Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 11:42:46 (2211)

2003-11-27 11:42:46# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[11:42]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Það frv. sem við ræðum hér snýst um skattahækkanir á almenning í landinu og það sem verra er, þessi skattlagning leggst misjafnlega á fólk eftir því hvar það býr á landinu. Á ég þá sérstaklega við þann hluta sem er í þessu frv. um hækkun þungaskatts sem mun leiða til hækkunar flutningsgjalda, sem auðvitað virkar langverst á íbúa landsbyggðarinnar og fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni. Þar að auki er í þessu frv. hækkun á bensíngjaldi um 600 millj. sem leiðir til allt að 20--25 þús. kr. hækkunar á rekstrarkostnaði bíls og er því skattahækkun á allan almenning í landinu sem á og rekur bíl. Ofan á þessar tölur, þessar 600 millj. í bensínskatt og 400 millj. í þungaskatt, leggst svo virðisaukaskattur sem áætlað er að geti verið einar 200 millj. þannig að samtals er talið að þessi skattheimta sé hér upp á 1.200 millj.

Virðulegi forseti. Ég ætla að skipta ræðu minni í tvennt, annars vegar um það sem snýr að þungaskatti og almennum lífsskilyrðum íbúa landsbyggðarinnar og hins vegar að bensíngjaldinu sem virkar náttúrlega á höfuðborgarbúa jafnt sem landsbyggðarbúa í þessum auknu útgjöldum sem ég hef hér getið um.

Það er svo, virðulegi forseti, að hér hefur margoft verið rætt um þetta af þeim sem hér stendur, um flutningskostnað og skattálögur á landsbyggðina, svokallaða landsbyggðarskatta, og ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn, sér í lagi kannski framsóknarráðherrar, hafa verið duglegir að ræða um það á tyllidögum og á kosningafundum að þetta sé orðið allt of hátt og það sé nauðsynlegt að lækka þetta en ekkert bólar á aðgerðum til lækkunar heldur birtast hér aðgerðir til hækkunar. Og ég trúi því ekki, virðulegi forseti, en ég vildi hafa sagt það strax hér, að ætlun ríkisstjórnarinnar sé að sækja 1.200 millj. kr. í ríkiskassann í sköttum af umferð til þess að nota einhvern hluta af því, 100--400 millj. eða jafnvel 500 millj. til að búa til jöfnunarsjóð flutningsgjalda eins og hæstv. iðnrh., ráðherra byggðamála, hefur stundum talað um og sagt að væri í bígerð og ætti eftir að leggja fyrir Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og fá stimplun á þá leið sem þar er. Ef svo er, þá er það alveg með ólíkindum að fyrst eigi að ganga fram í þessum skattahækkunum og hækka álögur á þá íbúa sem eiga svo að fá niðurgreiðslur eftir einhverju framsóknarkerfi þar á eftir. Það er alveg með ólíkindum.

[11:45]

Ég sagði áðan, virðulegi forseti, að ég ætlaði að fjalla um þungaskattinn, hækkun flutningsgjalda og áhrif þeirra á landsbyggðina. Hæstv. fjmrh. er meðal okkar í þingsal í dag og fylgist með máli sínu. Ég hef áður sagt að hann er þekktur fyrir það og mættu aðrir ráðherrar taka hann sér til fyrirmyndar hvað það varðar að fylgjast með sínum málum, hvort sem það er við 1. umr., 2. umr. eða 3. umr. Það er hið besta mál og til fyrirmyndar.

Ég hef áður vitnað til vefrits fjmrn. sem kom út 27. febrúar í aðdraganda kosninga. Þar var fjallað um byggðaþróun og hvort byggðaþróun væri að komast í jafnvægi. Með þeim greinaskrifum birtist mynd af Íslandi þar sem gefnar voru upp tölur, eftir hinum gömlu kjördæmum, sem sögðu hvort íbúum hafði fækkað þar eða fjölgað. Á þessu Íslandskorti má sjá íbúaþróun eftir landshlutum árin 1992--2002. Þar kemur m.a. fram að íbúum í Vestfjarðakjördæmi fækkaði um 18,1% á þessu tíu ára tímabili. Íbúum Norðurlandskjördæmis vestra fækkaði um 11,1%, íbúum Austurlandskjördæmis fækkaði um 10%, íbúum Norðurlandskjördæmis eystra fjölgaði reyndar um 0,3%, þ.e. það stóð nánast í stað. Sama má segja um Vesturlandskjördæmi. Íbúum Suðurlandskjördæmis fjölgaði um 3,9%, íbúum hins gamla Reykjaneskjördæmis fjölgaði um 8,4% og í Reykjavíkurkjördæmi fjölgaði íbúum um 18,4%.

Þetta er mjög gott kort eins og ég hef áður sagt. Fyrirsögn greinarinnar var ,,Er byggðaþróunin að komast í jafnvægi?`` Í greininni kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Undanfarin ár hefur verið mikill straumur fólks til höfuðborgarsvæðisins af landsbyggðinni. Stjórnvöld hafa viljað sporna við þessum miklu flutningum meðal annars vegna þess að þeir hafa í för með sér kostnað fyrir samfélagið, bæði ríki og viðkomandi sveitarfélög. Byggja þarf og reka samfélagsleg mannvirki í stað annarra sem eru vannýtt og þar sem fólki fækkar vex kostnaður á hvern íbúa við að veita opinbera þjónustu. Fólksfækkun hefur tilhneigingu til að verða að vítahring sem erfitt getur reynst að rjúfa. Á hinn bóginn er eðlilegt að fólk leitist við að búa við bestu lífsskilyrði sem kostur er á og það kann að leiða til ákvörðunar um að flytja sig um set.``

Það er til gamall og góður málsháttur sem er svohljóðandi, virðulegi forseti: ,,Bragð er að þá barnið finnur``. Það datt mér í hug er ég las þessa ágætu útlistun fjmrn. á byggðaþróun á árunum 1992--2002. Sem betur fer virðist sem örlítið sé að draga úr fólksflutningunum og það er vel. En ég las þetta upp, virðulegi forseti, vegna þess að fjmrn. telur það réttilega eðlilegt að fólk leitist við að búa við bestu lífsskilyrði. Þá spyr ég, virðulegi forseti: Er það frv. sem hæstv. fjmrh. hefur flutt fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar gert til að búa til betri lífsskilyrði íbúa landsbyggðarinnar? Eða er verið að búa til betri lífsskilyrði fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins og jafnframt íbúa landsbyggðarinnar sem geta, vilja eða neyðast til að flytjast til höfuðborgarsvæðisins?

Ég tel, virðulegi forseti, að frv. sem hér er til umræðu, sérstaklega þungaskattshækkunin, verði til að minnka samkeppnishæfni atvinnurekstrar á landsbyggðinni og muni draga þróttinn úr fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni og þar með fækka störfum þar. Í því sambandi nægir að vísa til gagna sem birst hafa í mörgum opinberum ritum, m.a. frá Samtökum atvinnulífsins. Á Akureyri var gerð könnun meðal forsvarsmanna atvinnufyrirtækja. Þar kom fram að sumir sem greiða óheyrilega há flutningsgjöld hugleiði að færa atvinnustarfsemi sína af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins til að spara sér hina miklu skattheimtu sem felst í flutningskostnaðinum.

Lífsskilyrðin á landsbyggðinni verða ekki bætt með þessu frv. sem hefur í för með sér hækkun. Þótt hún sé lítil, 2%, þá leggst hún ofan á geysimikla hækkun undanfarinna ára, allt frá 1998. Ég kem betur að því síðar, þ.e. 40% hækkun vegna greiðslu þungaskatts hjá þeim flutningsfyrirtækjum sem keyra lengstar leiðir. Það er engan veginn hægt að sjá, virðulegi forseti, að þetta frv. sé í takt við það sem sagt er á tyllidögum, sem sagt var fyrir kosningar af núverandi ríkisstjórnarflokkum og frambjóðendum þeirra. Ég kem kannski að því síðar.

Virðulegi forseti. Upp í huga minn kom grein sem ég klippti einu sinni úr Morgunblaðinu. Í henni var verið að lýsa ástandinu á landsbyggðinni í Noregi gagnvart höfuðborginni. Fyrirsögnin var ,,Uppreisn á landsbyggðinni``. Mig langar að lesa úr þessari grein, með leyfi forseta. Mér finnst að þó að þessi grein sé um ástandið í Noregi fyrir nokkrum árum --- ég man ekki hvenær þetta birtist í Morgunblaðinu, það skiptir ekki öllu máli --- fyrir tveimur eða þremur árum, þá sé margt í þessari frétt sem heimfæra mætti upp á Ísland. Hef ég nú lesturinn, með leyfi forseta:

,,Mikill kurr er á norsku landsbyggðinni um þessar mundir en fólki þar finnst sem Óslóarvaldið og peningahyggjan, sem það láti stjórnast af, hafi ekki lengur neinn skilning á því lífi, sem lifað er utan höfuðborgarsvæðisins.``

Nokkru síðar segir, með leyfi forseta:

,,Umkvörtunarefnin eru mörg, meðal annars, að miðstjórnarvaldið í Ósló sogi til sín fólk og fé á sama tíma og verið sé að fækka opinberum störfum úti á landi. Fjárhagur sveitarfélaganna fari versnandi en kröfurnar til þeirra aukist hins vegar stöðugt.

,,Ríkisstjórnin veður svo í peningum, að hún er með sérstaka menn á sínum snærum til að ávaxta auðinn. Samt berjast margir í bökkum úti á landsbyggðinni,`` segir Jan Moen í Syðri-Þrændalögum og bætir því við, að Noregur sé orðinn að eins konar ,,kauphallarsamfélagi``. ,,Þær byggðir, sem renta sig ekki nógu vel á þessum markaði, eru bara lagðar niður.````

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti, um ástandið á landsbyggðinni í Noregi fyrir nokkrum árum. Margt mætti taka úr þessari grein og gera úr því grein um ástandið á landsbyggðinni í dag þar sem orðinu ,,Óslóarvaldið`` yrði snúið yfir í ,,Reykjavíkurvaldið``. ,,Miðstjórnarvaldið í Ósló`` yrði ,,miðstjórnarvaldið í Reykjavík``. Það sem sagt er í greininni um kauphallarsamfélagið getur líka átt við um höfuðborgarsamfélagið á Íslandi sem verið er að byggja upp í dag. Svo má velta vöngum yfir því sem sagt er í lok fréttarinnar um ástandið í Noregi: ,,Þær byggðir sem renta sig ekki nógu vel á þessum markaði, eru bara lagðar niður.``

Við höfum sem betur fer, virðulegi forseti, ekki lagt niður neinar byggðir hér á landi en óneitanlega læðist að manni sá grunur það geti gerst hægt og sígandi. Aðgerðaleysi í byggðamálum og aukin skattheimta á landsbyggðarfólk og fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni gæti leitt til þess að það sem ég var að lesa í lok þessarar greinar gæti orðið staðreynd eftir 10--20 ár. Ég vona sannarlega að svo verði ekki.

Hæstv. núverandi ríkisstjórn, ásamt síðustu ríkisstjórnum, ber lagaleg skylda til að leggja fram þál. um stefnu í byggðamálum. Það hefur þessi ríkisstjórn gert eins og aðrar þar á undan. Þetta eru oft og tíðum fallegar og góðar ályktanir, uppfullar af ýmsum góðum hugmyndum og tillögum en því miður vantar upp á að þeim sé fylgt eftir og mörgu af því góða sem sett er á blað sé hrint í framkvæmd. Þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005 sem nú er í gildi var frekar snubbótt. Hún er hálf A4 síða. Hún er í fimm liðum. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið áætlunarinnar verði eftirfarandi:

a. Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.``

Og síðan í e-lið:

,,Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.``

Fallegt. Þetta eru góð markmið. En erum við að vinna okkur í þessa átt? Nei, því miður ekki í mjög mörgum atriðum. Sannarlega skal ekki dregið úr því sem vel hefur verið gert. Þar kemur fyrst upp í hugann stofnun Háskólans á Akureyri sem er sennilega ein best heppnaða byggðaaðgerð sem farið hefur verið í hin síðari ár. En svo koma ýmis smámál sem sitja á hakanum, svo maður tali ekki um það sem við erum að fjalla um hér, aukna skattheimtu á flutninga sem eru afar mikilvægir í atvinnurekstri í dag. Aðstæður hafa breyst mikið síðustu ár. Skipaflutningar hafa að miklu leyti dregist saman. Við þá er ekki notast eins mikið og áður fyrr. Við þurfum ekki að fara mjög mörg ár aftur í tímann til að rifja upp þegar íslenska ríkið rak Skipaútgerð ríkisins og greiddi talsvert háar fjárhæðir með henni. Það var auðvitað niðurgreiðsla á flutningskostnaði.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að sá sem hér stendur er ekki unnandi ríkisreksturs á flutningastarfsemi. Sá sem hér stendur grét ekkert að Skipaútgerð ríkisins skyldi lögð niður á sínum tíma. En ég harma að þeir peningar sem þá voru veittir af ríkinu til niðurgreiðslu á flutningastarfsemi skuli ekki hafa verið settir í sjóði til að koma til móts við það sem gerðist þar á eftir, hinar stórauknu álögur á flutningastarfsemi með hækkun þungaskatts og alls konar lögum og reglugerðum sem okkur var skylt að taka upp samkvæmt tilskipunum frá Evrópusambandinu, t.d. reglum um ökurita og aksturstíma bílstjóra. Auðvitað hefur þetta allt hækkað flutningsgjöld en þungaskatturinn hefur stórhækkað.

Til að hafa það alveg á hreinu þá stórhækkaði þungaskatturinn eftir þann úrskurð Samkeppnisstofnunar á sínum tíma að fella yrði afsláttargjald og hámarksgjald niður. Ef það hefur verið rétt hjá Samkeppnisstofnun, sem ég reyndar leyfi mér að efast um vegna þess að þar var fjallað um að ekki mætti mismuna, má þá mismuna íbúum landsins eftir því hvar þeir búa á landinu með því að láta suma greiða hærri skatta af flutningastarfsemi? Ég leyfi mér að efast um það.

[12:00]

En ég gagnrýni það auðvitað að í framhaldi af þessum úrskurði Samkeppnisstofnunar hafi hið háa Alþingi ekki gripið til aðgerða til þess að leiðrétta þetta á annan hátt vegna þess að það var sannarlega hægt. Þetta hefur svo haft það í för með sér að greiðsla þungaskatts hefur hækkað um 40--45% á flutningalest sem svo er kölluð, þ.e. flutningabíl með tengivagn sem ekur um 140 þús. km á ári. Það er ekki mikill akstur ef miðað er við vegalengd milli þeirra staða þar sem hún er mest, t.d. frá Reykjavík og austur á land eða vestur á firði. Röksemdafærslan í frv. sem við erum að ræða, aðalrökstuðningur hæstv. ríkisstjórnar fyrir þessum hækkunum er í raun öfugmæli vegna þess að við sjáum það í öllum tölum að þungaskattur hefur skilað miklu meiri tekjum til ríkissjóðs en gert var ráð fyrir jafnvel og þungaskattstekjurnar hafa aukist mjög mikið. Því er ekki þörf á því að hækka þungaskattinn vegna vísitölubreytinga eins og hér er sagt vegna þess að þungaskatturinn hefur sífellt skilað meiru og meiru til ríkissjóðs eins og allar tölur staðfesta.

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost að sitja í efh.- og viðskn. þegar þetta frv. var rætt og var mjög athyglisvert að fylgjast þar með gestum okkar á þessum fundi. Þar kom m.a. fram mjög mikil gagnrýni á þá röksemdafærslu ríkisstjórnarinnar að nota vísitölu neysluverðs til þess að hækka þetta vegna þess að hún hefði hækkað, sögðu þeir, um 20,3% á þessu tímabili en gjaldið haldist óbreytt. Þá var m.a. mjög eftirtektarvert hvernig fjallað var um þennan lið í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um frv., þ.e. um röksemdafærsluna fyrir hækkuninni, röksemdafærsluna fyrir því að sækja meira í vasa almennings af bensínkostnaði og sækja meira í vasa þeirra sem þurfa að láta flytja til sín vöru, bæði neysluvöru og annað úti á landi. Ég ætla að lesa úr umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar þar sem fjallað er um þessa röksemdafærslu. Í umsögninni segir svo m.a., með leyfi forseta:

,,Eina röksemdin fyrir þeirri hækkun sem lögð er til í frumvarpinu er að gjaldskrá þungaskatts hafi ekki hækkað síðan 1. júlí 1999 og síðan hafi vísitala neysluverðs hækkað um 20,3%. Því sé orðið tímabært að hækka gjaldtökuna.

Það gleymist hins vegar að fjalla um það í frumvarpinu hverjar tekjur ríkissjóðs hafa verið af þessu gjaldi. Tekjur ríkissjóðs af þungaskatti árið 1999 voru kr. 4.050 milljónir en samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2004 er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af þungaskatti verði kr. 5.573 milljónir. Þetta er hækkun upp á tæp 37,6%. Sérstaka athygli vekur reyndar að tekjur ríkissjóðs af þungaskatti árið 1999 voru 550 milljónum meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi þess árs. Frá frumvarpi 1999 til frumvarps 2004 er hækkunin tæp 60%.``

Það er rétt að ítreka, virðulegi forseti, það sem sagt er hér, að tekjur ríkissjóðs af þungaskatti árið 1999 voru 550 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir í því fjárlagafrv. Þetta var fyrsta heila árið í greiðslu þungaskatts eftir breytinguna sem við höfum gert að umtalsefni þar sem skattheimtan er sögð vera 44%. Ef einhver efast um þær tölur þá getur hann það ekki lengur eftir að skýrt hefur verið frá því að 550 millj. kr. meira hafi komið inn fyrir þungaskatt árið 1999 en efnahagssérfræðingar þáverandi ríkisstjórnar gerðu ráð fyrir, 550 millj. kr.

Áfram með umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar, með leyfi forseta:

,,Á sama tíma er ætlað til framkvæmda hjá Vegagerðinni kr. 3.952 milljónir samkvæmt frumvarpi 2004 en árið 1999 var sambærileg tala 4.349 milljónir. Það þýðir að fjármagn til nýframkvæmda í vegamálum lækkar um 397 milljónir á meðan sá gjaldstofn sem renna á til þeirra mála hækkar um tæp 40%. Að vísu hafa heildarumsvif Vegagerðarinnar aukist úr 8.666 milljónum í 13.301 milljónir eða um 53% á þessum sama tíma en það skýrir ekki samdrátt í nýframkvæmdum.``

Rekstur og þjónusta Vegagerðarinnar hefur sannarlega aukist.

,,Þótt gjaldskrá þungaskatts hafi ekki hækkað þá hafa eins og að ofan er rakið, tekjur ríkissjóðs af honum stórhækkað. Ástæður þess eru margvíslegar, en nefna má eftirfarandi:

Í kjölfar úrskurðar Samkeppnisstofnunar voru allir afslættir afnumdir árið 1998 og leiddi það til verulegrar hækkunar hjá þeim rekstraraðilum sem aka á lengri leiðum.

Í kjölfar kæru þeirra sem aka með gjaldmæli var gerð sú breyting árið 1999 að fallið var frá því að hafa 25% viðbótarálag á þær bifreiðar en til að vega upp á móti þeirri tekjuminnkun var almenna gjaldskráin hækkuð um 20%. Tók sú hækkun auðvitað til þorra þungaskattsgreiðenda og jók tekjur ríkissjóðs um 700 milljónir.

Með breyttum áherslum í flutningamálum hefur umtalsverður hluti vöruflutninga færst frá sjóflutningum í bíla og hefur það aukið gjaldheimtuna verulega.

Almenn eign dísilbíla er algengari núna en fyrir nokkrum árum þannig að fjöldi þeirra hefur stóraukist og tekjur að sama skapi.``

Því skulum við líka halda til haga. Jeppaeign hefur t.d. aukist og þeim sem greiða fastagjaldið hefur að sjálfsögðu fjölgað.

Enn fremur er nokkuð í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar sem ég ætla að lesa þó að það fjalli um þátt sem ég ætla að nefna á á eftir, með leyfi forseta:

,,Samtökin vilja vekja sérstaka athygli á stöðu hópbifreiða á Íslandi sem hafa búið í mörg ár við stórfelldan taprekstur og mjög takmarkaða endurnýjun. Eigi að vera rekstrargrundvöllur fyrir hópbifreiðar verður að lækka skatta og gjöld af þessari atvinnustarfsemi frekar en að hækka álögur. Það samkeppnisumhverfi sem greinin býr við gerir fyrirtækjunum ókleift að varpa þessum hækkunum út í verðlagið en nú þegar eru hópbifreiðar í mjög mikilli samkeppni við einkabílinn og bílaleigubíla á skemmri leiðum og flug á lengri leiðum.``

Virðulegi forseti. Um leið og ég hverf frá umsögn um hópferðabifreiðar, skattheimtu á þær og auðvitað kostnað við rekstur fyrirtækja þeirra vegna þess að því miður er þetta líka of lítið notað og tekjur eru þess vegna ekkert allt of miklar, þá vil ég aðeins geta þess og taka sem dæmi að sú var tíðin að Flugfélag Íslands flug beint frá Reykjavík á Aðaldalsflugvöll. Síðasta árið sem var flogið voru farþegar í kringum 19 þúsund. Það var árið sem hin glæsilega áhaldageymsla var tekin í notkun. Síðan var þetta flug lagt niður af flugfélaginu og ekki var vilji fyrir því hjá hæstv. ríkisstjórn að niðurgreiða það flug eða auglýsa það flug eins og gert var með önnur flug. Þess í stað var flugferðum til Akureyrar fjölgað og Húsvíkingar og Þingeyingar fljúga þaðan að sjálfsögðu mikið. En lofað var að efla almenningssamgöngur milli Akureyrar og Húsavíkur sem ég held að hafi ekki verið fullkomlega staðið við, alla vega ekki styrki frá hinu opinbera í þessa sérleyfisleið. Þetta nefni ég vegna þess að það kostar 1.800 kr. aðra leiðina, að fara með rútu þessa 90 km frá Akureyri til Húsavíkur, 1.800 kr. þegar hægt er að fljúga á bestu fargjöldum fyrir að mig minnir 5.700 kr. Þetta er nægileg röksemdafærsla fyrir því að hópferðabifreiðar eru þegar skattlagðar nóg. Tekjustofn þeirra er lélegur. Við Íslendingar erum þekktir fyrir annað en nota þennan ferðamáta. Við keyrum frekar á tíu bílum ef tíu aðilar þurfa að fara á milli staða. Við notum okkar einkabíl. Engu að síður er vert að hafa þennan mikla kostnað í huga.

Undanfarin nokkur þing hef ég verið 1. flm. að till. til þál. um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Margir fleiri úr Samfylkingunni hafa verið flutningsmenn að þessari tillögu. Einu sinni var hún sérstaklega rædd á þingi og vísað til nefndar en kom að sjálfsögðu ekki þaðan frekar en ýmis önnur mál stjórnarandstæðinga. Þessi tillaga var um það að skipa nefnd sem átti kanna áhrif þungaskatts á vöruverð og hvaða áhrif breytingar undanfarinna ára á þungaskatti hafa haft á vöruverð á landsbyggðinni og líka áhrif þungaskatts á rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni og hvaða áhrif breytingar undanfarinna ára á þungaskatti hafa haft á rekstrarskilyrði þeirra. Þarna var lagt til að þetta yrði gert og skipuð á vegum ríkisstjórnar nefnd allra stjórnmálaflokka til að fara í þetta og reyna að skapa þverpólitíska samstöðu, skulum við segja, um að skoða þessi mál sem, eins og ég áður hef sagt, við stjórnarandstæðingar höfum verið að ræða og stjórnarsinnar, ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna í landsbyggðakjördæmunum, ræða á tyllidögum og hátíðarstundum. Þeir gætu meira að segja tekið upp á því að ræða það núna á væntanlegum aðventukvöldum. En ekkert bólar á neinum aðgerðum.

Í þessari tillögu minni var fullt af rökstuðningi gegn þessum svimandi háu flutningsgjöldum og skattheimtu ríkisins á flutningastarfsemi. Þarna birti ég m.a. verðkönnun sem ég gerði sjálfur á tíu vöruflokkum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Niðurstaða hennar var skuggaleg. Í þáltill. var líka sýnt fram á flutningskostnað, hver hann var í vöruverðsmynduninni. Þarna var innkaupsverð vörunnar skoðað og líka álagning kaupmannsins. Í stuttu máli, virðulegur forseti, var niðurstaðan sú að kaupmaðurinn er ekki orsakavaldur hás vöruverðs á landsbyggðinni. Álagning hans er mjög lítil, allt að því undarlega lítil stundum og margir kaupmenn eiga heiður skilinn fyrir baráttu sína við að halda opnum verslunum á mörgum stöðum á landsbyggðinni vegna þess að þeir eru ekki of sælir af framlegð sinni og álagningu. Varðandi flutningskostnað hins vegar þá gat hæstv. fjmrh., umsýslumaður fjármuna ríkisins, í þessu tilviki verið ánægður með sinn hlut út úr þessu vegna þess að hann fékk svo mikið. Við að flytja vöru út á land sem kostar 1.000 kr. í flutningi þá eru mjög miklar líkur á því, og margir hafa sýnt fram á það, að 45--50% af þeirri upphæð, 450--500 kall renni beint í ríkissjóð í formi þungaskatts, olíugjalds, gúmmígjalds, alls konar eftirlitsgjalda, virðisaukaskatts, gleymum honum ekki, o.s.frv.

[12:15]

Ofan á þetta leggst svo að sjálfsögðu virðisaukaskattur af flutningunum sjálfum. Virðisaukaskatturinn í búð kaupmannsins úti á landi kemur svo að sjálfsögðu síðastur eftir að flutningskostnaður og allt er komið inn. Því voru íbúar landsbyggðarinnar að borga margfalt hærri virðisaukaskatt af þessum vörum en íbúar á höfuðborgarsvæðinu.

Svo að ég taki rétt niður í þessari þáltill. þá kom m.a. fram, með leyfi forseta, í töflunni þar sem var fjallað um virðisaukaskattinn, þar sem sýnt var fram á hvað þeir sem borguðu lægst vöruverð greiddu í virðisaukaskatt og hvað þeir sem borguðu mest greiddu í virðisaukaskatt. Þar kom fram að höfuðborgarbúar greiddu 2.090 kr. fyrir þá 10 vöruflokka sem voru ódýrastir og 299 kr. í virðisaukaskatt til ríkissjóðs. Landsbyggðarbúinn þurfti hins vegar að greiða 3.379 kr. fyrir þessa vöru og 471 kr. í virðisaukaskatt til ríkissjóðs. Íbúi landsbyggðarinnar sem þarf að versla þar sem þessir 10 vöruflokkar voru dýrastir skilar 58% meira í virðisaukaskatt til hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs en íbúinn á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann getur verslað ódýrast. Þar að auki hefur hæstv. fjmrh., umsýslumaður fjármuna ríkissjóðs, fengið miklu meiri virðisaukaskatt vegna þess að það þurfti að flytja vöruna frá uppskipunarhöfninni á höfuðborgarsvæðinu út á land. Það er því alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, þegar ég hef rakið þau atriði sem ég er að gera að umtalsefni, að hæstv. ríkisstjórn skuli voga sér að koma fram með frv. sem við erum að ræða þar sem sækja á 400 millj. í vasa þeirra sem greiða þungaskatt og 600 millj. í vasa þeirra sem kaupa sér bensín á bíla á næsta ári.

Þar að auki vil ég nefna í framhjáhlaupi, en ætla ekki að gera að umtalsefni hér vegna þess að það er ekki á dagskrá, að hæstv. ríkisstjórn hefur samþykkt fyrir sitt leyti að breyta þungaskattskerfinu og taka upp svokallað olíugjald. Ríkisstjórnin hefur samþykkt það fyrir sitt leyti samkvæmt fréttum í fjölmiðlum sem komu eftir þann ríkisstjórnardag. Mér skilst að það frv. liggi hjá stjórnarflokkunum og verið sé að skoða það, því mér skilst að menn séu nú aðeins að opna augun fyrir því að það kerfi, ef það á að vera eins og sýnt hefur verið í undanförnum frumvörpum, ég tek það skýrt fram. Nú hef ég að sjálfsögðu ekki séð síðasta frv. hæstv. ríkisstjórnar, en ef taka má mið af gömlu frumvörpunum og gömlu hugmyndunum er ætlunin að taka upp olíugjald með því að hækka verð á olíulítra upp í 90--95 kr. Þar að auki á að setja ökumæli á hvern einasta flutningabíl sem flytur vörur um landið og skattleggja hann eftir eknum kílómetrum. Flutningastarfsemin á sem sagt að borga tvöfalt kerfi. Ef olíugjaldsfrv. verður með því sniði sem hefur verið sýnt hingað til, mun það leiða til allt að 20% hækkunar flutningsgjalda, það frv. sem við erum hér að ræða og væntanlegt olíugjaldsfrv., nema það vilji svo vel til að það stoppi í stjórnarflokkunum, að þingmenn í stjórnarflokkunum sjálfum sem koma að landsbyggðinni segi: Hingað og ekki lengra. Ég vona sannarlega að þeir hafi dug til þess að segja: Hingað og ekki lengra, kæra ríkisstjórn. Nú er mælirinn fullur. Við samþykkjum ekki þessar auknu skattálögur.

Við getum svo haft skoðanir á því hvort það eigi að taka upp olíugjald eða ekki og hvernig það eigi að vera útfært. Ég er ekki andvígur því að breyta þungaskattskerfinu yfir í olíugjald en ég samþykki það aldrei ef það verður til þess að hækka álögur á flutningastarfsemi og lauma kannski inn frekari skattheimtum á þá sem þurfa að nota bílaumferðina. Við skulum hafa það í huga, sem ég hef ekki sagt hingað til, að skattheimta ríkisins af umferð á næsta ári er áætluð 32 milljarðar kr. Til vegamála renna 15--16 milljarðar kr. þannig að ríkissjóður er að hafa um 15--16 milljarða kr. í skatt af umferð á Íslandi, bílainnflutningi og öðru í ríkisrekstrinum. Það fer ekki til samgöngumála. Mætti ekki taka eitthvað af þessum peningum og lækka álögur á flutningastarfsemina eins og ég hef gert að umtalsefni til þess að freista þess að lækka flutningsgjöld? Þeir peningar eru til. Það má segja, því miður, virðulegi forseti, það er ljótt, þetta eru blóðpeningar ríkissjóðs sem eru innheimtir af flutningastarfsemi og bílaeigendum og notaðir í allt annað. Ég geri að sjálfsögðu skattheimtuna af umferð og flutningastarfsemi sérstaklega að umtalsefni.

Mig langar í þessu sambandi, virðulegi forseti, að taka nokkur dæmi um flutningastarfsemi. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég sakna þess, en það er kannski að æra óstöðugan með því að nefna það einu sinni enn. Ég sakna þess alveg svakalega að hv. nefndarmenn stjórnarflokkanna í efh.- og viðskn. skuli ekki sitja hér, ég tala nú ekki um nokkra þingmenn sem koma utan af landi og ættu að horfa á þetta atriði. (Gripið fram í: Á það ekki við þingmenn stjórnarandstöðunnar líka og ... ) Jú, þingmaður stjórnarandstöðunnar er m.a. hér einn að nefna þetta. Þingmaður stjórnarandstæðinga, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir í efh.- og viðskn., fór mjög vel yfir nefndarálitið. (Gripið fram í.) Ef ég hef sagt það, þá biðst ég afsökunar á því, hv. þm. Jón Bjarnason. Ég sé þig hér en ég hélt ég hefði sagt stjórnarsinnar. Ef ég hef sagt stjórnarandstæðingar biðst ég afsökunar á því en ég ætlaði að tala um stjórnarsinna. (JBjarn: Landsbyggðarþingmenn.) Landsbyggðarþingmenn stjórnarinnar, ég nefni t.d. í efh.- og viðskn. hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, varaformann nefndarinnar. Ég nefni þingmann Framsfl., hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur. Þessir þingmenn hafa talað þannig í kosningabaráttu að þeim ofbjóði skattheimta ríkisins og finnist flutningsgjöldin allt of há. Þeir skrifa upp á nefndarálit, þessir hv. þm., sem gerir það að verkum að þetta mun allt saman hækka. Það verður gaman að heyra í þessum hv. þm. hér á eftir um þessi atriði eða hvort það eigi bara að afgreiða það með því að það sem sagt var í kosningabaráttu af þeirra hálfu ásamt öðrum stjórnarþingmönnum af landsbyggðinni, þó þeir séu ekki í sömu nefnd, hafi bara verið plat eins og ýmislegt annað sem lofað var í kosningabaráttu og fer ég ekki frekar út í þá sálma.

Það má auðvitað fara yfir það hvort hv. stjórnarþingmenn þriggja landsbyggðarkjördæma muni styðja þetta frv. og ætli að hleypa því í gegn með þeim afleiðingum sem ég hef verið að gera að umtalsefni ofan á allt annað sem búið er að ganga á, 40--45% hækkun á lengstu leiðum. Flutningsgjöld sem ég ætlaði að nefna áðan með dæmum úr atvinnulífinu, og ég ætla að nefna hér á eftir, eru svimandi há og eru allt að drepa. Það má nefna t.d. þingmenn Norðvest., hv. þm. Magnús Stefánsson, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, áðurnefndan hv. þm. Kristin H. Gunnarsson eða hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, þingmenn stjórnarflokkanna í Norðvest., að ég tali ekki um hæstv. samgrh. Sturlu Böðvarsson sem ég gleymdi að nefna sem er efstur á blaði. Eða hv. þm. úr Norðaust., hæstv. ráðherra byggðamála Valgerði Sverrisdóttur, hæstv. forseta þingsins Halldór Blöndal, hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson, hæstv. menntmrh. Tómas Inga Olrich, áðurnefnd hv. þm. Dagný Jónsdóttir og hv. þm. Birkir J. Jónsson. Ef við förum yfir í Suðurk., hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson, hv. þm. Drífa Hjartardóttir, hv. þm. Hjálmar Árnason og hv. þm. Guðjón Hjörleifsson. Ætla þessir þingmenn allir, tveir af þeim eru nefndarmenn í efh.- og viðskn. sem hefur verið með þetta mál til umfjöllunar og fengið þær umsagnir sem hér er verið að fjalla um, virkilega að stuðla að því að þetta renni í gegnum þingið steinþegjandi og hljóðalaust? Láta ekki sjá sig í umræðunni, fara í felur, að maður tali ekki um þingmenn Framsfl., það er bara orðinn daglegur viðburður að þeir taki ekki þátt í neinni umræðu á þinginu (GHall: Ég verð nú að benda ræðumanni á að menntmrh. er ekki á þinginu, það er varaþingmaður fyrir hann hér inni ... ómaklegt. ) Það er ekkert ómaklegt, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, það er ekkert óvirðulegt við það. Ég er ekkert að kalla eftir að þessir þingmenn séu hér. Ég var að fjalla um hvort þessir þingmenn ætli að stuðla að því og samþykkja þetta frv. (GHall: Og taki þátt í umræðunni.) Já, já, það má vel segja að svo sé.

(Forseti (JBjart): Forseti beinir því til ræðumanna og þingmanna sem sitja úti í sal að standa ekki í samtölum sín á milli.)

Já, í upphafi skal endinn skoða og er sjálfsagt að verða við því. En ef nokkrir þessara stjórnarþingmanna eru utan þings og erlendis eins og hér kom fram, get ég bara snúið því við, að í staðinn fyrir hæstv. menntmrh. Tómas Inga Olrich er kominn þingmaður af landsbyggðinni, Arnbjörg Sveinsdóttir, ef fleiri eru í burtu biðst ég afsökunar á því ef það hefur farið fram hjá mér. En þeir gætu kannski verið til staðar þegar atkvæðagreiðslan verður hvort sem það er 2. eða 3. umr.

Ég sagði það áðan, virðulegi forseti, að ég ætlaði að taka nokkur vel þekkt dæmi af landsbyggðinni og landsbyggðarfyrirtækjum um flutningskostnað og sýna fram á hvernig þetta íþyngir þeim í rekstri og að sum þessara fyrirtækja eru að hugleiða að hætta starfsemi sinni á landsbyggðinni og flytja starfsemina til höfuðborgarsvæðisins vegna þess að aðalmarkaður fyrir þær vörur sem þau framleiða er á höfuðborgarsvæðinu. Tökum dæmi af framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni sem er vel þekkt í sinni grein, veltir 700--800 millj. á ári, flytur megnið af sinni framleiðslu til höfuðborgarsvæðisins, borgaði á síðasta ári 50--80 millj. kr. í flutningskostnað. Þetta fyrirtæki nýtur samt mikils afsláttar frá flutningstöxtum. Af þeirri upphæð rennur sennilega um helmingur í formi ýmissa skatta til ríkissjóðs, eins og ég hef áður getið um.

Lítið fyrirtæki á Norðurlandi framleiðir úrvalsvöru úr sjávarafurðum sem seld er um allt land. Fyrirtækið dreifir sinni vöru sjálft og sendir daglega, samkvæmt pöntunum, stórar sem smáar sendingar til verslana. Þetta fyrirtæki er oft og tíðum að greiða um 100--125 kr. á hvert kg vegna sendinga sem eru undir 15--20 kg. Það er sem sagt að greiða á bilinu 1.500--3.000 kr. fyrir flutning á sinni vöru frá framleiðanda til verslana. Flutningskostnaðurinn er einn hæsti og ósanngjarnasti útgjaldaliður þessa fyrirtækis.

Frægt er dæmið um bónda á norðausturhorni landsins sem ákvað að fá sér nýjan vatnabát, kringum 2,7 rúmmetra að stærð. Það þurfti að sjálfsögðu að flytja hann til hans. Þessi bátur kostaði 140 þús. kr. út í búð í Reykjavík. Tilboð í flutningskostnað með bíl var í kringum 65--70 þús. kr., um helmingur af verðgildi bátsins. Það segir sig auðvitað sjálft að það var ekki gerandi að gera þetta þannig svo að báturinn var fluttur með skipi og síðan með bíl og síðan sóttur af þessum ágæta bónda töluvert langa vegalengd. Flutningskostnaðurinn var samt sem áður í kringum 30 þús. kr.

[12:30]

Ef bíleigandi á Norðurlandi verður svo óheppinn að sjálfskiptingin í bíl hans bilar og ekki er hægt að gera við hana á viðkomandi stað, þá kostar flutningurinn fram og til baka í kringum 12 þús. kr. á sjálfskiptingunni sem send er til Reykjavíkur á verkstæði. Og höfum það í huga, virðulegur forseti, að helmingurinn af þeim peningum, allt að 6 þús. kr., eru skattar til ríkissjóðs.

Fiskverkandi á Norðurlandi sem kaupir fisk á fiskmarkaði og hefur verslað mikið á Snæfellsnesi þarf að flytja fiskinn til sín til að skapa áfram vinnu í viðkomandi byggðarlagi. Þetta þarf hann að gera vegna þess að kvótinn sem var á staðnum var allur seldur burt úr plássinu og engin útgerð er þar lengur, frá stað sem byggðist á sínum tíma upp á útgerð og fiskvinnslu. Fólkið í þessu viðkomandi plássi á eignir sínar þar auðvitað áfram og þarf laun fyrir ævistarfið og til að reka þær húseignir. Þessi ötuli fiskverkandi sem neitar að gefast upp þarf að borga í kringum 15 kr. á hvert kíló vegna fiskflutninganna norður. Það þýðir, virðulegi forseti, að ef flutt eru 50 tonn af fiski þarf að borga 750 þús. kr. í flutningskostnað fyrir það. Hæstv. fjmrh. fær helminginn af því.

Síðan er þessi vara unnin og sköpuð úr henni vinna og verðmæti, m.a. útflutningsverðmæti fyrir þjóðarbúið allt vegna þess að mest af útflutningstekjum okkar kemur úr sjávarútveginum og við lifum nú ekki á verslunarrekstri einum saman eða þeirri verðmætasköpun sem á sér stað í Kringlunni eða Smáralind. En það þarf að flytja þennan fullunna fisk aftur og oft á tíðum þarf að keyra hann til Reykjavíkur eða austur á land, austur á Eskifjörð til útflutnings. Þá er í rauninni um sama verð á kíló að ræða í flutningskostnaði, eða eins og sagt hefur verið: Það kostar jafnmikið, virðulegi forseti, að flytja einn gám af fiski frá Þórshöfn til Húsavíkur og að flytja viðkomandi gám frá Reykjavík til Rotterdam með skipi.

Það er alltaf best að sýna þetta með dæmum sem eru úr viðskiptalífinu. Flutningsreikningur verslunar á norðausturhorni landsins sem þurfti að flytja 450 kíló af matvöru til sín borgaði 9 þús. kr. fyrir flutninginn eða 20 kr. á hvert kíló.

Þetta eru aðeins örfá dæmi, virðulegi forseti, sem ég hef nefnt. Og það kemur upp í hugann einu sinni enn, það sem hv. stjórnarþingmenn sögðu í liðinni kosningabaráttu þegar m.a. var rætt um flutningskostnaðinn, sem mikið var rætt um í kjördæmi mínu. Þá var auglýsing í gangi sem Framsfl. beitti sér mikið fyrir sem var svohljóðandi: Verkin tala. Mér finnst verk hæstv. ríkisstjórnar undanfarin ár tala sínu máli, þ.e. hækkun þungaskatts.

Sjálfstæðisflokkurinn notaði slagorðið: Áfram Ísland, fínt slagorð, áfram Ísland. En er það áfram Ísland fyrir allt Ísland eða er það bara fyrir höfuðborgarsvæðið? Hvernig eiga íbúar í litlum byggðarlögum úti á landi sem búa við þessi háu flutningsgjöld og hina miklu skattheimtu ríkissjóðs að taka slagorðið Áfram Ísland? Hvaða mat eiga þeir að leggja á slíkt slagorð og verk hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum?

Nei, virðulegi forseti, það er alveg sama hvar borið er niður, það er alveg sama hvar við erum í umræðunni, alltaf komum við að því sem er það allra versta í þessu öllu saman, þ.e. mikilli hækkun þungaskatts sem leitt hefur af sér hin miklu og háu flutningsgjöld og þetta eru allt saman afleiðingar af ákvörðunum og stundum ákvarðanaleysi hæstv. ríkisstjórnarflokka í þá tíð sem þeir hafa setið við stjórnvöl.

Í ágætri umsögn frá Landvara, sem eru hagsmunasamtök flutningabílstjóra, þá birtast hér í þinggagni sem umsögn um þetta mál þær tölur sem ég hef oft gert að umtalsefni, þ.e. um 40--45% hækkun á greiðslu þungaskatts frá árinu 1998 til ársins 2000. Það er auðvitað þannig, virðulegi forseti, og það staðfestir þessi umsögn, staðfestir það sem ég hef áður sagt á hinu háa Alþingi um þetta og hv. 2. þm. Norðaust., Halldór Blöndal, hæstv. forseti Alþingis, hefur rengt í þingræðu, að þessi umsögn staðfestir þær tölur sem við höfum farið yfir, þ.e. þungaskattinn, hvernig hann hefur komið til ríkissjóðs.

Auðvitað er það svo, virðulegi forseti, að atvinnugreinin sem slík getur engan veginn tekið á sig slíkar hækkanir öðruvísi en að velta þeim út í verðlagið, eins og gerist í öðrum starfsgreinum. Og það sjáum við í þeim ofboðslega háu flutningsgjöldum sem landsmenn þurfa að búa við og sem birt voru í þáltill. minni á síðasta ári, þ.e. gjaldskrá flutningafyrirtækja, þar sem sjá mátti himinháar tölur. Nú hafa stjórnarþingmenn, virðulegi forseti, oft viljað rengja þessar töflur og segja: Það er ekkert að marka þessar töflur, þetta er bara grunnurinn, svo koma alls konar afslættir.

Það er sannarlega rétt eins og ég tók dæmi af áðan, að menn semja, stórir aðilar hafa tækifæri til að semja við flutningsaðila, jafnvel bjóða þá út, þó að ekki séu nema tveir eða þrír eftir í þessari starfsemi og ekki mikil samkeppni á því sviði heldur hefur hún þróast frekar yfir í fákeppni, þá hafa stórfyrirtæki fengið góð tilboð, og það er auðvitað virðingarvert og gott. En það á ekki við um alla og það á ekki við um almenning.

Þess vegna segi ég bara: Gjaldskráin er þessi. Hún hefur verið rengd af nokkrum stjórnarþingmönnum. Tölulegar staðreyndir og afrit af reikningum, eins og ég tók tók dæmi af áðan, eru þannig að þau sanna þetta mál sem við erum að fjalla hér um.

Hér hafa nokkrir þingmenn, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, talsmaður 1. minni hluta efh.- og viðskn., sem las upp nál. 1. minni hluta sem skipa auk Jóhönnu hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, lesið upp margar af þeim umsögnum sem komu til nefndarinnar vegna þessa máls, annars vegar bensínhækkunarinnar og hins vegar vegna þungaskattsins. Það er margt í þeim umsögnum sem ekki hefur verið sagt sem á heima inni í þessari umræðu og í þinggögnum um málið vegna þess að mér er það til efs að nokkurt þingmál hafi fengið aðrar eins viðtökur og aðrar eins umsagnir og þetta mál.

Auðvitað svíður fólki það líka enn þá meira, jafnt umsagnaraðilum sem almenningi í landinu, að í liðinni kosningabaráttu fóru stjórnarflokkarnir mikinn og lofuðu skattalækkunum á íbúa landsins, báðir stjórnarflokkarnir. Hvernig birtist þetta okkur svo? Þetta birtist okkur í skattahækkunum, eins og við erum að ræða um hér, þessi 1.200 millj. kr. skattheimta er tekin úr vasa bíleigenda og þeirra sem reka flutningastarfsemi og þeirra sem borga fyrir flutning á vöru. Þeir borga þær 1.200 milljónir.

Ég hef áður sagt það í ræðu minni nú að skattheimta af umferð er komin í nýjar hæðir og máli mínu til stuðnings vil ég lesa, með leyfi forseta, upp úr grein sem birtist í Fréttablaði Félags íslenskra bifreiðaeigenda og þar er fyrirsögn: Hundruð milljóna skattahækkanir á bíleigendur -- gluggað í nýja fjárlagafrumvarpið.

,,Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2004 er gert ráð fyrir verulegum skattahækkunum á bíleigendur. Ef marka má frumvarpið ætlar ríkisvaldið að sækja samtals um 950 milljónum króna meira í vasa bifreiðaeigenda í formi eldsneytis- og notkunarskatta á næsta ári en á yfirstandandi ári. Ofan á þá upphæð leggst svo virðisaukaskattur þannig að samtals nemur þessi aukna skattheimta tæplega 1.100 milljónum króna.

Rúmur helmingur þessara auknu álaga, eða 550 milljónir, verður sóttur til bifreiðaeigenda með því að hækka vörugjald af bensíni sem hafa mun þær afleiðingar að bensínlítrinn verður um 4 krónum dýrari en hann er nú. Því til viðbótar verður þungaskattur af dísilbílum hækkaður um 400 milljónir. Ofan á bensínskattinn nýja kemur svo virðisaukaskattur.

Meiri tekjur en ekki nóg.

Á yfirstandandi ári hefur bifreiðainnflutningur verið verulega meiri en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga þessa árs. Það er því allt útlit fyrir að tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum af innfluttum bifreiðum verði um 800 milljónum meiri á þessu ári [þ.e. árinu 2003] en gert var ráð fyrir. Ofan á þessar auknu vörugjaldatekjur leggst svo virðisaukaskattur upp á tæplega 200 milljónir króna til viðbótar. En þessar auknu tekjur umfram áætlanir eru ríkisstjórninni ekki nóg, því að hún ætlar greinilega að vega enn í þennan sama knérunn og sækja um 1.100 milljónir í viðbót í vasa bifreiðaeigenda samanber það sem fram kemur hér ofar.``

Svo kemur í lokin rúsínan í pylsuendanum. Fyrirsögnin á þeim kafla er: Í nýjar hæðir.

,,Ef þessar hækkanahugmyndir ná fram að ganga óbreyttar þá mun skattheimta ríkissjóðs á næsta ári af bílum og rekstrarvörum til þeirra ná nýjum sögulegum hæðum og komast í samtals 32 milljarða. Það er rúmlega 100% þyngri skattbyrði en lögð var á bifreiðaeigendur árið 1991 á fyrsta starfsári fyrsta ráðuneytis Davíðs Oddssonar.``

Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé að hafa yfir þessar tölur aftur. Það eru 32 milljarðar, skattur af bílum og rekstrarvörum til þeirra, og þetta er komið í nýjar sögulegar hæðir, eins og hér kemur fram. Það staðfestir það sem áður hefur verið sagt og ég man eftir að kom m.a. fram í hv. samgn. á síðasta kjörtímabili sem ég átti sæti í þegar menn voru að ræða samgönguáætlun og annað, þá kom það fram að um helmingurinn af þessari upphæð rennur til vegamála, hitt rennur beint inn í ríkissjóð.

En í lok greinarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi yfirlýsinga og loforða sem stjórnarflokkarnir gáfu fyrir síðustu kosningar um skattalækkanir þá eru þessar fyrirhuguðu hækkanir sannarlega ekki neitt gamanmál og varla hægt að segja að fjárlagafrumvarpið sé skemmtilestur fyrir fjölskyldurnar í landinu sem eiga og reka bíl. Enn eru ótalin þau hækkunaráhrif sem þessar hækkanir hafa, m.a. á vísitölur og þar með húsnæðisskuldir þessara sömu fjölskyldna.``

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram eru menn að sækja hér meira fé út af vísitöluhækkunum. En engu að síður samþykktum við fjárlög við 2. umr. í gær hér á hinu háa Alþingi og þar samþykkti stjórnarmeirihlutinn lækkun til framkvæmda í vegamálum upp á 850 millj. kr. Skerða á vegaframkvæmdir um 850 millj. kr. á næsta ári miðað við fjárlagafrv. Þetta voru brtt.

Í rauninni má segja, virðulegi forseti, að í kosningunum og í kosningaundirbúningnum hafi menn farið um og klappað kjósendum á vinstri og hægri eins og hægt var, lofað skattalækkunum, alls konar aðgerðum, öllu þessu var lofað fyrir kosningar. Eftir kosningar má síðan orða það svo að þeir sömu og fengu klappið á vinstri og hægri fyrir kosningar séu kýldir nú til vinstri og hægri, á vinstri og hægri kjammann með þeim aðgerðum sem hér eru boðaðar, skattahækkunum, niðurskurði og því að verið er að sækja meira fé sem fer í ríkissjóð. Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga, virðulegi forseti. Með öðrum orðum, tekjur ríkissjóðs vegna bifreiðanotkunar eru 32 milljarðar á næsta ári en ekki 29,7 eins og áður hefur verið talað um. Það er vegna þess, og var lesið hérna upp áðan, að skattar voru vantaldir af að mig minnir dekkjum og einhverju þess háttar, viðgerðum og varahlutum. En sannarlega eru þessar tekjur komnar upp í sögulegar hæðir.

[12:45]

Þetta er enn eitt Íslandsmet hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar. Ekki aðeins hefur hann setið manna lengst í stóli forsrh. og slegið Íslandsmet þar heldur hefur hæstv. forsrh. líka slegið Íslandsmet í skattheimtu og ríkisstjórnir hans hafa slegið Íslandsmet í skattheimtu af bifreiðanotkun á Íslandi. Og það er náttúrlega líka Íslandsmet hve lítið af þeim peningum fara beint til málaflokksins heldur eru notaðir í annað. Enda er það svo að í ýmsum gögnum sem maður sér þar sem verið er að bera saman kostnað bíleigenda við að reka einkabíl með svona 1.500 kúbiksentimetra vél, lítinn fjölskyldubíl, þá sýnir öll tölfræði og súlurit, sem m.a. eru byggð á tölum sem sennilega koma úr fjmrn., að Ísland trónir hæst og skagar þar mest upp á blaðinu og er nefnt fyrst í þeim kafla þar sem verið er að ræða um skatta og útgjöld vegna reksturs á bíl, langt fyrir ofan lönd eins og Danmörku, um meira en helming, Noreg 30--40% meira, og svona má lengi telja.

Virðulegi forseti. Þá kem ég loks að nokkrum umsögnum sem bárust efh.- og viðskn. út af þessu tiltekna máli. Ég ætla ekki að lesa þær allar upp en gríp inn í nokkrar sem eru mjög merkilegar og bendi t.d. sérstaklega á og byrja á því að Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra senda mjög harðorða umsögn þar sem fjallað er um þessi atriði. Benda má á að Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, sem eru samtök allra sveitarfélaga á því svæði, eru skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka í viðkomandi sveitarstjórnum og því má með sanni segja þessi samtök séu þverpólitísk. Þar hafa menn verið einhuga, sama hvort það eru sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, jafnaðarmenn í Samfylkingunni, vinstri grænir eða frjálslyndir eða kannski bara utan flokka, og hafa gert mjög merkilegar ályktanir m.a. um þungaskatt, skatta af umferð og skatta af flutningastarfsemi. Þeir hafa líka verið í fararbroddi samtaka sveitarfélaga að benda á leiðir til að jafna lífskjör í landinu í gegnum skattkerfið, ályktanir sem mér eru mjög að skapi og mér finnast alveg til fyrirmyndar. Ég hef áður getið þessara samtaka og vil ítreka það, virðulegi forseti, að þetta eru ekki samtök samfylkingarmanna á Norðurlandi vestra, SSNV, þetta eru Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, þverpólitísk samtök. Í stjórn þeirra eru fulltrúar frá öllum flokkum og þeir hafa bent á þessar leiðir.

Þeir segja m.a. í umsögn sinni, með leyfi forseta, um þetta frv. til fjáröflunar vegagerðar:

,,Það kemur stjórn SSNV mjög á óvart að lagt sé fram frumvarp nú til að hækka þungaskatt og vörugjald af ökutækjum og eldsneyti þar sem það er stefna ríkisstjórnarinnar að lækka skatta. Þungaskattur og eldsneytisgjald eru íþyngjandi landsbyggðarskattar og er nú annað þarfara en að auka þá skattlagningu.`` --- Og er nú annað þarfara en að auka þá skattlagningu. --- ,,Stjórn SSNV hefur áður bent á það sem leið til að beita skattakerfinu til jöfnunar lífskjara að lækka þungaskatt af vöruflutningum. Stjórn SSNV leggst gegn samþykkt frumvarpsins.`` --- Og segir svo í lokin: ,,Hvað segir ESA núna?``

Þetta er ákaflega merkileg ályktun. Bæjarstjórn Akureyrar er líka skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka nema Frjálsl. Sjálfstfl. og Framsfl. eru þar í meiri hluta, og bæjarráð sendir umsögn um þetta frv. Nú veit ég ekkert um það hve mörg sveitarfélög fengu þetta mál til umsagnar en alla vega fór það til Akureyrarbæjar. Bæjarráð segir í sinni umsögn, með leyfi forseta:

,,Bæjarráð bendir á að hækkun sú sem frumvarpið gerir ráð fyrir er í mótsögn við yfirlýstar fyrirætlanir stjórnvalda um lækkun flutningskostnaðar.``

Glæsileg samþykkt hjá sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum í bæjarstjórn Akureyrar sem vafalaust hefur verið studd af fulltrúum Flokks fólksins, Oddi Halldórssyni m.a. og hans fólki, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Vinstri grænna. Ég geri ráð fyrir því að það hafi verið þverpólitísk samstaða um þessa ályktun. Það er í raun og veru ekki að furða að bæjarráð Akureyrar og bæjaryfirvöld á Akureyri skuli senda þessa ályktun og leggjast gegn þessu og vitna í það að fyrirætlanir stjórnvalda hafi verið um að lækka flutningskostnaðinn en ekki hækka eins og hér er gert, vegna þess að bæjarstjórn Akureyrar hefur tekið þetta mál mjög oft upp. Það er auðvitað vegna þess að hagsmunir Akureyrarbæjar og Akureyringa eru mjög miklir, að ég tali nú ekki um fyrirtækja á Akureyri sem mörg hver eru í fremstu röð á sínu sviði. Þau eru að flytja til sín hráefni sem oft og tíðum er uppskipað hér á höfuðborgarsvæðinu, vinna úr því fína vöru og flytja aftur til höfuðborgarsvæðisins á þennan stærsta markað Íslands og greiða flutningsgjöld fram og aftur.

Við skulum nú taka dæmi aftur af tveimur þekktum norðlenskum kjötiðnaðarfyrirtækjum, Norðlenska og Kjarnafæði, sem flytja megnið af sínum vörum til höfuðborgarsvæðisins, ég veit þó ekki hvað það er stórt hlutfall og mikið er nú selt á svæðinu, en þessi fyrirtæki áætla að þau borgi 100--130 millj. kr. í flutningskostnað á ári. Ætli það væri nú ekki skemmtilegra, virðulegi forseti, að hafa þessa upphæð, 100--130 milljónir, ofan við strikið í rekstrarreikningnum, hafa það þannig ofan við að það myndaði jafnvel hagnað, að hagnaður væri eftir til greiðslu á skuldum eða til áframhaldandi sóknar fram á við o.s.frv.? En þetta eru þessir, sem ég kalla, blóðpeningar ríkissjóðs sem ríkissjóður og hæstv. fjmrh. eiga ekki að vera ánægðir með að fá. Það eru svona peningar, ósanngjörn skattheimta þar sem skatturinn til ríkissjóðs magnast eftir því sem meira er keypt og þarf að flytja vöruna fram og til baka.

Þessi tvö atriði sem ég hef hér nefnt, þ.e. umsagnir Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Akureyrarbæjar eru í þessu veru.

Þá ætla ég að koma að umsögn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Það er nú svo, virðulegi forseti, að þessi afstaða kemur í raun og veru ekki á óvart vegna þess að stjórn Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum tekur ekki afstöðu til frv., þ.e. annars vegar um hækkun bensínsgjaldsins, sem virkar á íbúa á Suðurnesjum, og tekur heldur ekki afstöðu til hækkunar þungaskatts, sem fer út í verðlag og flutningskostnað eins og er margrætt um. Hvers vegna skyldi það vera svo, virðulegi forseti, að Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum taki ekki afstöðu til þessa frv.? Jú, það er náttúrlega vegna þess að þetta eru ekki svo miklar vegalengdir að þungaflutningsgjöldin þar eru greinilega ekki að íþyngja, að mati Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, íbúum þess svæðis í hærra vöruverði og íþyngja ekki flutningafyrirtækjum með háum flutningsgjöldum eða íbúum eða fyrirtækjum á svæðinu, enda sjáum við það í gjaldskrá fyrirtækja þar að það væri nú ágætt ef öll fyrirtæki á landsbyggðinni gætu búið við þá gjaldskrá. Ég gæti alveg skrifað upp á þá gjaldskrá. Þess vegna er ekki að furða þó að Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum láti sig ekki málið varða. Þetta er enn einn rökstuðningurinn fyrir áherslumuninum og misvæginu sem er milli svæða á Íslandi, milli landsmanna, að menn sitja ekkert við sama borð.

Verslunarráð sendi líka umsögn og það er dálítið skrýtið að þar er ekki lagst gegn þessu, þó að lagst sé gegn öllum hækkunum, en það er ekkert sérstaklega fjallað um þetta atriði sem ég hef gert hér að umtalsefni.

Þá kem ég að umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem er eins og nafnið bendir til samtök allra sveitarfélaga á Íslandi, sama hvort þau eru á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga olli mér miklum vonbrigðum og staðfesti það sem ég hef áður sagt og haldið fram að Samband íslenskra sveitarfélaga er því miður að þróast æ meira yfir í það að vera samband íslenskra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og gætir fyrst og fremst hagsmuna stóru sveitarfélaganna þar, sem náttúrlega borga mest til sambandsins, og þess vegna er þessi umsögn mér veruleg vonbrigði.

Það er lítils háttar rætt um þetta, eins og segir hér, með leyfi forseta:

,,Stjórnin vekur athygli á því að með þeim breytingum sem fram koma í frumvarpinu eykur ríkissjóður árlegar tekjur sínar af bifreiðanotkun landsmanna um 1.000 millj. kr.`` --- þeir gleyma náttúrlega að reikna virðisaukaskattinn sem kemur ofan á þetta þannig að þetta fer upp í 1.200 milljónir --- ,,sem m.a. mun að óbreyttu leiða til aukins kostnaðar í fólks- og vöruflutningum.``

Það eina sem rætt er í þessari umsögn um vöruflutninga er þetta eina orð þarna, að það muni að óbreyttu leiða til aukins kostnaðar í fólks- og vöruflutningum. Síðan er ekki rætt meira um vöruflutningana. Stjórnin fjallar hins vegar hér um áætlunarferðir almenningsvagna og leggur til að almenningsvagnar og bílar sem aka í áætlunarferðum og stunda strætisvagnarekstur eða flutningastarfsemi verði undanþegnir skattskyldu. Og eins og það er í dag, virðulegi forseti, þá hefur það verið svo í mjög mörg ár, ég veit ekki hve mörg, það getur vel verið að það hafi verið frá upphafi, að strætisvagnarekstur á landinu hefur eingöngu þurft að greiða 30% af þungaskatti, hefur fengið 70% afslátt.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er sem sagt að leggja það til að slík starfsemi fái 100% afslátt, greiði engan þungaskatt. Og því er ég sammála. Eins og kom fram hjá fulltrúa Samf. í efh.- og viðskn., hv. frsm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þá styðjum við það, enda fluttu hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Margrét Frímannsdóttir fyrir einu eða tveimur árum tillögu um það þó að hún sé ekki endurflutt hér nú vegna þess að við vitum að ríkisstjórnin áætlar breytingar á þessu með umræddu olíugjaldi og við geymum okkar tillögur, sem við höfðum ýmsar fram að færa, til þess tíma þegar við sjáum á þau spil, þá styðjum við samt sem áður þá tillögu sem hér hefur verið lögð fram og er efnislega nákvæmlega eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði fram, við styðjum það að strætisvagnarekstur og almenningsvagnar á áætlunarleiðum verði undanþegnir þungaskatti.

Ég sagði það áðan, virðulegi forseti, að álit og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga ollu mér miklum vonbrigðum. Hér er t.d. lítið sem ekkert rætt um skólaakstur og nánast ekki neitt um vöruflutninga til og frá landsbyggðinni. Það gerir hins vegar Alþýðusamband Íslands mjög vel, bendir á þessi atriði og hvernig þau hafa neikvæð áhrif á landsbyggðina, neikvæðari áhrif á landsbyggðina en á höfuðborgarsvæðið, og eins og segir hér, með leyfi forseta:

,,Mörg svæði á landsbyggðinni eiga í vök að verjast og erfitt hefur reynst að halda uppi verslun og þjónustu á viðkomandi svæðum. Verði frumvarpið að lögum mun slíkt reynast enn erfiðara. ASÍ leggst því gegn samþykkt frumvarpsins.``

Strætó bs. hefur skilað umsögn og um hana hefur verið fjallað og þarf ekki að fjölyrða meira um.

Samtök iðnaðarins hafa hins vegar verið mjög iðin við það að benda á þessi atriði enda gæta þau vonandi hagsmuna alls iðnaðar, sama hvar hann er á landinu. Samtök iðnaðarins hafa látið sig þessar breytingar á þungaskatti miklu varða og mótmæla þessari hækkun í umsögn sinni og benda á að hún muni fara beint út í verðlagið, flutningafyrirtæki m.a. muni þurfa að velta þessu út í verðlagið eins og komið hefur fram og allir eru sammála um að gerist, en samtökin gagnrýna líka þau meginrök sem eru fyrir hækkun gjaldsins við að auka tekjur ríkissjóðs. Þau benda á ansi athyglisverðan punkt þar sem þau segja að tekjur ríkissjóðs af þessu muni aukast hvort sem er mjög mikið vegna aukinna umsvifa, m.a. í tengslum við stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi, og það er einn þáttur sem ekki hefur verið nefndur hér og er athyglisvert í umsögn Samtaka iðnaðarins að benda á þetta atriði, vegna þess að auðvitað hefur sú mikla atvinnuuppbygging sem þar á sér stað og atvinnustarfsemi í för með sér að ríkissjóður muni fá miklar tekjur.

(Forseti (JBjart): Forseti vill kanna hvort hv. ræðumaður er við það að ljúka ræðu sinni því að ætlunin var að gera matarhlé til klukkan hálftvö. Ef ræðumaður er ekki við það að ljúka ræðu sinni biður forseti hann um að gera hlé á henni þangað til málið verður tekið á dagskrá aftur síðar í dag.)

Já, ég fellst bara á það, enda orðinn svangur.