Samræmt fjarskiptakerfi

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:39:36 (2540)

2003-12-03 20:39:36# 130. lþ. 41.21 fundur 368. mál: #A samræmt fjarskiptakerfi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:39]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er honum hjartanlega sammála um að það verði auðvitað að vera samræmt kerfi og allir að vera með sama útbúnað þannig að allir viðbragðsaðilar geti talað saman hvar sem er á landinu. Þetta er vissulega dýrt kerfi og ég veit til þess að björgunarsveitir og aðrir aðilar sem vildu koma á þessu kerfi treysta sér jafnvel til að kaupa tækin en treysta sér ekki nema með stuðningi til að reka þau. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Mun hann beita sér fyrir því að þeim aðilum eins og björgunarsveitum og öðrum þeim sem koma að björgunaraðgerðum verði gert kleift að reka þessi tæki ef þeir kaupa TETRA-tækin en gömlu tækin, VHS-tækin sem þeir hafa verið með, voru með mjög lítinn rekstrarkostnað eftir að þeir voru búnir að eignast tækin.

Ég spyr hæstv. ráðherra, af því að hann talaði um að þeir væru að koma að rekstri þess fyrirtækis sem er með TETRA-kerfið: Hvað hefur hann gert til að beita sér í því að allir sem koma að þessum málum kaupi þetta samræmda kerfi? Því ég hef upplýsingar um það að ákveðnir aðilar séu að hyggja að miklum tækjakaupum, en það séu alls ekki TETRA-tæki. Mjög skýr skilaboð þurfa að koma frá yfirvaldinu, frá hæstv. ráðherra um að það beri að nota þennan tækjabúnað því að það varðar öryggi okkar allra. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Mun hann gefa út fyrirmæli um þetta þannig að ekki sé verið að kaupa dýr tæki sem ekki geta sinnt slíkum samskiptum? Ég minni á að við erum lítil og við höfum ekki efni á að vera með eitthvert smákóngakerfi. Við verðum að samnýta allt sem við getum. Það er bæði ódýrara og öruggara.