Sjálfstæði Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 10:42:51 (2201)

2003-11-27 10:42:51# 130. lþ. 36.91 fundur 186#B sjálfstæði Ríkisútvarpsins# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[10:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Það er afar sérkennilegt þegar menn eru sakaðir um að þegja þegar ekki er komin röðin að þeim að fá orðið í ræðustól. Hér er mælendaskrá. Er ekki hv. þm., sem talar um að menn sitji hér og þegi, varaforseti í þinginu? Veit hann ekki hvernig það gengur fyrir sig þegar menn biðja um orðið?

Virðulegi forseti. Þessi umræða er mjög sérkennileg og af litlu tilefni, þykir mér. En menn spara ekki stóru orðin frekar en fyrri daginn. Varðhundar ríkisstjórnarinnar í útvarpsráði. Hverjir eru það? Eru það hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar sem Alþingi kýs til að sitja í útvarsráði? Hvers lags orðbragð er þetta? Og hvað á það að þýða að taka svona til máls í sal Alþingis af engu tilefni? Mér er ekki kunnugt um það að ríkisstjórnin, eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir sagði, hafi verið að segja mönnum fyrir verkum í útvarpsráði. Ég þekki það ekki. Ef það er einhver pottur brotinn innan Ríkisútvarpsins, sem vel má vera, þá hygg ég að þeir sem ráða þar ríkjum séu fullfærir um að leysa slík vandamál. En það er mjög athyglisvert að menn skuli sveifla hér orðum eins og ritskoðun, rógsherferð og öðru í viðtali í blaði, sem ég hef reyndar ekki lesið en heyrði hv. þm., málshefjanda, lesa hér upp. Mér finnst það mjög sérkennilegt ef einn starfsmaður Ríkisútvarpsins telur sig þess umkominn að fara með slík orð í fjölmiðlum út af ágreiningi sem kann að vera uppi innan dyra. Mér finnst það óviðeigandi en það er enn meira óviðeigandi að saka ríkisstjórnina um einhverja aðild eða atbeina að slíku eins og hérna hefur verið gert. Það leyfi ég mér að segja, virðulegi forseti.