Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:29:19 (2960)

2003-12-06 16:29:19# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:29]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma að í síðari ræðu minni. Það hefur einkum verið rætt um kostnaðarmötin, dagsetningar, hvenær kostnaðarmöt voru gerð, hvort það hafi verið gerð kostnaðarmöt á fleiri útfærslum og hvernig upplýsingar hafi borist um málin.

Eins og fram hefur komið var þetta mál lengi í undirbúningi. Viðræður höfðu farið fram á mörgum sviðum milli ráðuneytisins, mín persónulega, og Öryrkjabandalagsins. Ýmsum leiðum hefur verið velt upp óformlega í þeirri umræðu, eins og hefur komið fram hér í dag. Hins vegar er það alveg rétt að við staðnæmdumst við þá leið sem tveir hv. þm., Ögmundur Jónasson, 9. þm. Reykv. s., og hv. 9. þm. Reykv. n., Helgi Hjörvar, gerðu grein fyrir. Við horfðum mikið til línulegrar útfærslu og það er sú leið sem var kostnaðarmetin.

Eftir að ég skipaði starfshóp 9. maí fékk ég upplýsingar um það í ágúst að sú leið sem starfshópurinn var vissulega að skoða mundi kosta 1.528 millj. Það breytir því ekki að samkomulagið sem ég kynnti ríkisstjórninni og samkomulagið sem ég er að uppfylla með þessu frv. gerði ráð fyrir 1 milljarði kr.

Mér þótti skylt að láta á það reyna hvort það væri möguleiki að fara þessa leið og mér þótti einnig skylt að velta upp þeim hugmyndum að fara hana 1. janúar 2005. Þær leiðir voru ræddar í starfshópnum. Það er ekkert leyndarmál. Þó að engin formleg niðurstaða liggi fyrir frá starfshópnum voru þær leiðir ræddar, eins og ég gerði grein fyrir í umræðum á Alþingi. Ég hef nefnilega ekki reynt að draga neina fjöður yfir þetta mál. Það breytir því samt ekki að samkomulagið sem var handsalað og kynnt 25. mars reiknaði með 1 milljarði króna í þetta og útfærslan átti síðan að vera í höndum starfshóps sem tók til starfa 9. maí. Starfshópurinn ræddi þessa línulegu útfærslu, ýmsa möguleika á henni og m.a. að taka hana þá í gildi 1. janúar 2005. Sú varð ekki niðurstaðan og ég lagði fram frv. í samræmi við þær upphæðir sem eru í samkomulaginu. Hins vegar eru meginatriðin í samkomulaginu þau að taka upp aldurstengdar örorkubætur og taka fyrsta skref í að koma til móts við yngstu öryrkjana. Það eru meginatriði samkomulagsins. Ég lét reyna á það og ræddi hvort hægt væri að ganga lengra og nota þessa línulegu útfærslu. Það er ekkert leyndarmál og ég þarf ekkert að draga fjöður yfir það í þessu sambandi. Ég tel að þetta svari spurningum þeim sem hv. þm. Helgi Hjörvar beindi til mín.

Stundum hafa í þessari umræðu fallið orð um lygi og svik og hv. þm. Ögmundur Jónasson fer stundum mikinn. Hv. þm. fór fljótlega úr þessum ham í ræðu sinni og fór í þann sanngjarna ham sem hann er oft í, þann ham sem hefur yfirleitt snúið að mér í samskiptum okkar, og þau hafa verið góð. Hann sagði: Hugsunin er mjög góð í þessum samningi. Hann fór viðurkenningarorðum um samkomulagið og ég þakka honum fyrir það þó að hann dytti í það að hafa nokkur stóryrði í upphafi máls síns.

Eitt vil ég alveg frábiðja mér. Ég hef hvorki logið upp á Öryrkjabandalagið né neinn annan. Öryrkjabandalagið er að berjast fyrir hagsmunum sínum og það mun halda því áfram. Ég hef ekki logið neinu upp á það, ég kannast ekki við það. Ég vonast satt að segja til að ég eigi við það áfram gott samstarf þegar, eins og ég sagði, þetta frv. er komið í gegn, sem það verður að gera auðvitað fyrir áramót til þess að við getum greitt út þann milljarð sem er í fjárlögunum og til að við getum komið þessum kjarabótum í framkvæmd.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, 4. þm. Reykv. s., spurði mig hvers vegna væri miðað við 18 ára aldur í frv. Þetta var rætt í starfshópnum, það var rætt um hvort það ætti að miða við 16 ára aldur en frá því var horfið vegna þess að unglingar 16--18 ára eru á framfæri foreldra og foreldrarnir fá umönnunarbætur. Ég varð ekki var við það í starfshópnum að þetta atriði væri kjarni málsins, það var ekki deilt um þetta. Menn fóru þá leið að neðri mörkin væru 18 ára aldur en þetta var ekki í miðju átakanna.

Síðan er það varðandi raunútgjöld ríkissjóðs af þessu máli. Eins og kom fram í andsvari hjá mér fyrr í dag er þar verið að tala um skattleysismörk eins og á við um allar bætur. Það má þá alveg segja það sama um raunútgjöld varðandi t.d. ellilífeyri. Þá má yfirfæra það á alla bótaflokka ef það ætti að fara þessa leið þannig að þar er um annað mál að ræða.

Ágúst Ólafur Ágústsson, hv. 10. þm. Reykv. s., ræddi um stöðu okkar í alþjóðlegum samanburði. Það er oft erfitt að bera okkur saman við aðra vegna þess að það er svo misjafnt hvort félagsleg útgjöld eru tekin inn í tryggingaútgjöldin. Ég held að heppilegasti og sanngjarnasti samanburðurinn sé ef velferðarútgjöldin eru lögð saman vegna félagsmála, vegna tryggingamála, og þá liggjum við um miðju Norðurlandanna. Það er rétt að Danir og Svíar eru hærri en við en við liggjum nálægt miðju.

Aðalatriðið finnst mér í þessu máli að hér er verið að bæta, eins og margoft hefur komið fram í dag, kjör öryrkja. Það finnst mér meginmálið varðandi þetta og ekki síður að með þessu frv. er verið að uppfylla það mikla baráttumál Öryrkjabandalagsins að taka upp aldurstengdar örorkubætur. Það finnst mér afar mikilvægt varðandi það mál sem hér er til umræðu og ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í að hrinda því baráttumáli í framkvæmd. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem sagði --- og sneri þá sanngirninni að hæstv. ráðherra hér --- að hugsunin væri mjög góð í þessu frv. Mér þykir vænt um þau ummæli og ég vil vinna áfram að baráttumálum öryrkja á þeim nótum.