Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:52:33 (2247)

2003-11-27 15:52:33# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum vona að þetta endi í átt til frjálsræðis, en við þurfum samt sem áður einnig að standa vörð um hagsmuni Háskóla Íslands. Og ég tel að sú leið sem við leggjum hér til sé mjög málefnaleg og hún sé til þess fallin að gæta hagsmuna allra þeirra sem að málinu koma. Ég get í sjálfu sér ekki og ekki heldur formaður hv. allshn. svarað fyrir þá vinnu sem farið hefur fram í dómsmrn. á fyrri árum en okkur er kunnugt um það að málið hefur dregist innan ráðuneytisins. Og þess vegna tökum við það fram í þessu nál. að það verði að hraða þessari vinnu sem mest má verða, eins og þar segir, og það verður ekki annað sagt en að það sé býsna fast að orði kveðið í nál. í því markmiði að niðurstaða fáist, sem sé endanleg.

Ég vil líka taka það fram að við erum ekki að leggja það til að lög sem eru ógild verði framlengd. Hér er ekki verið að framlengja lög sem brjóta lög. Við segjum í nál. að lögin eins og þau eru gætu farið gegn markmiðum samkeppnislaga með vísan til álits samkeppnisráðs, en það þýðir ekki endilega að lögin hafi verið brotin og þetta séu ólög, alls ekki, en það gæti verið. Það er ekki komin endanleg niðurstaða í það, ekki frekar en að það sé algjörlega ljóst að þessi ákvæði brjóti gegn 31. og 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það er reyndar til dómur frá 2001 frá Evrópudómstólnum í svokölluðu Gambaldi-máli þar sem þessu er gefið undir fótinn. Þar er hins vegar tekið skýrt fram að það sé dómstóla aðildarríkjanna að meta það hvort um slík brot sé að ræða eða hvort lögin standist ekki, en það hefur ekki verið gert. (Forseti hringir.) Þannig að ég vil leggja áherslu á að það kann að vera að þetta fari gegn ákvæðum laga, en það er ekki ljóst.

(Forseti (GÁS): Ég bið hv. þingmenn að gæta að rauða ljósinu.)