Skipan löggæslumála

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:55:14 (2519)

2003-12-03 19:55:14# 130. lþ. 41.18 fundur 362. mál: #A skipan löggæslumála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:55]

Fyrirspyrjandi (Önundur S. Björnsson):

Virðulegi forseti. Löggæslumálin hafa eðlilega verið umfangsmikil í þjóðfélagsumræðunni á liðnum árum. Það hefur m.a. verið gagnrýnt að meira fé þurfi til löggæslumála í þéttbýli jafnt sem dreifbýli og þá ekki síst að sýnileg löggæsla verði veigameiri en verið hefur. Ýmsar skipulagsbreytingar hafa átt sér stað í þessum efnum á liðnum árum, m.a. stóraukið hlutverk ríkislögreglustjóra sem hefur sumpart orðið til á kostnað hinnar almennu löggæslu í umferðinni svo dæmi sé tekið.

Nýverið bárust fréttir af því að hæstv. dómsmrh. hefði sett nefnd á laggirnar sem hefur það verkefni samkvæmt fréttatilkynningu ráðuneytisins að setja fram tillögur á umdæmaskipan við löggæslu og innra starfi lögreglunnar. Út af fyrir sig er ekkert um það að segja að slík endurskoðun eigi sér reglulega stað. En í nefndri fréttatilkynningu er enn fremur sagt að nefndinni sé ætlað að styrkja og efla starfsemi lögreglu og nýta fjármuni betur. Allt hljómar þetta prýðilega.

En hvað er átt við með því að hópurinn eigi að skoða innra starf lögreglu? Er verið að opna á það að tiltekin starfsemi lögreglu verði á forræði sveitarfélaganna eins og stundum hefur verið nefnt? Er einnig verið að vísa til starfsskilyrða lögreglunnar og lögreglumanna á vettvangi, samanber uppkveðinn héraðsdóm frá því í gær þar sem heimildir lögreglumanna á vettvangi og verklag í þeim efnum var til úrlausnar? Eða lítur dómsmrh. þannig á að starfshópurinn taki þau álitamál sömuleiðis til skoðunar?

Virðulegi forseti. Hvað býr að baki af hálfu hæstv. dómsmrh.? Eru að baki hugmyndir hans sjálfs um að steypa saman einhverjum tilteknum umdæmum eða er allt undir? Er hæstv. dómsmrh. þeirrar skoðunar að umdæmin séu of mörg í dag eða er eitthvað annað á ferðinni? Í fréttatilkynningu ráðuneytisins er sagt að sýslumönnum eigi ekki að fækka þótt tillögur um sameiningu umdæma verði settar fram. Þá vaknar spurningin um stöðu sýslumanna í kjölfarið.

Stundum hefur sameining umdæma orðið til þess að jaðarbyggðir, byggðarlög sem eru fjærst miðju umdæmis, verða verst úti hvað löggæslu varðar. Í því sambandi má nefna Mosfellsbæ sem þjónað er frá Reykjavík, en einn nefndarmanna er einmitt bæjarstjóri þess bæjar.

En fyrirspurnir mínar eru skýrar, þær eru svohljóðandi:

1. Hver er tilgangur ráðherra með skipun starfshóps um breytingar á umdæmaskipan við löggæslu og innra starfi lögreglunnar?

2. Hvernig hljóðar erindisbréf starfshópsins og hvaða annað veganesti hefur hann frá ráðherra?