Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 18:13:01 (2475)

2003-12-03 18:13:01# 130. lþ. 41.9 fundur 173. mál: #A gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. s., Ásta R. Jóhannesdóttir, vakti athygli á því að allt hefði þetta tekið langan tíma. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. (Gripið fram í.) Nei, (Gripið fram í: En ... skipulagið?) það er mun auðveldara, hæstv. forseti, að fást við vegalagningu þar sem er ónumið land, það liggur alveg ljóst fyrir, svo ég bregðist við frammíkalli. Hins vegar er úr vöndu að ráða hér í borginni, ekki síst þegar ekki liggur fyrir hvernig skipulagið eigi að vera og það á við um gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem kallaði hér fram í, þekkir vel þá var tekin ákvörðun um það af skipulagsyfirvöldum borgarinnar á sínum tíma, eftir að R-listinn tók við, að breyta frá fyrri áformum, þ.e. að taka ákvörðun um það að hafa ljósastýrð gatnamót þarna. (Gripið fram í.) Það frestaði málinu öllu þegar menn áttuðu sig á því að það væri ófullnægjandi lausn. Það er því hluti af þeirri skýringu sem verður að draga fram í þessari umræðu þegar menn vekja réttilega athygli á því að allt hafi þetta tekið langan tíma.

Það er ekki hægt að svara spurningunni um hvenær þessu verki ljúki, það er það langt í land með undirbúning og þetta er það stórt verk. Það er alveg hárrétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það þarf að velja lausnir sem tryggja umferðaröryggi. Það höfum við verið að gera með því að velja mislæg gatnamót á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Reykjanesbrautar, við Stekkjabakka, við Víkurveg og Vesturlandsveg. Við höfum því verið að leggja feiknarlega mikla fjármuni í úrbætur á vegakerfi höfuðborgarsvæðisins og sennilega aldrei meira á nokkru öðru kjörtímabili en því sem leið og það eru mikil áform á því sem er nýlega byrjað.