenningu sem við hv. þingmenn verðum aðnjótandi. Ég verð að byrja á að segja að sá hv. þm. sem hér stendur hefur inngrónar efasemdir í hjarta sínu um að hafa liðkað sérstaklega fyrir hægri beygjum í ýmissi merkingu þess.

Mér finnst hins vegar af máli frummælenda og tillöguflytjenda nokkuð óljóst hvert verið er að fara, því með einhverjum hætti er það á máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar að skilja að stundum eigi að leyfa mönnum að beygja til hægri á rauðu ljósi og stundum ekki. Ég hefði haldið að svo óljósar reglur væru nokkuð hættulegar í umferðinni. Ég hefði líka haldið að við hefðum það lengi búið við annað skipulag að ein og sér skiptin á skipulagi feli hættu í sér og þessi litla saklausa hægri beygja þegar lítil umferð er, t.d. að næturlagi, reynist einfaldlega, hv. þm. Hjálmar Árnason, ekki einföld og saklaus í sumum tilfellum.

(Forseti (JóhS): Beina orðum sínum til forseta en ekki til einstakra þingmanna.)

Þess vegna, virðulegur forseti, kjósa menn að hafa ljós á gatnamótum jafnvel þegar umferð er orðin minni en að deginum, vegna þess að við litla umferð og þegar hætta virðist vera lítil á stofnbrautunum þar sem umferðarhraði er mikill, við þær aðstæður verða alvarlegustu slysin. Þar verða dauðaslysin og þar verða örkumlin.

Ég er þess vegna, virðulegur forseti, þeirrar almennu skoðunar að við eigum að eftirláta sérfræðingum í umferðaröryggismálum tillöguflutning um tæknileg atriði er varða umferðaröryggi eins og hér um ræðir, vegna þess að ekki er um nein léttúðarmál að ræða, um er að ræða mál sem geta varðað líf og heilsu fólks. Hér er verið að fjalla um það hvort út frá hagkvæmnissjónarmiðum og kannski fyrst og fremst arðsemissjónarmiðum eigi að fórna umferðaröryggi að ákveðnu marki og það mun, virðulegur forseti, fullyrði ég, óhjákvæmilega bitna á heilsu og jafnvel lífi fólks. Það er áhætta sem við í þingsalnum getum ekki verið að giska á og haldið að það megi nú kannski leyfa þetta eða hitt. Við hljótum í því efni að leita til sérfræðinga okkar í umferðaröryggismálum og spyrja þá hvert þeirra faglega álit sé og hver reynsla þeirra héðan og annars staðar af svipuðum eða sambærilegum aðgerðum sé og leita eftir ráðleggingum þeirra í því efni.

Ef ég hef skilið það mál sem hér er uppi rétt, þá hafa sérfræðingar í umferðaröryggismálum eindregið lagst gegn þeirri breytingu sem hér er lögð fram og ég vona þess vegna, virðulegur forseti, að hv. þm. Hjálmari Árnasyni takist ekki að láta dropa sinn hola þennan stein.