Neyðarlínan

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 21:02:48 (2550)

2003-12-03 21:02:48# 130. lþ. 41.23 fundur 372. mál: #A Neyðarlínan# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[21:02]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugmynd um hvað það kostar að tengja þetta og mun forgangsraða fjármunum á þann veg sem ég tel skynsamlegt ef ég veit hvað þetta kostar. Ég veit ekki hver á að bera þann kostnað eða hvort það sé áætlað fyrir kostnaðinum í einhverjum fjárveitingum eða fjárlögum sem kann að vera af því að taka þetta upp, en sjálfsagt er að líta til þess.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég er undrandi. Ég hef svarað öllum fsp. sem fram hafa komið og skýrt mín sjónarmið rækilega og brugðist við öllum spurningum. Svo standa hv. þm. upp og kvarta undan því að ég tali til þeirra í einhverri tóntegund sem þeir geti ekki unað. Ég er alveg undrandi á þessu. Mér finnst frekar að aðrir hafi staðið upp hér, virðulegi forseti, á þann veg að finna að því sem ég hef sagt og bera af sér sakir og vera með alls konar ávirðingar í minn garð út af þessu. Ég hef leitast við að svara öllum spurningum og ég skil ekki hvað er verið að draga það inn að þessar umræður séu á einhverjum öðrum nótum en hæfi hv. Alþingi þó ég lýsi mínum skoðunum og þær falli ekki að skoðunum þeirra tveggja þingmanna sem hér sitja í salnum og taka þátt í þessum umræðum við mig. Ég verð bara að segja að það kemur mér á óvart og lýsir ekki mikilli þolinmæði fyrir skoðunum annarra að menn tali á þann veg.

Varðandi þetta símanúmer þá verður það skoðað eins og önnur mál sem hér eru. En ef þetta kostar fé og ef það eru engar fjárveitingar til þess, þá er ekki hægt að ganga til þess verks.