Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 13:46:27 (2214)

2003-11-27 13:46:27# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), ÁI
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Álfheiður Ingadóttir:

Virðulegi forseti. Í umræðum um hagnað viðskiptabankanna í síðustu viku kom fram að hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir hafði ekki miklar áhyggjur af því þótt gróði bankanna hefði verið kominn upp í 20 milljarða kr. hinn 1. september sl. og stefndi í 25 milljarða á þessu ári. Það var heldur ekki að heyra þá að hún deildi áhyggjum Morgunblaðsins og aðila á fjármálamarkaði vegna vaxandi ítaka og afskipta bankanna í atvinnulífi í landinu. Og það var heldur ekki að heyra þann daginn að hún hefði miklar áhyggjur af vaxandi fákeppni og skorti á samkeppni í almennri bankastarfsemi á landinu. Og ráðherra sá þá enga ástæðu til þess að breyta lögum eða að Fjármálaeftirlitið, Samkeppnisstofnun eða Kauphöllin athuguðu þennan ofsagróða bankanna í ljósi hárra þjónustugjalda og mikils vaxtamunar.

Virðulegi forseti. Þetta var á þriðjudagi. En á fimmtudegi, þegar í ljós kom og fréttir bárust af því hvert þessi gróði hafði raunverulega runnið, 700--1.000 millj. kr. með kaupréttarsamningum tveggja æðstu stjórnenda Kaupþings Búnaðarbanka, þegar þær fréttir bárust síðdegis á fimmtudegi var ráðherrann illa fjarri góðu gamni, komin í rólegheit til Kanada og þegar loksins náðist í hana, jú, þá var hún hneyksluð. (Viðskrh.: Það voru nú meiri rólegheitin.) Já, það voru ekki rólegheit, það voru heldur ekki rólegheit hér, hæstv. ráðherra. Þá var ráðherrann hneyksluð og sagði að þessir kaupréttarsamningar bæru vott um að forstjórarnir væru veruleikafirrtir, ef ég man rétt. Virðulegi forseti. Veruleikafirring er einmitt orðið sem kom fyrst upp í huga minn í gær þegar ég hlýddi á svör hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar um það hvernig samningunum um kaup bankanna hefði lyktað.

Meðgjöf upp á 700 millj. kr. til Landsbankans, gífurlegt gengistap sem ekki skiptir þó, að mati ráðherrans, neinu máli og vanmat stjórnvalda á raunverulegu verðgildi bankanna sem hafa á einu ári hagnast um helming kaupverðsins. Hún var bara ánægð með niðurstöðuna. Brosið sem tók sig upp í Þjóðmenningarhúsinu á gamlársdag 2002 þegar kaupin voru gerð er því enn á sínum stað. En, virðulegi forseti, brosið á andlitum þjóðarinnar er stirðnað. Ég heyri að hæstv. viðskrh. hefur enn ekki miklar áhyggjur af þessum málum en það er þó þeim mun ánægjulegra til þess að vita að hv. efh.- og viðskn. hefur ákveðið að láta málið til sín taka og hefur ákveðið að hefja athugun á kaupréttarsamningum og starfskjörum stjórnenda og starfsmanna í skráðum félögum á markaði. Þar verður m.a. spurt hvernig það megi vera í skráðum félögum á markaði í Kauphöllinni að menn séu að versla með hlutabréf á fölsku gengi, að menn velji sér gengi langt aftur í tímann eftir hentugleikum og skari þannig eld að eigin köku. Hvað varð um vald markaðarins og aðhald hans?