Neyðarlínan

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 21:00:40 (2549)

2003-12-03 21:00:40# 130. lþ. 41.23 fundur 372. mál: #A Neyðarlínan# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[21:00]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er alveg rétt að það er alveg óþarfi að vera eitthvað viðskotaillur þó maður spyrji út í þessi mál. Ég var ekki að gagnrýna notkun númersins 112. Ég veit að það er samræmt númer í Evrópu þó að það hafi ekki allar Evrópuþjóðir tekið það upp og mér finnst alveg sjálfsagt að nota það. En ég hefði talið eðlilegt að ef menn hringja í 911 mundi Neyðarlínan svara á því númeri líka. Það þyrfti ekki að kynna það neitt sérstaklega heldur væri þetta öryggisráðstöfun sem sneri þá að þeim ferðamönnum sem koma hér, Kanadamönnum, Bandaríkjamönnum og þeim sem búa á Keflavíkurflugvelli og þekkja vel þetta númer. Þar með værum við með meira öryggi hér en annars staðar og ættum bara að hreykja okkur af því. Ég tel að við ættum að gera þetta og heyri á hæstv. ráðherra að það sé ekkert því til fyrirstöðu og hvet hæstv. ráðherra til að koma þessu þannig fyrir, úr því að það er ekkert því til fyrirstöðu, að þegar einhver hringir í 911 á neyðarstundu sem neyðarnúmer, svari Neyðarlínan því líka. Við þurfum ekkert að kynna það neitt sérstaklega og það þarf ekki að ráðast í neinn kostnað út af því eða rugla neitt með það. Ég held að útlendingar sem eru hér ruglist frekar því að númerið 911 er mjög þekkt um allan heim eins og sést á sjónvarpsþáttum, bókum og umfjöllunum um þetta númer.

Ég hvet því hæstv. ráðherra til að koma þessari tengingu á og spyr hæstv. ráðherra: Mun hann gera það? Mun hann beita sér fyrir því að þarna verði tengt á milli þannig að öryggið verði heldur meira fyrir t.d. ferðamenn sem eru hér á ferð og þekkja þetta neyðarnúmer?