Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:25:34 (2506)

2003-12-03 19:25:34# 130. lþ. 41.14 fundur 222. mál: #A Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:25]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að ég tel þjónustu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri mjög mikilvæga. Það er eina sjúkrahúsið sem kalla má hátæknisjúkrahús á landsbyggðinni og hefur með höndum afar mikilvæga starfsemi. Núna er sjúkrahúsið hins vegar með mörg járn í eldinum sem horfa til framfara. Með segulómtækinu flytjast 400--600 rannsóknir norður. Þær hafa hingað til verið framkvæmdar annars staðar og það er gríðarlega mikið atriði fyrir fólk á Norðurlandi og upptökusvæði sjúkrahússins að svo verði. Við erum að koma þar af stað byggingarframkvæmdum eftir margra ára hlé, sem hefur m.a. stafað af því að áform um samstarf við Íslenska erfðagreiningu hafa ekki gengið eftir. Við erum að setja þetta mál í farveg og byrja á innréttingu ,,núll-hæðarinnar`` sem svo er kölluð. Það er gríðarlega mikilvægt skref samhliða því að skipuleggja framhaldið.

Ég tel mjög mikilvægt að auka þjónustuna á sjúkrahúsinu, m.a. með krabbameins- og þvagfæralækningum. En ég get ekki sagt um það á þessu stigi hvort við höfum fjárveitingar til þess. Við munum halda þessu máli til haga við undirbúning fjárlaga 2005 en ég get ekki lofað á þessu stigi að það gangi eftir. En mér er fullljóst mikilvægi þessara framkvæmda við sjúkrahúsið og þróunarinnar á starfseminni.