Aðgerðir gegn einelti

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:13:04 (2169)

2003-11-26 15:13:04# 130. lþ. 35.1 fundur 320. mál: #A aðgerðir gegn einelti# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GÖg
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Frú forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. skýr og glögg svör og ýmsar ábendingar. Það er nokkuð sem við ættum að velta fyrir okkur í þinginu, þ.e. hvort gera eigi breytingar á vinnulöggjöfinni. Það er afar brýnt starf sem Vinnueftirlitið sinnir. Ég veit að þeir fá mikið af þessum málum til viðbótar við þau sem fyrir eru.

Með tilkomu Regnbogabarna var í rauninni afhjúpað leyndarmál sem þagað hafði verið yfir í skólum frá því að við öll sem hér erum inni vorum börn. Þá var ekki mikið um það talað og börn grétu í hornum og það gæti hafa verið ég eða einhver annar hér inni. Ég tel mjög brýnt að vakningin nái til allra sveitarfélaganna og sé ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk félmrh. í því er afar stórt þar sem sveitarfélögin heyra undir hann.

Það er gott að heyra að auka eigi fjármagnið til Regnbogabarna en við þurfum að sjá til þess að starfið geti farið fram á um fjórum stöðum á landinu svo það nái til allra landshluta og við getum kortlagt vandann örlítið betur.

Það er líka mikilvægt, og ég vil beina því til hæstv. menntmrh., að gerðar verði ítarlegri kannanir á einelti og settir í það ákveðnir peningar. Þeim þætti mætti fylgja eftir með annarri fyrirspurn eða beiðni um skýrslu þar að lútandi. Greinilegt er að mjög gott starf er unnið á mörgum stöðum en það er afar mikilvægt að sérfræðingar sem til þekkja og hafa unnið grasrótarvinnuna og afhjúpað vandann verði áfram styrktir til góðra starfa.